Ref fyrir rass


Hlustandi hringdi í mig á dögunum og spurði um orðatiltækið “ að skjóta einhverjum ref fyrir rass”. Ekki kunni ég skil á því frekar en mörgu öðru. Enda liggur þetta ekki í augum uppi. Jón G. Friðjónsson segir í ágætri bók sinni “Mergur málsins”að orðtak þetta sé kunnugt frá seinni hluta 18. aldar. Upprunann segir hann óljósan en vitnar í skýringu Helga Hálfdánarsonar í skemmtilegri bók sem ber heitið “Skynsamleg orð og skætingur”, að líkingin sé upphaflega dregin af því þegar refur skotinn fram hjá rassi þess sem fyrir honum situr en verður hans ekki var. Ekki skýt ég Helga ref fyrir rass í þessu.

Þá var vakin athygli mín á því að menn rugluðust á kyni talnanna hundrað og þúsund. En hér er ekki allt sem sýnist. Töluorð eru reyndar ólíkindatól. Sum beygjast ekkert, önnur eru til í öllum kynjum. Þúsund er til dæmis ýmist kvenkynsorð eða hvorugkynsorð eða notað óbeygt. Þannig eru báðar fleirtölumyndirnar þúsundin og þúsundirnar jafnréttháar. Um hundrað gegnir öðru máli. Það er annað hvort hvorugkynsorð eða óbeygt. Því er fleirtölumyndin hundruðir ótæk. Það heita hundruð í fleirtölu.

Enn var minnst á gamlan aðskilnað í sögnunum að giftast og kvænast. Meðan konur voru gefnar mönnum sínum giftust þær enda orðið leitt af sögninni að gefa. Karlar kvæntust enda sögnin dregin af kván, eða kvon. Nú er sagt og hefur verið alllengi að karlar og konur giftist. Enn notum við samt ekki sögnina að kvænast um konur og raunar er hún horfin úr daglegu máli. Hún er gamalt mál sem nú er eiginlega aðeins til á bók og því verður fólki hált á því að grípa til hennar sem ekki veit á henni deili. En kannski tökum við hana upp um giftingu samkynhneigðra kvenna? En ekki sé ég reyndar þörf á því.

Í fréttum um daginn var sagt eitthvað á þessa leið í Ríkisútvarpinu: “Fyrirtækið flutti hingað ....” Þetta heitir persónugerving. Fyrirtækið flutti hvorki eitt né neitt. Það fluttist.

Ég heyrði minnst á vöruskiptahalla á dögunum. Sagt var “hann var hærri samanborið við sama tíma í fyrra”. Fá fréttamenn borgað eftir stafafjölda eða hvað? Hér mátti einfaldlega segja:

“Viðskiptahallinn nú var meiri en á sama tíma í fyrra.”

En sem betur fer er blessaður ársgrundvöllurinn í sumarleyfi. (Áður flutt sem pistill í Útvarpi Sögu).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Það er nefnilega málið með hjónaband samkynhneigðra. Konur geta bara gift sig (gefist) og karlar kvænst (kvonfangi). Þar af leiðandi gengur hjónaband eða að giftast og kvænast ekki fyrir samkynhneigða. Auglýsi eftir nýyrðum fyrir þau!

Ævar Rafn Kjartansson, 7.6.2007 kl. 20:04

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

þarf ekkert að vera svo flókið.  Fólk getur gifst (gefist) hvort öðru. það er óþarfi að hanga á orði sem hvort sem er á undanhaldi að kvænast, kannski er það á undanhaldfi vegna þess að það er úrelt? þakka góða pistla.  kv.  B

Baldur Kristjánsson, 7.6.2007 kl. 22:45

3 Smámynd: krossgata

Karlmenn hafa gifst lengi og má finna dæmi um það í ritmáli töluvert langt aftur.  Ég held að þeir karlmenn sem ekki vilja giftast eigi þá bara að kvænast, en sætta sig við að aðrir menn giftist.

Annars hef ég rekist á undarlega orðtakanotkun í fjölmiðlum undanfarið:  1.  Notkun orðsins kýrskýr í merkingunni greindur, klár.  2.  Í einum pistli mátti lesa:   "það er ekki einleikið að vera meðal fallega fræga fólksins" og svo var lýsing á því hvað einhver stjarnan átti erfitt vegna fegurðar sinnar.  3. Einhver þáttastjórnandi sagði "Sálin og Stuðmenn er sko engir smá aukvisar" - en maðurinn átti greinilega við hið gagnstæða.

Bestu þakkir fyrir skemmtilega og fræðandi pistla.

krossgata, 8.6.2007 kl. 14:19

4 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Refurinn hefur svo næmt lyktarskyn að veiðimenn þurfa að gæta þess að honum berist ekki lyktin af þeim með vindinum, svo ef þeir koma að refnum í réttri vindátt, plata þeir hann og ná að veiða.

Ester Sveinbjarnardóttir, 8.6.2007 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 45640

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband