Færsluflokkur: Bloggar

Herinn

Einu sinni var mér sögð saga um mann sem kom á skrifstofu einkaleyfaskráninga og vildi fá einkaleyfi á nýrri gerð af músagildru.
"Hvernig er hún?" spurði skrásetjari.
"Hún er þannig, að maður strekkir stálvír fyrir músarholuna og setur ost öðrum megin og pylsu hinum megin. Músin kemur í gatið og lítur til hliðar og sér ost og svo til hinnar hliðarinnar og sér pylsu. En af því mýs eiga erfitt með að gera upp hug sinn, heldur hún áfram að líta til beggja hliða, ostur pylsa, ostur pylsa, og sagar af sér hausinn.
"Þetta getur ekki gengið," segir skrásetjari, " í gildrunum sem nú eru notaðar þarf bara ost eða pylsu, ekki hvort tveggja. Þú færð ekki skráð einkaleyfi á þetta."

    Uppfinningamaðurinn hvarf á braut vonsvikinn en birtist daginn eftir afar borubrattur."Ég er búinn að endurbæta gildruna. Nú þarf ekkert agn í gildruna. Músin kemur út í gatið, lítur til hliðanna og segir: "Enginn ostur, engin pylsa og hún er svo hissa á þessu að hún heldur því áfarm þangað til hún er búinn að saga af sér hausinn."

    Mér datt þessi saga í hug þegar ég heyrði talsmann bandarísku ríkisstjórnarinnar segja að varnarsamningurinn frá 1951 væri í fullu gildi þótt herinn færi. Bandaríkjamenn eru hér í líki uppfinningamannsins. Varnir Íslands eru alveg eins. Bara enginn her. Samningurinnn frá 1951 er um herinn. Um veru hans hér. Og ekkert annað. Ef annar samningsaðilanna kallar herinn heim jafngildir það uppsögn samningsins. Um það ætti ekki að þurfa að deila. Það er athyglisvert að Bandaríkjamenn kjósa að gera þetta með þessum hætti. Það er ekki trúverðugt að þetta hafi ekki legið fyrir, þegar Geir H. Haarde ræddi við Rice utanríkisráðherra fyrir fáum vikum. Bandaríkjamenn kusu einfaldlega að segja honum ekki frá því.

    Þetta er ekki jafn eindreginn dónaskapur og Lyndon Johnson sýndi Bjarna Benediktssyni þegar hann labbaði með honum um garð Hvíta hússins ásamt hundunum His og Her en þetta er alvarlegri ruddaháttur, því hann snertir grundvallaratriði í samskiptum þjóðanna. Þar er til að taka að Bandaríkjamenn hafa með þessari ákvörðun og framkomu við íslenska ráðamenn sannað röksemdafærslu íslenskra herstöðvaandstæðinga: Að herinn væri hér vegna þarfa Bandaríkjamanna og einungis vegna þeirra.Nú hljóta menn að spyrja: Hvað nú? Því er til að svara að þótt Rumsfeld og ráðgjafar hans telji svo vera þá er það ekki þannig. Bandaríkjamenn verða til dæmis að hreinsa upp eftir sig. Ekki bara á Keflavíkurflugvelli heldur alls staðar þar sem þeir hafa verið og hreinsun er ekki lokið. Á Miðnesheiði er t.a.m. allt grunnvatn mengað af tríklóretýlen og tetraklóretýlen, krabbameinsvaldandi eiturefnum sem herinn notaði til þvotta á vélahlutum. Frárennsli hersins var um árabil í ólestri og ýmis önnur efni kunna að hafa farið í jörð. Út um allar grundir eru ruslahaugar, þar sem allt fór óflokkað í jörð, þar á meðal mikið magn ýmissa efna sem nú eru flokkuð sem eiturefni. Á mörgum þessara hauga var rusli brennt og bruninn fór fram við lágan hita. Afleiðingar þess eru alkunnar um allan heim. Sprengiefni og sprengjur finnast víða.

    Nú kunna sumir að segja: Hvað um öll mannvirkin sem herinn skilur eftir? Eru þetta ekki verðmæti? Í dálkum þess sem fer er það ekki svo. Íslenska ríkið segir einfaldlega við Bandaríkjamenn: Þið skuluð bara taka þetta dót með ykkur. Og skila landinu eins og það var. Nei samningsstaðan er góð gagnvart Bandaríska hernum. Keimlík mál hafa komið upp innanlands í Bandaríkjunum og þar hefur þeim sem ábyrgð bera á mengun í jörð verið gert skylt að hreinsa upp eftir sig. Versta niðurstaðan er sú að Bandaríkjamenn verði hér áfram með nokkra menn og haldi aðstöðu fyrir herinn á vellinum "ef á þyrfti að halda". Þá gætu þeir nefnilega skilið allt eftir ófrágengiðOg þá er bara að vona að Ísland eigi samningamenn sem geti gert viðsemjendum okkar ljóst frammi fyrir hverju þeir standa.


« Fyrri síða

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 45708

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband