Vinnan þvælist fyrir

Sem ég sit og skrifa þetta, skín sólin en dálítið stórkarlalegir skýjabólstrar sigla um himininn. Í veðri eins og þessu ætti maður náttúrlega að standa í vatni upp á mið læri og liðka á sér úlnliðinn, heyra hvininn í línunni og sjá hana réttast mjúklega úti á vatninu, með lítilli skvettu í endann.  Og svo telur maður upp að tuttugu og dregur síðan löturhægt inn, þá kemur höggið og syngur í hjólinu í svolitla stund. Aleinn með sjálfum sér, fuglunum og fiskinum. Álftir fljúga yfir með því sem rómantískir menn kalla söng en ég er líklega ekki nógu lagviss fyrir svanasöng. Þá þykir mér hreinni tónn í kalli himbrimans sem berst yfir spegilinn handan vatnsins.  En, vinnan þvælist fyrir. Og kemur fyrir lítið þótt maður rifji upp gömul spakmæli eins og: "Slæmur dagur í veiði er betri en góður dagur í vinnunni." Ljúka þarf einhverjum verkefnum áður en hægt er að horfa dreymandi út á vatn og taka sveifluna.

    Þetta minnir mig á gamla daga, þegar ég las fyrir próf einn góðan veðurdag í maí, og  í þá daga var alltaf sól og blíða í maí, og félagi minn í lestrinum, nú þingmaður Samfylkingarinnar horfði angurvært út um gluggann og sagði: "Að hugsa sér, við hér yfir rykugum skræðum, þegar maður ætti að vera þarna úti að elta á sér áttavitann." Hann þorir líklega ekki að taka svona til orða nú, í hinum pólitíska rétttrúnaðaranda sem hér ræður ríkjum. En öllu lýkur einhverntíma, prófum og verkefnum og þá verður tekið til óspilltra málanna, enda græjurnar beðið tilbúnar síðan í mars


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikið óskaplega var þetta þarft innlegg til að brjóta upp skelfilegustu umræðu samfélagsins. Þá umræðu sem gerir alla þátttakendur að heimskingjum af þeirri einföldu ástæðu að annað er ekki í boði.

Ég þekki ekki þá tegund veiðimennsku sem þú getur um, en hef lesið um hana í bókum Guðmundar frá Miðdal, Björns Blöndal og Stefáns Jónssonar. Ég held að það væri brjálæði af mér að brjóta upp allan þennan sjarma með vandræðalegri reynslu. Reyndar þekki ég stangarveiði í fjörunum í Skagafirði og tek ekki mark á öðrum fjörum. Nærveru við náttúruna uppi í fjalli og á sjávarbakka þekki ég vel. Þar er maður svo lítill og skynjar svo sterkt hvað maður er sjálfur mikill partur af öllu þessu merkilega sköpunaverki. Og ósjálfrátt fer maður að dást að höfundi alls þessa merkilega sköpunaverks sem fyrir löngu hefur orðið græðgi okkar mannanna að bráð. Mikið var það slys þegar þessi nýja dýrategund las það í bók að hún ætti að gera sér jörðina undirgefna. 

Árni Gunnarsson, 15.4.2007 kl. 16:08

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Maður fær nú bara heimþrá!

Ásgeir Rúnar Helgason, 15.4.2007 kl. 16:46

3 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ég vildi að þú hefðir verið með mér í gær, setið við hlið mér við einn alfegursta veiðistað sem um getur. Við hefðum ekki sagt eitt einast orð heldur bara verið til. Upplifað augnablikið sem er jú eini tékkinn sem einhver innistæða er á bak við. Eða skyldi það vera eitthvað öðruvísi að fá hjartaáfall ef maður á mörg fyrirtæki og einn og einn banka til hliðar. Trúlega gæti ég ef ég ætti fyrirtæki og banka til hliðar, beðið um nýrri árgerð af öndunarvél en það held ég að væri um það bil það eina eða eins og maðurinn sagði. „Ég hef hætt viðskiptum og farið að veiða“

Pálmi Gunnarsson, 15.4.2007 kl. 20:34

4 Smámynd: HP Foss

Ég ætla aðeins að vona, af því að ég hef oftast talið þig jarðbundinn mann, að þú sért ekki eins og hrægammarnir sem bíða eftir að 1. apríl gangi í garð og ráðist þá á niðurgöngufiskinn og stráfellir hann. þvílík umgengni við fiskinn sem er að reyna að komast til sjávar eftri veturinn. Skömm er að s,íkum veikðimönnum, mönnum sem vart geta kallast veiðimenn. Enga slilligáfu þarf til að veiða niðurgöngufiskinn.

kv
Helgi Páls

HP Foss, 17.4.2007 kl. 21:23

5 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Ég haf aldrei veitt niðurgöngufisk á ævinni. Basta.

Sigurður G. Tómasson, 17.4.2007 kl. 21:40

6 Smámynd: HP Foss

Gott er að heyra ( sjá) það. Hitti menn um helgina sem voru í vorveiði, ég spurði þá hvort skík veiði væri ekki fyrir þá sem ættu í erfiðlekum með að fá fisk. Þeim fannst athugasemd mín ekki sniðug, urðu kindarlegir og töluð um veiða og sleppa, góða fiska, fallega og allt það. Hef skömm á slíku. Ég vona að Pálmi hafi aðeins horft á veiðistaðinn.  Kannski hættur vorveiði.

HP Foss, 17.4.2007 kl. 22:05

7 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Ég held að ég verði að taka upp hanskann fyrir Pálma. Í fyrsta lagi er allt í lagi að veiða fisk í ám að vorlagi og sleppa honum. Í öðru lagi vita allir veiðimenn að fiskar (silungur) ganga á ýmsum tímum og sums staðar er silungur á sífelldum göngum milli fersks vatns og sjávar á ýmsum árstímum. Þá er náttúrlega ekkert athugavert við að veiða vatnafisk á vorin og það er nú það sem ég stunda mest.

Sigurður G. Tómasson, 19.4.2007 kl. 13:43

8 Smámynd: HP Foss

Sjóbirtingur gengur til sjávar á vorin, fer nokrar ferðir fram í sjó og aftur upp í árnar. Þetta gerir hann til að ná rétta saltmagninu í sig áður er hann fer endanlega út í sjó. Þetta er kallað að fiskurin sé að smolta sig. Þetta vita ekki allir veiðimenn. Þetta er nú bara svona, Sigurður minn, td  í Vatnamótunum, þar sem ég þekki nokkuð vel til. Það er bara ekki þannig að menn sleppi öllum þeim fiski sem veiddur er, enda misjafn sauður í mörgu fé, í hópi veiðimanna eins og öðrum hópum.

HP Foss, 19.4.2007 kl. 22:02

9 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Æ, ég veit ekki hvað ég á að halda áfram að tala um vorveiði á sjóbirtingi, enda hef ég aldrei stundað hana. Smoltun göngufisks þekki ég ágætlega vel, enda tók ég þátt í gönguseiðasleppingum í nokkur ár. En ferðir vatnafisks í sjó eru ekki mjög vel þekktar. Þá eru líka til lón af ýmsu tæi, sum ísölt, þar sem fiskur er á ferð í misjafnlega söltu vatni. Þannig ósar eru líka vel þekktir, stórra og smárra áa. Á seinni árum hafa menn betri möguleika til þess að kanna ferðir göngufisks í sjó. Ég veit ekki hvort slíkar rannsóknir standa yfir en fróðlegt yrði að gera þær.

Sigurður G. Tómasson, 20.4.2007 kl. 14:43

10 Smámynd: HP Foss

Nei, nei, ég ætla nú ekkert að vera að bögglast í þér með þetta. gat bera ekki setið á mér, þú veist hvernig það er.

kveðja
Helgi

HP Foss, 20.4.2007 kl. 17:36

11 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Sælir félagar - ég skal nú viðurkenna uppá mig sökina Helgi. Ég var við veiðar í Litlá og setti í nokkra bústna urriða með hannaspiki og undirhöku, sem samkvæmt reglu fengu líf. Það verður seint sagt um Litlárurriða að þeir eigi erfitt uppdráttar búandi við alsnægtir allan ársins hring.  Ég hef frá því ég fékk stóra samviskubitið um árið verið talsmaður þess að öllum urriða á útleið (sjóbirtingi)skuli sleppt sé á annað borð leyfð veiði á honum. Ég renni á hverju vori í Lónsá á Langanesi og veiði spikfeita bleikju sem fer stutta leið út í sjó til að háma í sig marfló. Þessi fiskur er sílspikaður eftir nokkur flóð og trúi ég að finna megi mörg fleiri dæmi svipuð þessu.

Pálmi Gunnarsson, 22.4.2007 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 45819

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband