Færsluflokkur: Dægurmál

Ekki í hópi frumsýningargesta

Ég hef stundum haft á orði, þegar ég hef verið gagnrýndur fyrir að hafa mig lítið í frammi, að ég hafi aldrei verið í hópi frumsýningargesta og verði aldrei. Þótt þetta sé reyndar ekki alveg satt, hef ég oftast verið einn þeirra fjölmiðlamanna, sem hafa þóst góðir, ef þeim hefur verið boðið á aðalæfingu. Og það er bara ágætt. Það hvarflaði ekki að mér fyrr en nýlega að þessi flokkun, frumsýningargestir og hinir, væri kannski djúptækari en ég hafði haldið.

Þannig var að ein náfrænka mín var að gifta sig. Hún var heimagangur hjá mér, nánast frá því hún fæddist og fram undir það hún var tíu ára. Hún var sérlega skemmtilegt og gáfað barn. Ég hef fylgst með henni allar götur síðan og henni hefur gengið vel á lífsbrautinni.

Hún kynntist ágætum manni. Hann er af góðu fólki, meira að segja Jensen, en það  er samheiti í mínum hópi fyrir ættarnöfn, sem ekki hafa tíðkast hjá mínu fólki. Og þau voru sem sagt að gifta sig á dögunum. Og það frétti ég utan að mér, því mér og mínum var ekki boðið til fagnaðarins.

Við erum nefnilega ekki í hópi frumsýningargesta. Og eigum ekkert Jensen eða Hansen.


Hörmulegt tjón

Það var ægilegt að fylgjast með brunanum í gær. Eins og fleiri fylgdist ég með útsendingu í sjónvarpi. Það var á hinn bóginn mannsbragur á borgarstjóranum, að hann skyldi koma á vettvang og stappa stáli í slökkviliðið. Það var líka athyglisvert, hve eindregið hann mælti fyrir endurbyggingu húsanna. Vonandi verður af því. Peningar virðast nógir til ef mið er tekið af því sem eytt er í annað. Sjálfur á ég æskuminningar úr Austurstræti, föðursystir mín vann hjá L.H. Muller í Austurstræti 17 og sjálfur var ég sendill þar um stuttan tíma. Þá var Haraldarbúð ennþá til, og Bjarni í Tóbakshúsinu gyllti líkamsræktarkerfi Atlas fyrir ungum mönnum. Á laugardögum seldum við strákarnir sunnudagstímann, sem prentaður var eftir hádegið í Eddunni í Skuggasundi. Þá var pylsusjoppa í steinbyggingunni þar sem eldurinn kom upp. Annars held ég að þar hafi á árum áður verið ein fyrsta leigubílastöð bæjarins. Persilkonan var enn á klukkunni, gamli símaklefinn á sínum stað og karlinn á kassanum boðaði syndugum eilífan eld en dyggðugum sæluvist á himnum. Þegar sól var og gott veður seldi Pétur Hoffmann hluta af fjársjóðum sínum á stéttinni við Útvegsbankann. Þessi miðbær kemur aldrei aftur en kannski verður hægt að sýna því húsi sóma, þr sem Jörgen Jörgensen dansaði menúett um árið.

mbl.is "Höll Hundadagakonungs" varð æstum eldinum að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnan þvælist fyrir

Sem ég sit og skrifa þetta, skín sólin en dálítið stórkarlalegir skýjabólstrar sigla um himininn. Í veðri eins og þessu ætti maður náttúrlega að standa í vatni upp á mið læri og liðka á sér úlnliðinn, heyra hvininn í línunni og sjá hana réttast mjúklega úti á vatninu, með lítilli skvettu í endann.  Og svo telur maður upp að tuttugu og dregur síðan löturhægt inn, þá kemur höggið og syngur í hjólinu í svolitla stund. Aleinn með sjálfum sér, fuglunum og fiskinum. Álftir fljúga yfir með því sem rómantískir menn kalla söng en ég er líklega ekki nógu lagviss fyrir svanasöng. Þá þykir mér hreinni tónn í kalli himbrimans sem berst yfir spegilinn handan vatnsins.  En, vinnan þvælist fyrir. Og kemur fyrir lítið þótt maður rifji upp gömul spakmæli eins og: "Slæmur dagur í veiði er betri en góður dagur í vinnunni." Ljúka þarf einhverjum verkefnum áður en hægt er að horfa dreymandi út á vatn og taka sveifluna.

    Þetta minnir mig á gamla daga, þegar ég las fyrir próf einn góðan veðurdag í maí, og  í þá daga var alltaf sól og blíða í maí, og félagi minn í lestrinum, nú þingmaður Samfylkingarinnar horfði angurvært út um gluggann og sagði: "Að hugsa sér, við hér yfir rykugum skræðum, þegar maður ætti að vera þarna úti að elta á sér áttavitann." Hann þorir líklega ekki að taka svona til orða nú, í hinum pólitíska rétttrúnaðaranda sem hér ræður ríkjum. En öllu lýkur einhverntíma, prófum og verkefnum og þá verður tekið til óspilltra málanna, enda græjurnar beðið tilbúnar síðan í mars


Skyldi það breytast?

Nú hafa lögin Um Ríkisútvarpið loksins verið samþykkt. Ég hef í sjálfu sér ekki kynnt mér þau nóg til þess að geta fjallað um þau í smáatriðum. Margar spurningar hafa samt vaknað. Svo er að sjá, að þeir sem aðeins greiða skatt af fjármagnstekjum verði undanþegnir nefskattinum sem renna á til þessa hlutafélags. Rétt eins og þeir þurfa ekki að greiða neitt til sveitarfélaganna. Þá hef ég heldur ekki séð hvernig hin nýju lög eiga að tryggja afkomu Ríkisútvarpsins en það hefur verið rekið þannig undanfarin ár að ef um einkafyrirtæki væri að ræða bæri stjórnendum þess að biðja um gjaldþrotaskipti. Þá veit ég heldur ekkert um hvernig tryggt verður að RÚV verði ekki stjórnað úr Valhöll eins og fjöldamörg undanfarin ár.

Ég hef verið dyggur stuðningsmaður RÚV um árabil og vann þar lengi eins og mörgum er kunnugt. Í mínum huga leikur enginn efi á um það, að nauðsyn er á því. En þá þarf að tryggja sjálfstæði þess gagnvart ósvífnum og óbilgjörnum stjórnmálamönnum og gera  því kleift að þroskast og dafna án þess að þrengja að einkareknum fjölmiðlum á samkeppnismarkaði. Ég held raunar að vilji menntamálaráðherra standi til þess. En það hlýtur að vera skoðun allra sanngjarnra manna að til þess að ná því markmiði hefði þurft að ná almennri pólitískri sátt. Það hefur ekki tekist og þess vegna virðist framtíð Ríkisútvarpsins enn óviss og raunar í uppnámi.


mbl.is Mikill halli á rekstri Ríkisútvarpsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er komið gat á himininn

    Einu sinni var mér sögð sú saga frá rigningarsumrinu 1955, að einn daginn hefði barn komið hlaupandi inn til móður sinnar, þar sem þau voru hér rétt fyrir ofan bæ, og hrópað óðamála: "Mamma, mamma, það er komið gat á himininn!" Þá sá nefnilega upp í bláan himin, í fyrsta skipti í nokkrar vikur. Barnið mundi ekki eftir að hafa séð þennan torkennilega bláa lit áður.

    Það var reyndar líka þetta vor, sem Brynki Melsted, sem var á leið til Reykjavíkur að ná í áburð fyrir bónda uppi í hrepp, sneri við í Fóelluvötnunum, því hann sá á þeim, að óþurrkasumar var framundan. Þá var ekki ástæða til þess að sóa peningum í áburð!

    Ef ég ætti móður á lífi hefði ég farið til hennar á dögunum og rifjað upp þessa sögu um gatið á himninum, þegar brá til sólarglætu hér á suðvesturhorninu eftir langa kulda- og vætutíð. Hún hefði þá sjálfsagt líka rifjað upp, að þetta sumar var hún með mig, á fimmta ári, í litlum sumarbústað í Þingvallasveit. Þar var mín helsta skemmtun að standa undir rennunni, ja þegar ég var ekki að sulla í læknum. Flest kvöld var snúran yfir kabyssunni þunghlaðin af blautum fötum. En ekki man ég til að rigningin og bleytan hafi angrað mig, þótt mamma hafi þurft að hafa fyrir lífinu.


Það er of seint - það er komið á NFS

    Í gamla daga gekk fólki stundum illa að fá leiðrétt mistök sem gerð voru í bönkum, stórfyrirtækjum eða ríkisstofnunum. Var þá gjarnan brugðist við eitthvað á þessa leið: "Nei, því miður við getum ekki leiðrétt þetta,  þetta er komið í tölvu". Óupplýstur almenningur átti að trúa því og trúði sannarlega að ef eitthvað færi einhvern tímann inn í þessa voðalegu maskínu, tölvuna, væri aldrei hægt að breyta neinu aftur. Sennilega voru líka margir starfsmenn ófærir um að leiðrétta mistök. Flestir vita nú að þetta er tóm vitleysa, hvort sem þeir sem þetta sögðu trúðu því eða voru bara að notfæra sér fáfræði almennings.

    En þessi græja, sem étur vitleysur og notar þær aftur og aftur er hins vegar til. Hún hefur nefnilega tekið sér bólfestu á fréttastofu NFS. Ef vitleysa kemst þar inn í fréttir, sem reyndar er ótrúlega oft, er eins og hún komist ekki út aftur.

    Um daginn var sækjandi  í máli um slys á Viðeyjarsundi kallaður verjandi. Þetta var svo endurtekið hvað eftir annað. Ágætir fréttaþulir tuggðu þetta upp aftur og aftur án þess að láta sér bregða. Satt að segja er ekki við því að búast að áhorf aukist, þegar vinnubrögðin eru ekki betri en þetta.


Slæm hugmynd

Ekki finnst mér það góð hugmynd að flytja Árbæjarsafn út í Viðey. Safnið tengist útivistarsvæðinu í Elliðaárdal afar vel þar sem það er og safni Orkuveitunnar, bæði virkjuninni sem er einstök gersemi og safninu sjálfu. Ég tel að þótt nauðsynlegt sé að reyna að hressa upp á Viðey geti það aldrei orðið liður í því að rífa niður það sem byggt hefur verið upp í Árbæ í meira en 40 ár. 
mbl.is Árbæjarsafn út í Viðey?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hinn síðfrjóva hegg"

    Var að koma að utan úr stuttri gönguferð. Sá raunar að heggirnir í garðinum eru óðum að laufgast. Það leiddi hugann að lokamálsgreininni í Gerplu Halldórs Laxness:"Þá var túngl geingið undir og felur nóttin dal og hól á Stiklarstöðum, og svo hinn síðfrjóva hegg." Mér hafa sagt staðkunnugir að heggur vaxi ekki á Stiklarstöðum og svo kann að vera álitamál hvort hann er tiltakanlega síðfrjór.

    En þetta er náttúrlega allt skáldaleyfi. En svo vikið sé að þessu merkilega tré, þá minnir mig að það sé með elstu blómstrandi runnum sem Íslendingar reyndu að rækta í görðum sínum, þótt ekki hafi það verið í fyrsta hópi þeirra plantna sem Schierbeck landlæknir setti niður hér undir lok 19. aldar. En hegg er að finna þar sem áður var uppvaxtarbeð í reit Skógræktarfélags Reykjavíkur hins elsta, við Rauðavatn. Svo hann gæti hafa verið kominn hér um aldamótin 1900.

    Og eitt er víst, hann vex ljómandi vel hér og plöntur sem sprottið hafa upp af fræi af trjám sem hér vaxa eru oft blómviljugri og sterkari en innfluttar plöntur. Þannig er það reyndar um fleiri plöntur. Ég hef oft undrast hvað Reykjavíkurborg gróðursetur lítið af merkilegum trjám og blómstrandi runnum á opnum svæðum í borginni. Ég held að það stafi meðfram af því að fagkunnáttu á trjárækt hefur vantað. Ég ætla ekki að nefna dæmi um þetta, sem ég þó þekki, en vona bara að þetta sé að breytast.


Sóðar á ferð

    Sá í grein í NYT í morgun um að aftur er farið að krota í jarðlestina í New York. Þegar ég kom fyrst til borgarinnar sá maður hvergi út um glugga á vögnunum fyrir kroti. Eftir árangursríka herferð stjórnvalda hvarf þetta nær algjörlega og hélst reyndar í hendur við stórkostlega fækkun glæpa. Nú hefur um alllangt árabil verið óhætt að fara með jarðlestinni á kvöldin og jafnvel á endastöð. Þegar ástandið var verst fór fólk helst ekki í lestina eftir kvöldmat. Þá hefur líka lítið borið á kroti, þar til nú. Sóðarnir, því sóðaskapur er þetta og á ekkert skylt við list, hafa tekið í notkun nýtt efni, sýru sem blönduð er lit og tærir rúðurnar. Talið er að það geti kostað stórfé að bregðst við þessu.

   Þetta leiðir hugann að íslenskum sóðum, sem krota allt út. Mér hefur lengi fundist þetta hvimleitt. Meðal annars vegna þess að yfirleitt er um að ræða meiningarlaust, áráttubundið krot sem veldur spjöllum á umhverfi okkar. Langoftast hefur það ekkert listrænt gildi og segir manni ekkert nema að krotarinn eigi við vandamál að stríða: Áráttubundinn sóðaskap sem beinist að samborgurunum.


Tjaldurinn kominn

Ég get ekki orða bundist. Sá tvo tjalda hérna í dalverpinu í Seljahverfi í gær, þá fyrstu sem ég sé í vor. Í sama bili flugu fimm lóur yfir. Nú hlýtur að fara að bregða til hlýinda. Þegar þetta er skrifað virðist veðrið gott, bjart og stillt. Ekkert kemst ég samt til þess að bleyta flugu um helgina, því Steinunn setti smáauglýsingu í Fréttablaðið um bílskúrssölu hér í Vogaselinu. Þar má aldeilis finna margan góðan gripinn! Stórfurðulegt að maður skuli geta fengið af sér að láta öll þessi djásn frá sér! Og það er kannske ekkert skrýtið þótt hér sé ýmislegt til. Meðal annars er hér afgangur af þrem veitingahúsum ofl. ofl..

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband