23.5.2007 | 11:53
Mikið af hveiti og sykri
Kona spurði mig hvað mér þætti um orðalagið mikið af fólki. Því er fljótsvarað. Fólk er margt en sumsstaðar er mikið af sandi. Það er líka mikið af hveiti í kleinum. Og sykri. En mörgu fólki þykja þær góðar. Hið sama má segja um fé. Menn eiga margt fé, í merkingunni sauðfé en mikið fé ef átt er við peninga.
Mörgum hættir líka til þess að fara rangt með tölu sagna þegar notuð eru orð á borð við fjöldi.
Fjöldi manna var hætt kominn. Þarna stýrir eintöluorðið fjöldi sögninni. Fjöldi var.. en ekki fjöldi voru.
Maður stakk því að mér um daginn að kanna hvaðan orðið kýrskýr væri komið. Ekki veit ég hversu
gamalt þetta orð er, en ekki er það ð finna í orðabók Sigfúsar Blöndals, en reyndar í tveim útgáfum íslenskrar orðabókar. Að vera kýrskýr, merkir að hafa vit á við nautgrip, vera heimskur. Ætli þetta séu ekki skrauthvörf af lýsingarorðinu nautheimskur?
Enn heyri ég í fréttum Ríkisútvarpsins menn tala um yfirtöku og reyndar var sambandið á þá leið að "vænta mætti yfirtökutilboðs í afganginn af hlutafénu". Orðið yfirtaka er öldungis óþarft, bæði í þessu sambandi og reyndar yfirleitt. Straumur Burðarás festi kaup á hlutafé í finnsku fjármálafyrirtæki og vænta mátti tilboðs í afganginn. Peningablaðamenn verða að fara að vanda sig. Auðmenn eru ekki nýtilkomnir á Íslandi, þótt þeir séu kannski ríkari nú en nokkru sinni fyrr. Orð eru til um flest sem þeir taka sér fyrir hendur.
Fyrst minnst er á auðmenn. Sumir þeirra urðu fyrst stórríkir í kjölfar þess sem kallað hefur verið einkavæðing. Og hvaðan kemur það orð? Það er einkum seinni liðurinn sem er forvitnilegur. Hann er myndaður af voð, sem í fornu máli var með löngu a-i, sem með i hljóðvarpi breytist í æ í -væðing, og þýddi að klæða, færa í föt. Elsta dæmið er líklega hervæðing og þýddi bókstaflega að búast í herklæði. Seinna kom svo vígvæðing. Einhvern tíma á síðustu öld bjuggu menn til orðið vélvæðing og þótti sumum nykrað, að tala um að landbúnaðurinn klæddist vélunum. Enn seinna kemur svo tölvuvæðing, einkavæðing og nú síðast klámvæðing. Sennilega hefur vantað eitthvert viðskeyti í málið, til þess að lýsa tilteknum verknaði. En miðað við þá kröfu sem oft er gerð um gegnsæi orða í íslensku, verður ekki séð að hér hafi vel tekist til. En kannski er komið að því að við sláum af í þessum efnum. Ekki get ég þó varist þeirri hugsun að voðin í klámvæðingunni sé afskaplega þunn og skjóllítil! (Áður flutt sem pistill á Útvarpi Sögu).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
einherji
Bloggvinir
- malacai
- gusti-kr-ingur
- hof
- arogsid
- asarich
- hugdettan
- arh
- baldurkr
- kaffi
- bergurben
- begga
- bibb
- eurovision
- dabbi
- dofri
- egillrunar
- esgesg
- esv
- elinora
- estersv
- eysteinn
- fsfi
- fridrikof
- gesturgudjonsson
- gislihjalmar
- gudjonbergmann
- zumann
- orri
- gunnarfreyr
- guru
- halldorbaldursson
- doriborg
- kiddih
- hallurg
- hallurmagg
- handsprengja
- heidar
- 730
- hildurhelgas
- hlynurh
- kolgrimur
- hlodver
- hrannarb
- hvitiriddarinn
- ibbasig
- ingibjorgelsa
- jara
- ingo
- jensgud
- skallinn
- jonthorolafsson
- jullibrjans
- julli
- juliusvalsson
- krist
- hjolaferd
- ladyelin
- mariakr
- sax
- leifurl
- poppoli
- ofansveitamadur
- solir
- omarbjarki
- vestskafttenor
- pallieinars
- palmig
- raggipalli
- rheidur
- rungis
- bullarinn
- xsnv
- sigfus
- safi
- siggivalur
- fletcher
- ses
- kosningar
- garibald
- torfusamtokin
- tommi
- eggmann
- villagunn
- steinibriem
- thoragud
- thordistinna
- thorolfursfinnsson
- aevark
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Sigurður
Alltaf gaman, áhugavert og fróðlegt að rekast á pistla frá þér. Hef einnig gaman af að hugsa dálítið um íslenska tungu og hef lagt dálítið hönd á plóginn, en ekki án mikils sýnilegs árangurs. T.d. hefi eg amast við að verið sé að „gera átak“ í staðinn fyrir að gera e-ð eða hefja, byrja e-ð starf, halda því áfram og vonandi ljúka átakinu. Einnig finnst mér fyrir neðan allar hellur að rita netið í styttingu fyrir internet með hástaf eins og um sérheiti eða nafn á e-u. Einhvern veginn hefi eg á tilfinningunni að þarna sé einhver guðfræðileg skýring á ferðinni: margir bera þvílíka lotningu fyrir tækninni að sjálfsagt þyki að skrifa hástaf eins og maður mæti sjálfum Jesú kristi! Hverjum dytti í hug að skrifa t.d. sími, bifreið, skip, flugvél, símskeyti eða fax með hástaf? Sá sami yrði að hálfgerðu viðrini.
Annars hefi eg grun um að Morgunblaðið eigi dálitla sök á þessu. Á þeim bæ hefur lengi verið borin virðing fyrir flestu sem tengist Þýskalandi. Hjá þýskum eru öll nafnorð rituð með hástaf! Svo eru Bretar og Bandaríkamenn að apa þetta upp t.d. þegar langa bókatitla ber fyrir augu okkar. Þá ganga þeir jafnvel svo langt að hafa lýsingarorðin jafnvel smáorð og tengiorð með hástaf í upphafi orðanna!
Fróðlegt hefði verið að heyra Árna Böðvarsson þann afburðagóða málfræðing og íslenskumann í MH hvað hann hefði til hlutanna að leggja varðandi málefni íslenskrar tungu nú á dögum.
Mosi - alias
Guðjón Sigþór Jensson, 23.5.2007 kl. 12:13
"Mikill fjöldi fólks". Hefur einhver heyrt talað um "lítinn fjölda fólks". Þetta þykir mér alltaf jafn undarlegur talsmáti, annað hvort er fjöldi fólks eða ekki.
Guðmundur Örn Jónsson, 23.5.2007 kl. 12:34
Þrátt fyrir allt er ekki útilokað að taka þannig til orða. Flestir mundu sjálfsagt segja "fáir". En það er vissulega hægt að segja bæði "nokkur fjöldi" og "lítill fjöldi". En ef verið er að tala um marga, þá er stundum best að nota ekkert áhersluorð, "fjöldi fólks var saman kominn"..
Sigurður G. Tómasson, 23.5.2007 kl. 14:06
Bubbi,
þett er frábært að kunnáttumaður eins og þú bloggir um íslenskt mál. Áfram svona.
Viðar Eggertsson, 23.5.2007 kl. 14:51
Sæll, Sigurður.
Það er þetta með álit sem er farið að vera ansi hvimleitt í tungunni og það þá þegar fólk taalar um persónulegt álit. Ég hef nú alltaf mitt álit sem persónulegt og svo getum við talað um álit annara.
Það er ambaga sem kom úr íðróttafréttamönnum og það er þetta með "Eista". það eru nú reyndar allir farnir að skilja það sem eistlendinga. Mér fanst nú alveg ágætur útúrsnúningur Sigmars fréttamanns á estlendingum í söngvakepninni. En það talar enginn um "Ísta" í samskonar tilfellum en það eru að sjálfsögðu íslendingar, með sömu latmælgi og eistar
Brynjar H. Bjarnason
Brynjar Hólm Bjarnason, 23.5.2007 kl. 19:47
Eru ekki íslenskufræðingar og sjálfskipaðir íslenskugæslumenn í dag einfaldlega "sköpunarsinnar" í sama skilningi og slíkir í USA og vilja kenna að tungumálið hafi lent á Íslandi fullskapað og rétt, og "rétt" er eins og þeir lærðu málið sjálfir, en þegar aftur almennir notendur sem þessir eru sífellt að hnýta í eru "þróunarsinnar" sem með sjálfum sér og í reynd gera sér grein fyrir að tungumálið er aldrei fullskapað og "rétt" heldur verkfæri sem aðlagast og þróast eftir þörfum samfélagsins eins og samfélaginu lætur best að nýta sér það á hverjum tíma, og að allir taka þátt í að þróa það og eiga rétt á að taka þátt í að þróa það en ekki bara nefnd og fræðingar.
Ekki verð ég var við að í stóru málsamfélögum eins og því enska og því síður því spænska séu fræðingar sífellt að leiðrétta allan almenning og gefa fyrirmæli um rétt og rangt málfar. Þar verða líka sífellt til nýyrði án þess að beðið sé eftir leyfi eða fyrirmælum nefndar eða fræðinga.
Í líffræðinni lærum við að breytileikinn í erfðaefni hverrar tegundar auki lífslíkur hennar, í annars ágætum þáttum Sigurðar og samtölum hans við hlustendur á útvarpi Sögu finnst mér hinsvegar afar oft koma fram krafan um algera einsleitni málfars að Sigurði og hlustendum finnst aðeins vera til ein rétt tjáning hverrar hugsunar, aðeins ein samsetning orða koma til greina sú sem það lærði eða vandist í sinni æsku.
Gegnsæi málsins er eitt(og "deoxaríbósa" er þeim jafn óskiljanlegt og restin óþýdd)? En DNA er einmitt gott dæmi um alþjóðlegt hugtak sem miklu gagnlegra er að skilja á hina alþjóðlegu vísu en þá íslensku ef ætti að velja bara annað hvort - þá tilhvers að eyða púrði í að kenna og nota "DKS" íkennslubókum?
Um leið og mikilvægt er að hver og einn nái góðum tökum á tungumáli sínu þarf tungumálið að eiga olnbogarými til að þróast til bestu nota á hverjum tíma og til þess þar það frelsi. Til að svo verði ætti að mínu viti t.d. að frelsa nafnorðamyndun í trausti þess að aðeins það gagnlegasta og besta lifir, og
-Þú ert samt með allra bestu útvarpsmönnum Sigurður, ég hef bara aðra skoðun á hreintungustefnunni en þú tjáir.
kv HJH
Helgi Jóhann Hauksson, 23.5.2007 kl. 21:36
Sæll aftur
Það hefur þurrkast út hjá mér setning sem kom á eftir "Gegnsæi málsins er eitt" og því stendur sviginn þar einn og óstuddur á eftir feitletraða hlutanum.
Þar stóð eitthvað á þessa leið:
Gegnsæi málsins er eitt, þar sem ég sit fyrir framan LCD-skjá eða Liquid crystal display er það ágætt dæmi um "gegnsæa" þýðingu eða þannig því LCD er samkvæmt íslenskri málstöð þýtt sem "skuggastafaskjár". Skuggastafaskjár er hinsvegar ekki þýðing heldur lýsing á því hvernig slíkir skjáir birtust okkur fyrst fyrir 30 árum á vasareiknum. Protein er annað orð sem fékk "gegnsæja" þýðingu sem eggjahvítuefni sem í ljósi meiri þekkingar er með öllu fráleit þýðing og villandi en lifir samt enn í daglegu tali. óteljandi fleiri slík dæmi gæti ég nefnt þar sem einmitt gensæið snýst upp í endhverfu sína og verður villandi. Þá er spurning afhverju við kennum krökkum í skólum að nota DKS sem er skammstöfun fyrir hina "lýsandi íslensku deoxaríbósa kjarnsýru í stað alþjóðlegu skammstöfunina DNA (Deoxyribo nucleic acid en "deoxaríbósa" er þeim jafn óskiljanlegt og útlenskan)?...
Helgi Jóhann Hauksson, 23.5.2007 kl. 21:55
Blessaður.
Í minni sveit var margt fólk og mikið af skít, sagði einhver. Þessi setning ætti að duga til að minna á muninn.
Ár & síð, 23.5.2007 kl. 22:07
Kannski var textinn minn óþarflega langur því það hefur líka hrunið aftan af honum.
Á eftir vangaveltum um nafnorðamyndun lagði ég til að krakkar yrðum í skólum í sem ríkustum mæli hvattir til að leika sér með tungumálið án þess að finnast þeir vera staddir inni í glervöruverslun þar sem ekki mætti hreyfa sig án þess að eiga á hættu að brjóta eitthvað óbætanlegt, heldur þvert á móti að nota lögmál hugarflugs til að tjá sig á alla mögulega vegu þar á meðal að búa til orð og nafnorð, það lifir hvort sem er ekki annað en það sem samfélaginu fellur best og kemur að notum.
Helgi Jóhann Hauksson, 23.5.2007 kl. 22:11
Ég er orðinn svo gamall að ég leyfi mér stundum að verða argur þegar fréttastofurnar misbjóða hlustendum. Þessar fréttastofur okkar eru nefnilega skelfilegar ambögusmiðjur og það tengist ekki neinni málþróun. Það er ekki hægt að temja sér umburðarlyndi gagnvart fréttastofu sem segir okkur frá því að einhver "kú" hafi orðið efni í frétt, svo eitthvað sé nú nefnt. Fyrir svona tuttugu árum hefði háseti á línubáti verið hafður að skopi og líklega uppnefndur til æviloka ef honum hefði orðið þetta á.
Málkennd er að nokkru meðfædd eins og margir okkar eiginleikar. Málvísi má læra dálítið með eljusemi hjá góðum kennara þó ekki hafi ég trú á að fólki endist það eitt og sér langt fram á ævi. Ég held að þarna þurfi tvennt að koma til eða í það minnsta annað af tvennu. Í fyrsta lagi málfar þeirra sem sjá um uppeldi barnsins og síðan eru verk góðra rithöfunda endalaus lærdómsbrunnur.
Árni Gunnarsson, 24.5.2007 kl. 00:41
Varðandi eggjahvítuefni er það held ég bara aldagamalt nafn yfir prótein í germönskum málum?
A.m.k. í þýskumælandi löndum má finna eftirfarandi þrjá hópa næringar utan á matvælum;
Eiweiss
Kulhydraten
Fett
Þýddu þjóðverjarnir orðið "protein" á þennan sama máta og við, eða er eitthvað meira á bakvið þetta orð?
Steinn E. Sigurðarson, 24.5.2007 kl. 11:31
Gætir þú ekki gefið góð ráð við textasmíð tilkynninga á útvarpsstöðinni sem þú vinnur á ? Oft hefur málfarið þar verið slæmt en í undanfarna daga hefur þó keyrt um þverbak. "Ekki missa af KK og Einar " var lesið aftur og aftur, og það af fullorðnum manni en ekki krakka. Jörundur les " svo getur þú bætt lyktareyðir út í" og lengi væri hægt að telja. En það að beygja ekki Einar er alveg ótrúlegt af fullorðnum. Ég hef tekið eftir því að margt ungt fólk virðist vera hætt að beygja mörg orð og alveg sérstaklega ef það eru tvö nöfn eins og t.d. "ég ætla til Jón Atla"
Þóra Guðmundsdóttir, 26.5.2007 kl. 01:06
Sæl Þóra!
Ég hef ekki sparað athugasemdir og ráð á Útvarpi Sögu. Benti m.a. á hann Einar. Oftast hefur ábending dugað en ekki í þetta sinn. Lyktareyðirinn var horfinn á tímabili en virðist hafa villst inn aftur. Annars tíðkaðist þessi beyging lengi t.d. nánast all 19. öld. Enn má heyra gamalt fólk tala svona og í einstaka orðmyndum hefur þetta ekki horfið. Ólétt kona á 9. mánuði er t.d. "komin á steypirinn" en ekki steypinn.
Sigurður G. Tómasson, 26.5.2007 kl. 09:56
Á hverjum einasta fjölmiðli er mikið af fólki. Ég hef einhverstaðar nefnt þetta en þá var mér bent á það væri málhreinsunar fasismi að vilja segja margt fólk - en það er ógesssslega ljótt
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 27.5.2007 kl. 13:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.