Hörmulegt tjón

Það var ægilegt að fylgjast með brunanum í gær. Eins og fleiri fylgdist ég með útsendingu í sjónvarpi. Það var á hinn bóginn mannsbragur á borgarstjóranum, að hann skyldi koma á vettvang og stappa stáli í slökkviliðið. Það var líka athyglisvert, hve eindregið hann mælti fyrir endurbyggingu húsanna. Vonandi verður af því. Peningar virðast nógir til ef mið er tekið af því sem eytt er í annað. Sjálfur á ég æskuminningar úr Austurstræti, föðursystir mín vann hjá L.H. Muller í Austurstræti 17 og sjálfur var ég sendill þar um stuttan tíma. Þá var Haraldarbúð ennþá til, og Bjarni í Tóbakshúsinu gyllti líkamsræktarkerfi Atlas fyrir ungum mönnum. Á laugardögum seldum við strákarnir sunnudagstímann, sem prentaður var eftir hádegið í Eddunni í Skuggasundi. Þá var pylsusjoppa í steinbyggingunni þar sem eldurinn kom upp. Annars held ég að þar hafi á árum áður verið ein fyrsta leigubílastöð bæjarins. Persilkonan var enn á klukkunni, gamli símaklefinn á sínum stað og karlinn á kassanum boðaði syndugum eilífan eld en dyggðugum sæluvist á himnum. Þegar sól var og gott veður seldi Pétur Hoffmann hluta af fjársjóðum sínum á stéttinni við Útvegsbankann. Þessi miðbær kemur aldrei aftur en kannski verður hægt að sýna því húsi sóma, þr sem Jörgen Jörgensen dansaði menúett um árið.

mbl.is "Höll Hundadagakonungs" varð æstum eldinum að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Var það ekki þarna sem hárkollan kræktist í ljósakrónuna í menúettinum? Það var reyndar fyrir mitt minni. Aftur á móti man ég vel eftir Selsvararvíkingnum. Og Persilklukkan - á myndum frá vettvangi í gær sá ég að auglýsingin eina og sanna er horfin! Ég verslaði yfirleitt ekki í Haraldarbúð; þjónustan hjá séntilmönnunum miklu hjá Andersen & Lauth á Vesturgötunni var svo góð að ég vildi helst ekki leita annað. Já, heimsins dýrð ...

Hlynur Þór Magnússon, 19.4.2007 kl. 12:07

2 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Það er nú kannski skáldaleyfi að segja að hann hafi dansað menúett í Austurstræti 22. Hann er sagður hafa haldið dansleiki í húsi í Hafnarstræti, sem enn stendur. En hann bjó í Austurstrætinu, sem ég held að þá hafi heitið Langastétt. Margir muna eftir rörakerfinu hjá Haraldi og Rafskinnu í glugganum, sem var eitt af tækniundrum tímans. Ef mig misminnir ekki voru þeir afgreiðslumenn hjá Haraldi Árnasyni, Pétur og Óli sem stofnuðu svo Herradeild P og Ó. Pósthúsið, einkanlega afgreiðsla pósthólfa og Landsbankatröppurnar voru fundastaðir. Þar voru margar fréttir sagðar. Óli blaðasali átti Apótekshornið og þar var of ónæðissamt til að tala saman.

Sigurður G. Tómasson, 19.4.2007 kl. 13:12

3 identicon

Það er sorglegt til þess að vita að þessi miðbær komi aldrei aftur. Vonandi verður staðið þannig að uppbyggingu að sem mest verður gert til að viðhalda í það minnsta sama heildarsvipnum. Svæðið stendur líklega flestum Reykvíkingum nærri hjarta fyrir utan alla þá merku sögu sem húsin sjálf eiga. Ég sjálf á afskaplega margar minningar frá þessu horni og nágrenni þess. Móðir mín heitin vann í nær 15 ár hjá Katli Axelssyni í London dömudeild í Austurstræti 14. Ég vann þar sjálf í sumarafleysingum. Á menntaskólaárunum í MR var náttúrlega fastur liður eins og venjulega að labba fyrir hornið á Lækjargötu og Austurstræti á leiðinni upp á Tröð. Svo var Karnabær (nú Pravda) búðin mín svona um og upp úr tvítugu. Ég fæ nú bara saknaðartilfinningu við að skrifa þessi orð. Það verður ekki auðvelt í næstu Reykjavíkurferð að ganga þarna framhjá - svo mikið er víst.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 16:02

4 Smámynd: Hallur Magnússon

Þetta er skelfilegt - en vonandi tekst endurbyggingin vel.

En hvernig væri að taka aftur upp nafnið Löngustétt - Bakarabrekku - Klambratún - og svo framvegis!

Við þurfum ekki þessi "nýju" "stórborgarnöfn" - sem mörg hver voru greinilega tekin upp af minnimáttarkennd

Hallur Magnússon, 19.4.2007 kl. 23:03

5 identicon

Þeim væri nú alveg trúandi til að klúðra þessu. Ég myndi þó vilja sjá þarna torg af Evrópskri fyrirmynd með gosbrunn og öllu, kaffihús allt um kring og Jörund upp við vegg eins og Bellman í Gamle Stan.

Egill Harðar (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 02:44

6 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Var eitthvað eftir af Höll hundadagakonungs? Ég heyrði ekki betur en Magnús Skúlason segði að það væri engin orginal spýta í þessum húsum. Þá er þetta að verða svipað og með hamarinn hans afa, sem reyndar er búið að skipta um skapt þrisvar og hausinn einu sinni.

Guðmundur Örn Jónsson, 21.4.2007 kl. 19:16

7 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Þessar spýtur voru nú ekki nýlegar miðað við hvernig gólfið dúaði og brakaði síðast þegar ég dansaði uppi á Pravda (ég vona a.m.k. að það hafi ekki dúað svona bara útaf mér!).

Steinn E. Sigurðarson, 21.4.2007 kl. 20:04

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér líst betur á hugmynd Hrafns Gunnlaugssonar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.4.2007 kl. 23:09

9 Smámynd: Brynjar Hólm Bjarnason

Það er alveg agalegt hvernig þetta fór en við vonum að stjórnvöldum í Reykjavík takist vel til.

Þegar talað erum að ekki hafi verið nein upprunaleg spíta í þessum húsum og því sé réttlætanlegt að láta þau víkja mynnir það mig á gamla fólksvagninn sem búið var að aka yfir miljón km. Það var reyndar búið að skipta um vél 5 sinnum og gírkassa þrisvar. Komið á hann nýtt húdd og skottlog og önnur hurðin var níleg. En það var saa númeraplata á honum frá upphafi

Brynjar H. Bjarnason

Brynjar Hólm Bjarnason, 29.4.2007 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband