Draga hertar refsingar úr glæpum?

Það er stundum undarlegt að fylgjast með samfélagsumræðunni á Íslandi. Nú um stundir er í tísku að krefjast hertra refsinga vegna ýmissa glæpa og taka margir undir þennan söng, líka þeir sem á liðnum árum hafa gjarnan kennt sig við mannúð og mildi. Það er rétt eins og þetta fólk, sem sumt kveðst vera frjálslynt og til vinstri, hafi gleymt öllum efasemdum um og gagnrýni á refsingar og refsivist. Margir hafa haldið því fram að þungar refsingar dragi ekki úr glæpum. Fælingaráhrif séu sem sagt ekki til staðar, eða lítið. Í því sambandi benda margir á Bandaríkin. Þar sitja nú sjö milljónir manna í fangelsum, margir eru dæmdir í ævilangt fangelsi eða jafnvel til dauða. Samt eru morð og ofbeldisglæpir óhugnanlega tíð. Mikið kapp er lagt á að refsa kynferðisglæpamönnum og reynt að hafa eftirlit með þeim. Ekki er að sjá að það hafi orðið til þess að draga úr þeim óhugnaði. Mörg dæmi eru um það að refsigleðin hefur bitnað á saklausu fólki.

Í okkar eigin sögu þekkjast dæmi um þungar refsingar vegna siðferðisbrota. Frægastur er vitaskuld stóridómur. Ekki geta menn með nokkru móti séð að hann hafi orðið til þess að bæta siðferði þjóðarinnar.

Nú keppist víðsýnt menntafólk við að heimta þyngri refsingar handa kynferðisbrotamönnum, öðrum ofbeldismönnum, já, og olíuforstjórum. Engin umræða er um það hvort þessar refsingar skili einhverjum árangri. Draga þær úr glæpum? Er skrýtið þótt læðist að manni sá grunur, að hér sé almenningur að heimta makleg málagjöld fyrir viðbjóðslega glæpi og kærir sig kollóttan um allt annað. Þeir sem vita betur en blása í þessar glæður eru annað hvort lýðskrumarar eða hafa annarlegan tilgang.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Það að hegna mönnum fyrir brot sín er eiginlega þríþætt

  1.  það hefur jú einhvern fælingarmátt allavega fyrir suma
  2.  Taka hættulega menn úr umferð allavega um tíma til verndar samferðafólki.
  3.  Hefnd, almenningur krefst þess að brotamenn svari til saka og hljóti makleg málagjöld.
  4. Hér ætti betrunarþátturinn að vera en hann vantar að mínu mati og þess vegna erum við alltof oft að sjá sömu mennina aftur og aftur.
Þó svo ástandið sé slæmt í Bandaríkjunum þá værum við heldur ekkert vel sett ef við hefðum alls engar refsingar yfir höfuð. Kúnstin er að finna þarna jafnvægi og umfram  allt  að  reyna að ná fram betrun. Auðvitað eru svo til glæpir sem eru svo svakalegir, og framdir af slíkum mönnum að best væri fyrir alla að þeir væru lokaðir af um aldur og ævi.

Þóra Guðmundsdóttir, 11.2.2007 kl. 21:43

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Burtséð frá þyngd dóma þá finnst mér að það eigi að vera eitthvað vit í því hvað er talið alvarlegt brot og hvað ekki. Held að réttlætiskennd fólks sé ofboðið vegna þessa þegar fjárhagsbrot af ýmsu tagi eru talin alvarlegri en kynferðisbrot gagnvart börnum.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 12.2.2007 kl. 00:40

3 identicon

Þetta eru sannarlega orð í tíma töluð. Það er gott að sjá að til eru þeir fjölmiðlamenn sem ekki kynda undir refsigleði og annarri þjóðfélagslegri óáran. Nóg er nú samt og ekki síst gætir þess á þeirri útvarpsstöð sem pistilhöfundur er svo seinheppinn að hafa gerst hennar þurfamaður eða segjum brauðbítur.

Gunnlaugur Þorleifsson 

Gunnlaugur Þorleifsson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 09:32

4 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Ekki kannast ég nú við að vera þurfamaður í útvarpi. Og aldrei hef ég heyrt því haldið fram að fólk þurfi í einu og öllu að vera sammála vinnuveitendum sínum. Ekki þekki ég Gunnlaug Þorleifsson en geri því samt skóna að hann flytji eigin viðhorf en ekki þeirra sem hann vinnur hjá í pistlum sínum. En hitt er ég búinn til að ræða ef fólki þykir ósamkvæmni í dómum. Og það þykir mér í sjálfu sér réttmætt aðfinnluefni. Það haggar ekki þeirri meginskoðun minni að refsingar og refsivist dugi ekki til þess að bæta þjóðfélagsböl. Ég held reyndar að ofbeldis- og kynlífsdýrkun, þar sem hvort tveggja er söluvara óprúttinna eigi einhvern þátt í því hvernig komið er. Ég held til dæmis að það sé affarasælla að reyna að koma í veg fyrir þessa markaðsvæðingu með öllum tiltækum ráðum en að refsa þeim grimmilegar sem brjóta af sér.

Sigurður G. Tómasson, 12.2.2007 kl. 16:03

5 identicon

Hnykkt og hnekkt:

Ég vil hnekkja fyrri orðum mínum um þurfamanninn, þau voru ómakleg og krefjast afsökunarbeiðni sem hér með er fram borin. Brauðbítur er nógu slæmt en stenst máski að viðlögðu hæverskasta merkingarbrigði. Ekki var að því ýjað í athugasemd minni að pistilhöfundur væri í ýmsu ósammála vinnuveitanda sínum en úr því að hann vekur athygli á að svo muni vera skal á því hnykkt að það er honum til príss og æru. Þarflaust en saklaust er vonandi að ég segi að meiningar pistilhöfundar um markaðsvæðingu mannvonskunnar eiga minn stuðning óskoraðan. Vesalingur minn tekur sjaldnar til orða en málskrafendur söguvarpsins en fram má koma að svona kynnti hann viðhorf sín að gefnu öðru tilefni í Morgunblaðinu 20. júní síðast liðinn:

>>Háskólarektor var hrósað um daginn hér í blaðinu fyrir ráðningu karlmanns í dósentsstöðu við tölvunarfræðiskor HÍ er konu var hafnað. Kærunefnd jafnréttismála taldi að Háskólinn hefði við ráðninguna brotið gegn jafnréttislögum. Víkverji Mbl. fagnaði ráðningunni svo segjandi: "Það má ekki slá af akademískum kröfum Háskólans í þágu jafnréttissjónarmiða." Seinheppinn þar því að daginn eftir kom í ljós (í blaði Víkverja) að konan sem hafnað var hafði meiri akademíska hæfni (mælt í gráðum, rannsóknum, kennslu) en karlmaðurinn sem ráðinn var. Hann hafði fram yfir konuna meðmæli karlanna sem sitja á fleti fyrir. Háskólarektor fór að þeirra vilja og sló af akademískum kröfum. Var einhver að tala um "100 bestu"? – Gunnlaugur Þorleifsson.<<

Með húfuna í hendinni, sami GuÞorl

Gunnlaugur Þorleifsson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 19:26

6 identicon

 

Það er ekki´"í tísku" að krefjast hertra refsinga þetta er sístæð krafa "almennings". Ég hef marítrekað haldið því fram að taka ætti upp dauðarefsingu við öllum afbrotum og að lögreglan framkvæmdi hana á staðnum. Af einhverjum örsökum hefur mér gengið illa í þessari baráttu minni.

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 15:16

7 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Sammála þér Sigurður.  Það skortir oft hófsemd í þessum umræðum um refsingar. Við getum aldrei útilokað allt það vonda í heiminum, heldur veriðum við líka að læra að búa með því. Atli Harðarsonn (bróðir Bjarna Harðar og Kristínar Þóru bekkjarsystur minnar) fjallar um þetta á hinu blogginu 10 ferbrúar undir yfirskriftinni "Er heimurinn að missa sjónina" http://atlih.blogg.is/2007-02-10/er-heimurinn-ad-missa-sjonina/

"ef lögmálið auga fyrir auga gilti alltaf og alls staðar þá mundi heimurinn smám saman missa sjónina."

ps. takk fyrir góða útvarpsþætti.

Þorsteinn Sverrisson, 16.2.2007 kl. 20:38

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég held að þeir sem vilja herða refsingar séu í hefndarhug frekar en annað. Það er ekki rétt nálgun á málinu. Frekar að leitast við að finna betrunarúrræði fyrir afbrotamennina. Byggja þá upp, ekki brjóta niður. Fyrir utan mannúðarsjónarmiðið sem augljóslega er fólgið í því, tja...þá er það bara hreinn gróði fyrir okkur öll.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.2.2007 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband