Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Yfir hvað?

Í Ríkisútvarpinu á dögunum var sagt að tvær unglingsstúlkur hefðu komið “til kasta lögreglu” en þær munu hafa verið handteknar vegna gruns um þær væru með fíkniefni á sér og reyndist svo vera (víst á leyndum stað). Þetta er að líkindum dæmi um ofvöndun. Orðatiltækið “að eitthvað komi til kasta” þýðir að það komi til ákvörðunar, eða úrskurðar og þekkist í gömlu máli, þótt það sé sýnu algengara á seinni tímum. Á hinn bóginn er til orðatiltækið “að komast í kast við eitthvað” til dæmis að komast í kast við lögin eða aðra menn og er það þekkt frá fornu fari, er t.d. að finna í Njáls sögu. Hér hefur þessu slegið saman. Annars þekkja það allir blaðamenn sem unnið hafa úr lögregluskýrslum, að þar er stundum að finna málblóm, sem ekkert erindi eiga í urtagarð blaða eða útvarps. En sem sagt, stúlkurnar komust í kast við laganna verði en komu ekki til kasta lögreglu.

Í stuttri kynningu í sjónvarpi tókst dagskrárgerðarkonu nokkurri að koma tvisvar að langlokunni “þrátt fyrir það að” í staðinn fyrir þótt eða þó að.

Enn dynur á okkur tökuþýðingin “að taka yfir” í merkingunni að kaupa eða eignast. Í gömlu máli var þetta orðasamband til og merkti þá að keyra um þverbak. Í hinni nýju peningamannamerkingu finnst þetta ekki í orðabók Menningarsjóðs, tveimur eldri útgáfum en í útgáfu Marðar Árnasonar af sömu bók er það komið og sagt “óformlegt” sem ég held að séu skrauthvörf þeirrar bókar fyrir vont mál. Þetta orðasamband er með öllu óþarft. Eimskipafélagið er einfaldlega að kaupa kanadiskt félag, og eignast það þá náttúrulega. Það sendir hluthöfunum tilboð um kaupin. Nafnorðin “yfirtaka” og “yfirtökutilboð” eru bæði ljót, hrá þýðing úr ensku, og aldeilis óþörf.

Um daginn talaði ég stuttlega um lýsingarorðið kýrskýr, sem merkir skv. orðabókinni nautheimskur. Mér brá því náttúrulega nokkuð í brún, þegar ég heyrði annars ágætlega máli farinn ráðherra og skýran taka sér það í munn í merkingunni “ljóst” “skýrt” eða eins og stundum er sagt “morgunljóst”. Þetta var hann Össur okkar iðnaðarráðherra og var að tala um Norðlingaölduveitu og friðun Þjórsárvera og vísaði í stjórnarsáttmálann. En góðir hlustendur, þið þekkið þetta kannski í þessari merkingu? Ef svo er, er þetta slangur og hefur hugsanlega orðið til sem hótfyndni. Dæmi um hliðstæður eru til. En fyrst og fremst þýðir lýsingarorðið kýrskýr heimskur. Meira að segja nautheimskur.


Hlýnun í snjó og kulda

Ég sé að þrátt fyrir mestu snjóþyngsl í Reykjavík í fjórtán ár og eiginlega bara fimbulkulda, sem ekki sér fyrir endann á hafa menn ahyggjur af hlýnun. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að hér sé alltaf hlýtt og notalegt þótt hlýnun og jöklabráðnun valdi flóðum og hörmungum um víða veröld. Í New York Times í dag er grein um bráðnun jökla á Grænlandi. Þar er því spáð að bráðnun Grænlandsjökuls kunni að valda eins til tveggja feta hækkun sjávarborðs á næstu áratugum. Það mun leiða til stórvandræða víða um heim, stórar lendur nálægt sjávarborði munu flæða og hætta á skemmdum af völdum illviðra margfaldast. Hér á landi gæti þetta eflaust haft áhrif. Flóðahætta í þorpum og bæjum á Suðvesturlandi mun aukast og gera þyrfti ráðstafanir t.a.m í Reykjavík til þess að verjast sjógangi og flóðum í vondum veðrum.

Ýmis merki sjást hér um hlýnun síðustu ára. Stór stöðuvötn eins og Þingvallavatn hefur ekki lagt síðustu ár, sem var nauða sjaldgæft á síðustu öld. Ég var á ferð í Þingvallasveit á sunnudag. Þá var enginn eða nær enginn ís á vatninu  þrátt fyrir langan frostakafla undnfarið. Að vísu sjaldnast logn. Í nótt var 17-18 stiga frost þar eystra í lygnu veðri. Kannski hefur vatnið náð að leggja. Því miður eru rannsóknir ekki nægar á vatnsbúskapnum þarna. Lítið er t.d. vitað um breytingar á innrennsli, bæði er varðar magn og hita. Til eru ágætar rannsóknaniðurstöður Freysteins Sigurðssonar og Guttorms Sigbjarnarsonar en vöktun vantar í þessu eins og fleiru. Mætti kannski stinga því að Þingvallanefnd að leggja þar eitthvað til málanna og Orkuveitan og Landsvirkjun mega borga enda njóta þessi fyrirtæki ávaxtanna af vatninu í kvosinni. Og fyrst verið er að tala um Landsvirkjun og Þingvallavatn: Senn fer að vora. Þá kemur í ljós hvort Landsvirkjun hagar rennsli úr vatninu með þeim hætti að sómi sé að, eða hvort fyrirtækið verði áfram með allt á hælunum. Hvort ráðamenn Landsvirkjunar hafa áttað sig á því að Þingvallavatn og virkjanirnar í Soginu geta verið sýningargluggi á raunverulega umhverfisstefnu fyrirtækisins.


mbl.is Bráðnun hafíss hraðar hlýnun andrúmsloftsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar strípur

Nú eru þeir búnir að drepa alla fuglana í húsdýragarðinum nema örninn. Af hugsanlega, væntanlega yfirvofandi hættu af fuglaflensu. Nema hvað, þessir fuglr voru ekki veikir. Þeir voru ekki smitandi, svo vitað sé. Þeir mældust með mótefni gegn einhverjum eldri tegundum fuglaflensu. Flensa hefur að líkindum gengið í fuglum eins lengi og fuglar hafa verið til. Og munu ganga meðan fuglar verða til. Þessar flensutegundir eru misskæðar. Bæði gagnvart fuglum og hversu líklegt er að þær breytist og smitist í menn. Engin líkindi eru til þess að fuglar húsdýragarðsins hafi ógnað nokkrum, þótt mótefni hafi mælst í einhverjum þeirra gegn fyrri tegundum fuglaflensu. Hvers vegna var þeim lógað? Sjálfur fékk ég lömunarveikina 1955. Ég mælist með mótefni gegn henni. Ný afbrigði geta komið upp af þessari pest. Á að lóga okkur, þessum sem höfum mótefni gegn veikinni? Hvaða rök hefur yfirdýralæknir fyrir þessari slátrun? Vantar dýralækna kannski strípur á ermarnar? Þeim fylgir stundum byssa.

Hvað er að Friðrik?

Síðustu vikuna hefur Landsvirkjun verið að sturta niður úr klósettkassanum sínum sem við hin köllum Þingvallavatn. Þessi síðasta atlaga að vatninu hófst 31. júlí. Þá  var rennsli Sogsins aukið úr 92 rúmmetrum á sekúndu og upp í 118 en hefur síðustu dagana verið um 112. Það er um 10% yfir eðlilegu sumarrennsli. Nú hefur sniglableikjan nýlokið hrygningu. Mikið líf er í vatninu. Efstu sentimetrarnir eru mikilvægasti hluti lífríkisins. Landsvirkjunarmenn hafa haldið því fram að þeir hafi ekki notað Þingvallavatn til miðlunar síðan 1984. Nú hafa þeir sturtað niður þrisvar í sumar meðan lífið ætti að vera í hámarki. Er Landsvirkjun að ljúga því að vatnið sé ekki notað til miðlunar? Ert þú, Friðrik Sophusson, að afla fyrirtækinu vinsælda með þessu og sanna það að LV láti sér annt um lífríkið eða er þetta skerfur til þess að auka hróður Íslendinga erlendis sem nýlega fengu því áorkað að Þingvellir komust á heimsminjaskrá UNESCO. Ég hef ekki enn lesið nýsetta reglugerð um verndun vatnasviðs Þingvallvatns. En ég vona sannarlega að þar séu ákvæði sem geri kleift að afstýra umhverfisspjöllum.

Enn er sveiflað!

Síðustu tvo pistla hef ég skrifað um gríðarlegar sveiflur á vatnsborði Þingvallavatns. Engin skýring hefur fengist á þessu. Enn er ekkert lát á sveiflunum, nú síðustu daga hefur vatnsborð reyndar stigið um 7 sentimetra á tveimur dögum en í lækkunarlotunni þar á undan lækkaði um 14 sentimetra á sex dögum. Samsvarandi  eða jafnvel enn meiri sveiflur hafa verið á rennsli Sogsins. Þannig hefur rennslið við Ásgarð sveiflast frá rúmlega 80 rúmmetrum á sekúndu upp í 139 síðasta mánuð. Ég hef ekki handbærar tölur um náttúrulegt meðalrennsli við Ásgarð en gæti trúað að það væri um 110 rúmmetrar á sekúndu. Rennslið úr Þingvallavatni er í kringum 100 og kemur megnið af því úr lindum eða u.þ.b. 90. Fimm koma úr ám og öðru yfirborðsrennsli og fimm falla á vatnið sem úrkoma. Að jafnaði má búast við að írennsli minnki frá vori til hausts. Við náttúrulegar aðstæður er því lítið um sveiflur á sumrin. Úrhellisrigning, t.d. 30 mm á sólarhring, sem er fremur sjaldgæft hækkar vatnsborðið í raun um aðeins  30 mm. Sveiflur Landsvirkjunar eru því úr öllum takti við það sem lífríkið hefur lagað sig að á 10 000 árum. Þetta nær vitaskuld ekki nokkurri átt. Eina hugsanlega skýringin er sú að Landsvirkjun noti Þingvallavatn til þess jafna út einhverjar sveiflur í raforkukerfinu og nýti þá virkjanirnar í Sogi eins og toppstöð. LV virðist halda sig innan samkomulagsins um 20 sentimetra vatnsborðssveiflu en miðla purrkunarlaust innan þeirra marka. Þetta gera þeir þótt þeir segi í einni ársskýrslu sinni að Þingvallavatn sé ekki notað til miðlunar og hafi ekki verið síðan 1984. Ef ekki er um að ræða miðlun vegna raforkuframleiðslu hljóta menn að spyrja til hvers þetta sé gert. Eina svarið, ef ekki er um að ræða miðlun vegna rafmagnsframleiðslu, er heimska. Þetta hringl með vatnsborðið er fullkomlega óverjandi framkoma og eykur ekki á traust manna á fyrirtækinu. Virðist þó vera að Landsvirkjun þurfi síst á því að halda að fá á sig orð fyrir atlögu að náttúrunni, mikilvægasta stað þjóðarinnar og hinum eina sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Við sem unnum Þingvallavatni setjum nú allt okkar traust á umhverfisráðherra og væntanlega reglugerð við lög um verndun vatnasviðs Þingvallavatns. Þar er unnt að banna Landsvirkjun þetta fikt og greinilega þörf á því, því fyrirtækið sér ekki sóma sinn í að gera þetta að eigin frumkvæði.

Til hvers?

Í síðasta pistli mínum var ég að tala um vatnshæðina í Þingvallavatni. Í athugasemd sem ég skrifaði sjálfur í gær gat ég þess að lækkað hefði í vatninu  um 10 sentimetra  síðustu fjóra dagana eða svo. Ekkert lát virðist vera á þessari lækkun, og vatnshæðin komin niður fyrir 100,4 m.y.s. enda rennsli enn um 133  rúmmetrar á sekúndu í  Sogi við  Ásgarð.  Engin skýring hefur fengist á þessum uppátækjum Landsvirkjunar. Í nýsettum lögum um verndun vatnasvæðis Þingvallavatns eru ákvæði um að umhverfisráðherra geti sett reglur um breytingar á vatnshæð. Ég skora á nýjan umhverfisráðherra, Jónínu Bjartmarz að setja þessar reglur strax. 

Komin aftur

    Hef veitt sæmilega síðustu daga. Bleikjan er komin aftur eftir tæplega tveggja vikna fjarvist af grunnslóð. Kunningi minn sagði mér að lokustjórar Landsvirkjunar við útfallið hefðu enn einu sinni sturtað niður og næmi vatnsborðslækkunin tíu sentimetrum á afar stuttum tíma. Ég hef ekki getað staðreynt þetta en efast ekki um að þetta sé satt, í ljósi fyrri reynslu.

    En þetta er svo sem ekkert nýtt. Landsvirkjunarmenn virðast ekki geta lært þær einföldu staðreyndir að svona fikt í rennslinu, með tilheyrandi snöggri vatnsborðslækkun virkar eins og Þingvallavatn hafi orðið fyrir víðtækri sprengjuárás. Allt lífríkið verður fyrir áfalli. Mýklak skemmist, vatnabobbi drepst og bleikjan hverfur út á djúpið.

    Fyrir þessu er áratugareynsla heimamanna sem best þekkja vatnið. Og alkunnug er sú líffræðilega staðreynd að virkni lífríkisins er mest í efstu sentimetrum vatnsins. Baráttan við lokustjóra Landsvirkjunar hefur staðið í áratugi, eða síðan þeir settust við kranana á virkjununum við Sogið. Upphaflega báru þeir hinum ótrúlegustu firrum við.

    Þeir þrættu fyrir að vatnsborðið hefði hækkað við stíflugerð í útfallinu, þótt það lægi fyrir skjalfest. Þeir héldu því fram að vatnsborðsbreytingar hefðu engin áhrif á lífríkið. Þeir héldu því fram að vatnsborðsbreytingar væru minni eftir virkjun en fyrir og minntust þá ekkert á það að áður voru vatnsborðsbreytingar sneggstar í kerlingarhlákum á veturna þegar áhrifin eru sáralítil á lífríkið.

    Loks féllst Landsvirkjun á að takmarka snöggar vatnsborðsbreytingar við 20 sentimetra og hefur haldið það samkomulag sæmilega. En að margra mati er þetta allt of mikil breyting og reyndar með öllu óþörf.

    Við sem unnum náttúru Þingvallavatns erum búin til þess að láta liggja í láginni fyrri glæpi, eins og þegar merkilegasta urriðastofni Evrópu var útrýmt til þess að byggja smávirkjun og bitmýinu í Soginu var útrýmt með eitri. Þá vissu menn  kannski ekki hvað þeir voru að gera. Nú eiga menn að vita betur. Látið þið Þingvallavatn í friði, lokustjórar. Þið hafið gert nægar skammir af ykkur á liðnum árum.

     


"Hinn síðfrjóva hegg"

    Var að koma að utan úr stuttri gönguferð. Sá raunar að heggirnir í garðinum eru óðum að laufgast. Það leiddi hugann að lokamálsgreininni í Gerplu Halldórs Laxness:"Þá var túngl geingið undir og felur nóttin dal og hól á Stiklarstöðum, og svo hinn síðfrjóva hegg." Mér hafa sagt staðkunnugir að heggur vaxi ekki á Stiklarstöðum og svo kann að vera álitamál hvort hann er tiltakanlega síðfrjór.

    En þetta er náttúrlega allt skáldaleyfi. En svo vikið sé að þessu merkilega tré, þá minnir mig að það sé með elstu blómstrandi runnum sem Íslendingar reyndu að rækta í görðum sínum, þótt ekki hafi það verið í fyrsta hópi þeirra plantna sem Schierbeck landlæknir setti niður hér undir lok 19. aldar. En hegg er að finna þar sem áður var uppvaxtarbeð í reit Skógræktarfélags Reykjavíkur hins elsta, við Rauðavatn. Svo hann gæti hafa verið kominn hér um aldamótin 1900.

    Og eitt er víst, hann vex ljómandi vel hér og plöntur sem sprottið hafa upp af fræi af trjám sem hér vaxa eru oft blómviljugri og sterkari en innfluttar plöntur. Þannig er það reyndar um fleiri plöntur. Ég hef oft undrast hvað Reykjavíkurborg gróðursetur lítið af merkilegum trjám og blómstrandi runnum á opnum svæðum í borginni. Ég held að það stafi meðfram af því að fagkunnáttu á trjárækt hefur vantað. Ég ætla ekki að nefna dæmi um þetta, sem ég þó þekki, en vona bara að þetta sé að breytast.


Espressókaffi hættulegt?

Sé í þessari frétt mbl.is að kaffi er ekki hættulegt eins og margir hafa þó haldið fram. Þó er bara um að ræða kaffi sem hellt er á í gegnum pappírsfilter.

Jamm. Espressó og pressukaffi er semsagt hættulegt. Eða hvað? Þetta er bandarísk könnun og þar drekkur enginn kaffi nema úr uppáhellingar-pappírsfilterkönnum. Og reyndar yfirleitt ódrekkandi, illa brennt, skolp. Að vísu er á seinni árum hægt að fá almennilegt kaffi á veitingahúsum.

En á maður að trúa þessu? Áratugum saman var okkur sagt að borða smjörlíki í staðinn fyrir smjör. Nú er komið í ljós að í smjörlíki eru hættulegar fitusýrur, svokallaðar trans- fitusýrur en smjör og dýrafita er ekki eins óholl og talið var. Menn eru reyndar að komast að þeirri vísindalegu niðurstöðu sem forfeður okkar vissu af reynslunni að það er óhófið sem er hættulegast. "Það er óhollt að borða sig saddan", sagði íslenskur búnaðarfrömuður þegar vinnumenn hans vildu fá meira að éta. Ofgnóttin, hreyfingarleysið og ýmis verksmiðjuframleiddur og meðhöndlaður matur eru sennilega verstu óvinirnir.

Ég held ótrauður áfram að drekka mitt espressókaffi. 


mbl.is Uppáhellt kaffi er ekki heilsuspillandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jöklafýla og gos

Ég var að ljúka við athugasemd til Einars Sveinbjörnssonar á stórgóðum vef hans um það sem hann kallar hverafýlu en ég vandist að væri kölluð jöklafýla. Hún var á fyrri árum talin ótvírætt merki um það að eitthvað væri á seyði í jöklunum, hlaup eða gos. Núorðið er ekkert að marka þetta, því þessa lykt leggur stöðugt frá jarðgufuvirkjununum og meira að segja er heldur ekkert að marka þótt falli á málma, sem áður var talið ótvírætt merki um að sá í neðra væri að ræskja sig.

Ég minnist þess reyndar að hún amma mín kvað fólk í Þingvallasveit hafa spáð í gufurnar í Henglinum á heyskapartíð. Það er vitaskuld ekki hægt lengur. Alltaf verið að bora!

En aftur að jöklafýlu og hlaupum. Enn er brennisteinn merki um tengsl vatns við kviku. Ekki veit ég hvort Sigurður Reynir Gíslason og félagar hafa tekið sýni til greininga úr Skaftá nú en fróðlegt væri að fá að heyra um það. Eitt er það við þetta hlaup sem gæti bent til þess að það tengdist eldvirkni á eða við yfirborð. Það er hversu hratt það vex og springur fram úr jöklinum. Eðli málsins samkvæmt er aðstreymi varmagjafans með allt öðrum hætti, þegar kvika veldur hlaupi en þegar jarðhiti bræðir jökulísinn.

En þetta kemur allt í ljós. 


Næsta síða »

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband