20.5.2007 | 18:49
Ég er staddur
Mikið afskaplega finnst mér kauðalegt þegar fréttamenn útvarps hefja mál sitt á orðunum Ég er staddur.... Sjálfsagt varð mér þetta einhvern tíma á á fyrri dögum, en var snarlega bent á af eldra og reyndara fólki að þetta væri hortittur.
En hvaðan kemur þetta?
Staddur eða stödd er lýsingarháttur þátíðar af sögninni að steðja. Sú sögn, sem nú er í þeirri mynd og merkingu, horfin úr málinu, var í þátíðinni staddi og þýddi að setja á sinn stað, stöðva, ákveða, að sögn Ásgeirs Blöndals Magnússonarí Orðsifjabók. Sögnin er mynduð af lýsingarorðinu staður, sem menn þekkja til dæmis notað um hesta, Hann er staður, bölvuð truntan og er aftur leitt af nafnorðinu staður.
Niðurstaðan er semsagt þessi: Það er óþarfa hortittur og málalenging að hefja mál sitt á orðunum Ég er staddur, eða ég er stödd. Þótt ekki sé það beinlínis rangt.
Ég hef stundum talað um ofvöndun en það er það fyrirbæri kallað þegar fólk grípur til orðfæris sem því er ekki tamt og verður þá oft fótaskortur.
Sögnin að loka er einföld áhrifssögn. Menn loka búðum, dyrum, skápum og jafnvel bók. En með engu móti er hægt að taka til orða eins og ég heyrði myndarlega fréttakonu segja á laugardaginn....þegar kjörstöðum lokar. Þarna hefur hún líklega látið eitthvert bókmálsorðalag sem henni var ekki tamt þvælast fyrir sér. Veðri slotar og kosningu lýkur en kjörstöðum er lokað. Hér er semsagt nauðsynlegt að grípa til þolmyndar. Kjörstaðir voru opnaðir og þeim var lokað.
Og fyrst við erum að tala um kosningar. Fylgi er mikið eða lítið, ekki hátt eða lágt. Ég sá ágætan framsóknarmann taka svo til orða í blaðagrein, að Framsóknarflokkurinn sé "með lægsta fylgi í sinni 90 ára sögu". Hér eru augu höfundarins um of bundin við súlur á stöplariti, sem ýmist eru háar eða lágar. Fylgi er ýmist mikið eða lítið. Og svo er vitaskuld betra að láta fornafnið "sinni" á eftir sögu, sem sagt ekki í sinni 90 ára sögu, heldur í 90 ára sögu sinni. Og svo getur öldungurinn farið að sleikja sárin.
Og fyrst minnst er á fornöfn. Þau eru ágæt til síns brúks en eru stundum óþörf. Við segjum til dæmis ekki Mér er illt í augunum mínum. Og ekki heldur Ég geng alltaf með vettlinga á höndunum mínum. Og þetta gerum við ekki þótt Vatnsenda Rósa hafi ort um augun mín og augun þín. Eins er um flesta líkamsparta. Yfirleitt notum við ekki eignarfornöfn, þegar rætt er um hendur, fætur, hár eða skynfæri.
En þetta gera auglýsendur. Hársápa er auglýst sem sérlega góð fyrir hárið þitt og nú er gleraugnasali að auglýsa gleraugu fyrir augun þín. Þetta er hvimleitt og óþarft.
(Birtist áður sem pistill um "Daglegt mál" á Útvarpi Sögu.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
einherji
Bloggvinir
- malacai
- gusti-kr-ingur
- hof
- arogsid
- asarich
- hugdettan
- arh
- baldurkr
- kaffi
- bergurben
- begga
- bibb
- eurovision
- dabbi
- dofri
- egillrunar
- esgesg
- esv
- elinora
- estersv
- eysteinn
- fsfi
- fridrikof
- gesturgudjonsson
- gislihjalmar
- gudjonbergmann
- zumann
- orri
- gunnarfreyr
- guru
- halldorbaldursson
- doriborg
- kiddih
- hallurg
- hallurmagg
- handsprengja
- heidar
- 730
- hildurhelgas
- hlynurh
- kolgrimur
- hlodver
- hrannarb
- hvitiriddarinn
- ibbasig
- ingibjorgelsa
- jara
- ingo
- jensgud
- skallinn
- jonthorolafsson
- jullibrjans
- julli
- juliusvalsson
- krist
- hjolaferd
- ladyelin
- mariakr
- sax
- leifurl
- poppoli
- ofansveitamadur
- solir
- omarbjarki
- vestskafttenor
- pallieinars
- palmig
- raggipalli
- rheidur
- rungis
- bullarinn
- xsnv
- sigfus
- safi
- siggivalur
- fletcher
- ses
- kosningar
- garibald
- torfusamtokin
- tommi
- eggmann
- villagunn
- steinibriem
- thoragud
- thordistinna
- thorolfursfinnsson
- aevark
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góður pistill, Sigurður. Hef aldrei leitt hugann að því að ekki væri gott mál að segjast "vera staddur einhversstaðar ". Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.
Hér í Færeyjum er sögnin "steðga" að stansa. Við jarðgöng ,sem hér eru víða, stendur gjarnan: "Steðga mót reyðum blunki", skirfað eftir minni , en menn eiga að stansa ef rautt ljós blikkar.
Þegar sagt er "kjörstöðum lokar",eins og alloft heyrðist í kosningasjónvarpi, þá er það ekkert annað en skelfileg ambaga.
Vinarlega - eins og menn segja í Færeyjum -
Eiður Svanberg Guðnason, 20.5.2007 kl. 21:05
Endilega sem mest af svona ábendingum
Ævar Rafn Kjartansson, 20.5.2007 kl. 21:42
Sæll Sigurður,
Hvað segiru þá um orðið kýrskýr?
Nú eru menn farnir að nota það talsvert opinberlega í merkingunni að eitthvað sé skýrt og/eða mjög augljóst en ég lærði á sínum tíma að orðið merkti heimska, að vera heimskur.
Væri gaman að fá úr þessu skorið.
Heiðar Reyr Ágústsson, 20.5.2007 kl. 22:50
Blessaður Sigurður
Það væri verulegur fengur að þú birtir þessa pistla á Netinu. Ég og sjálfsagt flestir hefðu gott af því.
Unnar Rafn Ingvarsson, 20.5.2007 kl. 23:50
Það er nauðsynlegt að fylgjast með málfari, ekki síst þeirra sem "eru í loftinu". Þætti mér gaman að fá pistil frá þér um orðnotkunina "mikið af" sem tröllríður okkar litla samfélagi.
Hreiðar Gíslason (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 00:16
Gaman af þessu.
Jens Sigurjónsson, 21.5.2007 kl. 00:33
Það er sannanlega við ramman reip að draga að leiða líkum að því að þegar leitað sé eftir einhverjum til að leiðrétta vont málfar komi sá sem kallað er eftir fram í dagsljósið eins og nú hefur gerst.
Takk fyrir það Sigurður
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 08:49
Fróðlegt. Hafðu bestu þakkir fyrir.
Það er kominn tími á pistil um "gaman að" og "gaman af". Það virðist ekki nokkur maður skilja muninn lengur.
krossgata, 21.5.2007 kl. 09:19
Guð minn almáttugur, hverjum er ekki slétt sama þótt það sé orðin málvenja að segja að maður sé staddur einhversstaðar? Mál sem ekki þróast er dautt mál, sjáðu hvað margir tala klassíska latínu í dag.
Annaðhvort breytist og þróast íslenska eða hún deyr út sem talmál - því fer fjarri að breytingar þýði dauða máls heldur nákvæmlega öfugt.
G. H. (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 10:33
Á einhver til myndir af ungabörnum?
Ævar Rafn Kjartansson, 21.5.2007 kl. 12:09
Ekki veit ég hver G.H. er og læt mér í léttu rúmi liggja. En ég ítreka að orðalagið "að vera staddur" er hvorki rangt né ótækt. Það er einungis kauðalegt í inngangi frátta- og dagskrárgerðarmanna og oftast alveg óþarft. Betra er að koma beint að ernisinntaki fréttar eða innskots. Og ekki er ég á móti því að tungumál þróist. Þó er sjálfsagt að reyna að hafa áhrif á hvernig það gerist. Tungumálið er nefnilega tæki og beiting þess íþrótt. Ef svo væri ekki, væru allir rithöfundar snillingar. Svo er ekki. Og aftur að staddur. Ef eitthvað er, er það orðalag staðnað og úrelt.
Sigurður G. Tómasson, 21.5.2007 kl. 12:51
Tómur málfarsfasismi
Jóhamar (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 13:03
Ég held að mörg fórnarlömb fasista óski þess að þeir hefðu einungis reynt að mennta sig, en ekki berja sig til hlýðni.
Steinn E. Sigurðarson, 21.5.2007 kl. 13:11
Hvernig líst þér á: "Ég er að fara erlendis og er að fara að vera staddur þar um helgina" ??? ;)
Andrés Jónsson, 21.5.2007 kl. 13:54
Smá leiðrétting! (Það er ekki hægt að breyta athugasemdum). Fréttamenn heita þeir og efnisinntak á þetta að vera.
Sigurður G. Tómasson, 21.5.2007 kl. 14:27
Það er líka stórmerkilegt að sjá og heyra sum orð og orðatiltæki verða að faraldri.
Eitt sem fer verulega í taugarnar á mér um þessar mundir er "lausnir". Það er boðið upp á endalausar lausnir t.d. prentlausnir, innréttingalausnir, gólfefnalausnir, tölvulausnir og svo sá ég auglýstar svefnlausnir þar sem verið var að auglýsa rúm. Þær eru fleiri "lausnirnar" sem okkur eru boðnar, ég man bara ekki eftir fleirum í svipinn.
Þóra Guðmundsdóttir, 21.5.2007 kl. 15:41
Sæll Sigurður
Hvað finnst þér um stóru appelsínugulu skiltin frá Vegagerðinni eða verktökum þar sem stendur "Vinnusvæði lokið" ? Mér hefur alltaf fundist þetta dálítið undarlegt.
Ágúst H Bjarnason, 21.5.2007 kl. 16:47
Ágæti Sigurður. Góður pistill. Það er með setningarbyrjanir í pistlinum.
Og fyrst...; Og svo....; Og svo...; Og fyrst...; Og ekki...; Og þetta... .
Segi ekki meira. Hef áhuga að vera bloggvinur en kann ekki að senda það frá mér.
Með kveðju um gott veiðisumar !
Ólafur H. Einarsson (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 16:56
Enn verð ég að bæta við athugasemd. Til skýringar. Þessi pistill er saminn til flutnings í útvarp. Málsnið sem ég hef kosið mér í útvarpsþætti mínum er skylt talmáli, þótt alls ekki sé það ómengað talmál, með öllum sínum rökleysum, hálfkláruðum setningum og hikorðum. Pistillinn ber þess merki og hefði sjálfsagt ekki aflað höfundinum hárrar einkunnar í íslenskum stíl. Og hananú!
Sigurður G. Tómasson, 21.5.2007 kl. 19:59
Blessaður Sigurður. Fínn pistill hjá þér. Það hafa greinilega margir áhuga á vangaveltum um íslenskt mál miðað við allar athugasemdirnar.
Kveðja,
Bryndís Friðgeirs á Ísafirði
Bryndís G Friðgeirsdóttir, 22.5.2007 kl. 23:23
Góður pistill og skemmtilegur. Þetta minnir mig á orðfæri sem veðurlýsendur nota mikið á stöð 2: "Ég er að gera ráð fyrir því að..." og svo kemur fram að viðkomandi er að gera ráð fyrir því að: ...það verði rigning, ...það sé að koma lægð/hæð, ...það kólni eða eitthvað annað.
Guðmundur Örn Jónsson, 22.5.2007 kl. 23:30
Frábær pistill hjá þér og mjög áhugaverður. Því miður er alltof lítið fjallað um íslenskt mál þrátt fyrir að það vanti ekki áhugan almennt hjá fólki. Mér finnst notkunin á "ég er staddur" minna á "í dag", gæti verið áhrif úr ensku?
Ester Sveinbjarnardóttir, 23.5.2007 kl. 02:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.