Færsluflokkur: Bloggar

Það skal!

    Ég spurði víst um daginn hvort vorið væri komið. Svo reyndist ekki vera. Ekki þá. Svaraði mér sjálfur nokkrum dögum seinna, eða réttara sagt reyndi að telja mér trú um það, því ég sá tvo tjalda hérna úti í dal, að nú hlyti að vera komið að því. Þetta dugði ekkert. Það snjóaði og fraus. Enn fannst mér þetta hlyti að vera komið, þegar ég sá blómstrandi túnfífilinn brosa upp í sólina einn daginn. Það reyndist líka vera óskhyggja.

    En nú var ég að koma úr Þingvallasveit. Þar reyndu hundruð hrossagauka, lóur, stelkar, stokkendur gæsir og himbrimar allt hvað þau gátu til þess að sannfæra mig um að allt horfði nú til betri vegar, vorið væri komið. Sérstaklega var hrossagaukurinn sannfærandi. Og þá var ekki síður sannur tónninn í kalli himbrimans sem ómaði undan Arnarfellinu. Lóan var að vísu svolítið veik á díinu. En það er hennar eðli.

    Og þrátt fyrir þessi þjófstört og þrengingar undanfarinna vikna lét ég sannfærast. Ég lét mig meira að segja hafa það að fara í síðar nærbuxur og ullarsokka, smeygja mér í vöðlurnar og vaða út í vatnið sem er varla tveggja stiga heitt þarna við Dyrhólmann. Ekkert vildi hann hjá mér. En vakti og skvetti sér, enda fluga í lofti, vorfluga, steinfluga og toppfluga.

    Sá hann sem sagt. Reyndar er það svo að mér hefur sjaldan gengið nokkuð að ná fiski fyrr en vatnið er farið að hitna svolítið. Engu að síður veit ég og viðurkenni að ég mun grípa hverja góðviðrisstund sem gefst til þess að egna fyrir hann með mínum ómótstæðilegu flugum. Og ég veit líka að það verður eins og með vorið sem kemur á endanum

Ég enda á því að fá hann. 


Espressókaffi hættulegt?

Sé í þessari frétt mbl.is að kaffi er ekki hættulegt eins og margir hafa þó haldið fram. Þó er bara um að ræða kaffi sem hellt er á í gegnum pappírsfilter.

Jamm. Espressó og pressukaffi er semsagt hættulegt. Eða hvað? Þetta er bandarísk könnun og þar drekkur enginn kaffi nema úr uppáhellingar-pappírsfilterkönnum. Og reyndar yfirleitt ódrekkandi, illa brennt, skolp. Að vísu er á seinni árum hægt að fá almennilegt kaffi á veitingahúsum.

En á maður að trúa þessu? Áratugum saman var okkur sagt að borða smjörlíki í staðinn fyrir smjör. Nú er komið í ljós að í smjörlíki eru hættulegar fitusýrur, svokallaðar trans- fitusýrur en smjör og dýrafita er ekki eins óholl og talið var. Menn eru reyndar að komast að þeirri vísindalegu niðurstöðu sem forfeður okkar vissu af reynslunni að það er óhófið sem er hættulegast. "Það er óhollt að borða sig saddan", sagði íslenskur búnaðarfrömuður þegar vinnumenn hans vildu fá meira að éta. Ofgnóttin, hreyfingarleysið og ýmis verksmiðjuframleiddur og meðhöndlaður matur eru sennilega verstu óvinirnir.

Ég held ótrauður áfram að drekka mitt espressókaffi. 


mbl.is Uppáhellt kaffi er ekki heilsuspillandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldi gjósa?

Eins og sést í þessari frétt Mbl. er Skaftá í hlaupi. Hlaupið er sagt óvenjustórt, ku hafa farið bæði í Skaftá og Tungnaá. Kannski gos nái upp úr jöklinum. Seinustu hlaupum hefur einmitt fylgt órói sem sumir hafa viljað túlka sem gos. Annars væri gaman að heyra hvað fólk veit um Skaftárhlaup.
mbl.is Hægur vöxtur í Skaftá; engar tafir á umferð vegna hlaupsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundabraut enn

Heyrði í fréttum á NFS að ekki væri hægt að hefja verkhönnun á Sundabraut fyrr en búið væri að ákveða hvar hún ætti að vera. Jamm. Þetta eru nú að mínu viti ekki fréttir. Það er á hinn bóginn frétt að ekki skuli enn búið að ná samkomulagi um staðinn fyrir hana. Sem helgast af því að ríkið viðurkennir ekki í reynd skipulagsvald sveitarfélagsins Reykjavíkur og reynir ævinlega að þvinga sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu til þess að velja ódýrasta kostinn þegar til skamms tíma er litið. Mér finnst á hinn bóginn fáfengilegt að heyra pólitíkusa nota þetta mál til þess að koma höggi hver á annan. Þeim væri nær að standa saman og tryggja hagsmuni okkar kjósendanna gagnvart fjandsamlegu ríkisvaldi.

Það er löngu orðið tímabært að stjórnmálamenn hætti að fórna hagsmunum þorra þjóðarinnar til þess að kaupa sér atkvæði í strjálbýlum kjördæmum sínum. Samgönguráðherrar sem reyna að þóknast kjósendum sínum með milljarðaframkvæmdum, hvort sem það eru jarðgöng eða brýr, ættu að borga þetta sjálfir. Svo hælast þeir um þegar þeir eru komnir á margföld eftirlaun almúgamanna.

Hvað er hægt að kalla svona framferði? 


Tjaldurinn kominn

Ég get ekki orða bundist. Sá tvo tjalda hérna í dalverpinu í Seljahverfi í gær, þá fyrstu sem ég sé í vor. Í sama bili flugu fimm lóur yfir. Nú hlýtur að fara að bregða til hlýinda. Þegar þetta er skrifað virðist veðrið gott, bjart og stillt. Ekkert kemst ég samt til þess að bleyta flugu um helgina, því Steinunn setti smáauglýsingu í Fréttablaðið um bílskúrssölu hér í Vogaselinu. Þar má aldeilis finna margan góðan gripinn! Stórfurðulegt að maður skuli geta fengið af sér að láta öll þessi djásn frá sér! Og það er kannske ekkert skrýtið þótt hér sé ýmislegt til. Meðal annars er hér afgangur af þrem veitingahúsum ofl. ofl..

Þjófur í Paradís

Var í Þingvallasveit í nótt. Vaknaði rétt eftir að sumar og vetur frusu saman. Þvílík dýrð, þvílík dásemd. Vatnið spegilslétt og gufan úr Henglinum steig lóðrétt til himins Alfreð til dýrðar. Sandey og Nesjaey spegluðust í logninu og bergmálið úr Arnarfellinu magnaði kallhljóð svananna. Uppi í móanum söng lóan dirrindí, þröstur á grein, hrossagaukur kallaði, rjúpukarri ropaði, skjannahvítur uppi á hól.

Þetta var reyndar fyrir allar aldir. Þegar leið að fótaferð dundi vélarskröltið á okkur. Forstjóri byggingafyrirtækis keypti sér sumarbústað þarna í fyrra fyrir tuttugu milljónir, lét rífa hann og komst í fréttirnar fyrir það að hafa orðið að nota þyrlu við að koma steypu í nýja bústaðinn. Og nú voru semsagt verkamenn að vinna þarna, með tvær vinnuvélar, sumardaginn fyrsta, besta dag ársins til þessa, daginn sem farfuglarnir komu í þessa sveit allra sveita.

Sá sem stendur fyrir þessum ófriði er líklega kominn á þennan stað til þess að njóta friðar. Svo á eftir að koma sér fyrir, byggja bátaskýli og setja á flot hraðbátinn, því maður nýtur ekki kyrrðarinnar nema hafa eins og tvö hundruð hestöfl til ráðstöfunar.

Þetta er í elsta þjóðgarði Íslendinga. Hann er nýlega kominn á heimsminjaskrá UNESCO. Þess vegna þykir einna mest áríðandi að fella barrtré.


Gjafir eru yður gefnar

    Mikið ljómandi er nú að búa við slíka rausn sem kjörnir fulltrúar okkar búa okkur. Að ekki sé nú minnst á stefnufestuna og skilyrðislausa hollustu við allt sem heiðarlegt er og gott. Og þessa einlægu og inngrónu sannleiksást. Eða það skyldi maður ætla. Hér á ég auðvitað við eftirlaun stjórnmálamannanna sjálfra. Þeir eru hjartanlega sammála þeim sem bent hafa á að óeðlilegt sé að pólitíkusar skuli - einir allra í samfélaginu - geta notið fullra eftirlauna, þótt þeir séu í starfi hjá sama atvinnurekenda. Þeir taka líka heilshugar undir það að óeðlilegt sé að pólitíkusar geti safnað margföldum eftirlaunarétti hjá sama vinnuveitanda og það án þess að hafa nokkru sinni greitt þetta sjálfir. Þeir eru innilega sammála því að þetta sé ótækt. Þeir hafa líka hver um annan þveran býsnast yfir því að þetta skuli hafa verið samþykkt án þess að gerð hafi verið grein fyrir kostnaðinum. Þeim finnst það fullkomlega óviðunandi að útgjöldin við þetta hafi reynst tífalt hærri en talað var um.

    Þeir hafa hvað eftir skorið niður ofrausn í ölmusu ríkisstarfsmanna. Jafnvel með reglugerð. Þeir sfnámu lög um kjaradóm.... og reyndar síðasta úrskurð hans, sem þó var settur eftir lögum sem þeir höfðu búið til sjálfir.

    Guði sé lof að við eigum svona sannorða, óeigingjarna, heiðarlega, sanngjarna og vitra stjórnmálamenn. Hvernig færi annars fyrir okkur?


Hundslappadrífa var á

    Sú saga var mér einu sinni sögð til marks um snilld Halldórs Laxness, að hann hefði í þýðingu sinni á Birtingi Voltaires staðið frammi fyrir langri lýsingu höfundarins á snjókomu. Halldór þýddi þessa löngu og íturnákvæmu frásögn Voltaires með einni setningu: Hundslappadrífa var á. Og þannig var það um hádegisbil í Þingvallasveit í dag. Í gær var fallegt en kalt. Það lægði með kvöldinu og tunglskinið var fallegt í hægri norðanátt. Í morgun sá ég til hrafnanna sem ég færði lambalæri sem ég fann á botninum á frystikistunni. Þeir settu ekki fyrir sig blessaðir að það var komið nokkur ár fram yfir síðasta söludag.

    En fleiri fuglar voru á ferð. Þrír þrestir flugu fyrir glugg, svanir sungu fyrir neðan Skálbrekku og grágæsapar var að leita að grasnál meðfram lindinni. Ekki er ég viss um að þau hafi fundið neitt. Grágæs hefur reyndar fjölgað nokkuð í sveitinni síðustu ár og sum árin hafa verið tvö hreiður í mýrinni upp við ásinn. Þrestir voru aldrei að vetrarlagi í Þingvallasveit en nú hef ég þá grunaða um að halda þar til allan ársins hring. Þeim hefur fjölgað mikið, eftir að ræktun óx við sumarbústaði .

    Og reyndar einnig í Vinaskógi, þar sem tré eru að nálgast þriggja metra hæð, þau hæstu. Verður þó ekki sagt að þar hafi verið settar fljótvaxnar tegundir: Birki, Reyniviður og Gulvíðir. Það var skilyrði að eingöngu yrðu gróðursettar íslenskar tegundir. En þótt tegundin sé íslensk er ekki sjálfgefið uppruni plantnanna sé héðan. Þannig var talsvert af Reyniviði flutt hingað frá útlöndum og birki frá Noregi og veit enginn hvað er hvað með vissu. Þetta þykir mér jaðra við umhverfishræsni.

    Ef menn fylgdu þessari grunnreglu út í æsar hefði ekki átt að gróðursetja neitt sem ekki var upprunnið í Þingvallasveit. Reyndar held ég að það ætti að vera verkefni Þingvallanefndar að sjá til þess að valdar yrðu fallegar plöntur í Þjóðgarðinum og notaðar til markvissrar skógræktar. Það gæti verið liður í endurheimt landgæða. Þá ætti jafnframt fá hestamönnum einhvern annan stað en Skógarhóla og reyna að lagfæra þann fallega stað. Eftir tæplega áttatíu ára friðun er kominn tími til þess að landeyðing og uppblástur verði stöðvuð í þjóðgarðinum. Taka ber fram að uppblásturinn á sér ekki stað innan núverandi þjóðgarðsgirðingar.

    Og mér finnst undarleg þjóðernishyggja að setja sig upp á móti öllum útlendum plöntutegundum alls staðar. Þá er eins hægt að setja sig upp á móti útlendum dýrategundum, til dæmis öllum búsmala að ekki sé nú talað um hreindýrin. Lokahnykkinn mundum við svo taka með því að fara sjálfir. 


Svanurinn.....var álft!

Úr mbl.is: "Dauði svanurinn sem fannst í Fife í Skotlandi og reyndist sýktur af fuglaflensuafbrigðinu H5N1 var álft að því er erfðagreining vísindamanna breskra stjórnvalda hefur leitt í ljós."

    Ja hver röndóttur! Þessir menn ættu að fá Nóbelsverðlaun! Hefur Kári hugað að því að ráða þá í vinnu?

    Svanurinn reyndist vera álft!

Hvað kemur eiginlega næst? Til dæmis: Endurnar á Reykjavíkurtjörn segja bra. Ja, nema þegar þær segja bra bra. Þetta er niðurstaða langvarandi vísindarannsókna dýrfræðinga borgarstjórnar Reykjavíkur.

     


Að mála

    Satt að segja minnti mig að það væri skemmtilegt að
mála. Núna er ég að mála herbergiskytru hérna á heimilinu og það fyrsta
sem ég kemst að er að þetta er misminni. En það hefst. Sérstaklega ef
ég er nú ekki að eyða tímanum í blogg. Um daginn hélt ég að vorið væri
komið. Það var óskhyggja. Núna er þetta kannski að koma. Og ef þetta
fer nú að óskum, getur maður dregið fram flugustöngina og farið að
kasta. Ég er búinn að sanka að mér flugum, hef keypt mest á netinu, því
ég hnýti ekki vegna sjóndepru. Steinunn kona mín hélt á tímabili í
vetur að ég væri búinn að tapa þessari litlu vitglóru sem eftir er. Svo
heltóku flugurnar mig. Og svo fer maður með lagerinn út á bakka. Á fimm
hundruð í boxum. Og notar fimm. En það er þessi öryggistilfinning sem
gildir. Þetta er líklega sama tilfinningin og hjá þeim sem eiga stóra
jeppa á túttum. Rannsóknir hafa sýnt að langflestir fara aldrei út af
malbikinu. En það er fullvissan um að geta farið, á fjöll, barist í
ófærð og torfærum. Það er þessi fullvissa sem gefur sálinni þann styrk
sem þarf. Eins er það með allar flugurnar í boxunum sem maður notar
ekki. Þær gefa manni sjálfsöryggið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 45650

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband