Yfir hvað?

Í Ríkisútvarpinu á dögunum var sagt að tvær unglingsstúlkur hefðu komið “til kasta lögreglu” en þær munu hafa verið handteknar vegna gruns um þær væru með fíkniefni á sér og reyndist svo vera (víst á leyndum stað). Þetta er að líkindum dæmi um ofvöndun. Orðatiltækið “að eitthvað komi til kasta” þýðir að það komi til ákvörðunar, eða úrskurðar og þekkist í gömlu máli, þótt það sé sýnu algengara á seinni tímum. Á hinn bóginn er til orðatiltækið “að komast í kast við eitthvað” til dæmis að komast í kast við lögin eða aðra menn og er það þekkt frá fornu fari, er t.d. að finna í Njáls sögu. Hér hefur þessu slegið saman. Annars þekkja það allir blaðamenn sem unnið hafa úr lögregluskýrslum, að þar er stundum að finna málblóm, sem ekkert erindi eiga í urtagarð blaða eða útvarps. En sem sagt, stúlkurnar komust í kast við laganna verði en komu ekki til kasta lögreglu.

Í stuttri kynningu í sjónvarpi tókst dagskrárgerðarkonu nokkurri að koma tvisvar að langlokunni “þrátt fyrir það að” í staðinn fyrir þótt eða þó að.

Enn dynur á okkur tökuþýðingin “að taka yfir” í merkingunni að kaupa eða eignast. Í gömlu máli var þetta orðasamband til og merkti þá að keyra um þverbak. Í hinni nýju peningamannamerkingu finnst þetta ekki í orðabók Menningarsjóðs, tveimur eldri útgáfum en í útgáfu Marðar Árnasonar af sömu bók er það komið og sagt “óformlegt” sem ég held að séu skrauthvörf þeirrar bókar fyrir vont mál. Þetta orðasamband er með öllu óþarft. Eimskipafélagið er einfaldlega að kaupa kanadiskt félag, og eignast það þá náttúrulega. Það sendir hluthöfunum tilboð um kaupin. Nafnorðin “yfirtaka” og “yfirtökutilboð” eru bæði ljót, hrá þýðing úr ensku, og aldeilis óþörf.

Um daginn talaði ég stuttlega um lýsingarorðið kýrskýr, sem merkir skv. orðabókinni nautheimskur. Mér brá því náttúrulega nokkuð í brún, þegar ég heyrði annars ágætlega máli farinn ráðherra og skýran taka sér það í munn í merkingunni “ljóst” “skýrt” eða eins og stundum er sagt “morgunljóst”. Þetta var hann Össur okkar iðnaðarráðherra og var að tala um Norðlingaölduveitu og friðun Þjórsárvera og vísaði í stjórnarsáttmálann. En góðir hlustendur, þið þekkið þetta kannski í þessari merkingu? Ef svo er, er þetta slangur og hefur hugsanlega orðið til sem hótfyndni. Dæmi um hliðstæður eru til. En fyrst og fremst þýðir lýsingarorðið kýrskýr heimskur. Meira að segja nautheimskur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórbergur Torfason

Sæll Sigurður. Alltaf gaman að lesa orðskýringar. Mig langa að leggja fyrir þig orð sem hefur angrað mig alllengi. Það er orðið "lágvöruverð eða lágvöruverðsverslun". Þetta finnst mér alveg forkastanlegt skrípi.

Að taka yfir í fréttum, er líklega meint þannig að fyrirtækið er svo skuldugt að annað fyrirtæki yfirtekur skuldirnar fyrirtækið fylgir bara með í kaupbæti.

Mér svona flaug þetta í hug.

Þórbergur Torfason, 30.5.2007 kl. 21:24

2 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Takk fyrir pistilinn.

Tókstu eftir því á f orsíðu Mogga í morgun  að lendur skiptu um hendur ?  Nú orðið  skiptir  allt um hendur, þegar einhver tekur við  eða kaupir  eign annars.

Eftirfarandi  er  hinsvegar næsta skemmtilegt !

Mbl.is 29.05.2007

Segir Impregilo m.a., það sé algjörlega rangt að fyrirtækið mismuni fólki með launagreiðslum og enginn fái meira eða minna greitt fyrir sömu vinnu.

Það var og !

Eiður Svanberg Guðnason, 30.5.2007 kl. 21:40

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Gaman að þessum pistlum. Þú hefur væntanlega hlustað á Kastljósið og viðtölin í tilefni forsetaverðlaunanna. Það voru ýmis blóm þar. Þú mættir leggja út af þeim.

María Kristjánsdóttir, 30.5.2007 kl. 22:46

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

"Óþörf" orðasambönd auka samt við fjölbreytileika málsins. Að mínu mati er einsleitni hættulegust á öllum sviðum lífs og mannlífs þar á meðal að einsleitt og einhæft tungmál sé næst öllum tungumálum að deyja út.

Það verður í senn rýrt og litlaust, hættir að þjóna þörfum margra sem tala það og þegar svo nægilega mörgum er innprentuð sú tilfinning með nagginu að það að nota tungumálið sé eins og að ganga um í glervöruverlsun með bundið fyrir augu, þá skyndilega taka stórir hópar að snúa baki við því og öllum reglum þess. Með stöðugu óþörfu "leiðréttingum" um notkun málsins stundum í stað málefnalegra svar og röksemda brestur að lokum skyndilega og óvænt tryggð við það. 

Það ætti að vera grunnmarkmið okkar að temja og kenna grundvöll og eðli íslenskunnar en leyfa og hvetja til skapandi notkunar orðamyndunnar og nýmyndunar, þar með talin tökuorð sem þjóðin sker sjálf úr um hvort hún veitir viðtöku og leyfir að lifa en einnig meðal allskyns "óþörf" orðasambönd og "gagnleg" tökuorð.

Helgi Jóhann Hauksson, 30.5.2007 kl. 23:15

5 identicon

Einu sinni var ég tvisvar sinnum laminn þrisvar sinnum í röð, af fjórum fjölfötluðum fyrrverandi formönnum Framsóknarflokksins.Einu sinni var ég tvisvar sinnum laminn þrisvar sinnum í röð, af fjórum fjölfötluðum fyrrverandi formönnum Framsóknarflokksins.  Þannig að nú er ég kýrskýr.

Árni Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 01:09

6 identicon

Þannig að nú er ég kýrskýr.

Árni Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 01:11

7 identicon

Ég þjáist af fingrastami sko.

Árni Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 01:17

8 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Það er öllum hollt að vanda mál sitt og gott fyrir okkur að fá spark í rassinn annað slagið.  Ég vildi sjá miklu meira af umfjöllun um íslenskt mál í fjölmiðlum.

Ester Sveinbjarnardóttir, 31.5.2007 kl. 01:18

9 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Hugheilar þakkir fyrir þessar stuttu og oft hnyttnu athugasemdir um okkar djásn, íslenskuna.

Össur er mun skýrari en naut, hann varast aftur á móti ekki ætíð myndhverf orðatiltæki, sem eiga rætur í búskaparháttum fortíðar.

Dæmi um það er, ; Að sjá sína sæng uppreidda.  Hann hefur ítrekað talað um, sína útbreiddu sæng.  Kemur þar til, að Össur minn veit hugsanlega meira um blessaða skepnuna Urriðann í Þingvallavatni, þá fögru skepnu Guðs en Fardaga og skildaga.  Hjú gátu átt það á hættu, að sjá sína sæng uppreidda á klakk, allt að nónbili þessa daga. Það þýddi veruleg umskipti á högum þeirra.

Þetta er miður, þar sem íslenskukennarar hans í MR, kunnu þessu allgóð skil.  Tveir þeirra, Magnús nefndur ,,góði" og Ólafur (spakvitur) Oddsson, kunnu þá list, að leggja sér ekki nein þau orðatiltæki í munn, sem ekki voru morgunljós og skýrðu þau fyrir nemendum sínum.  Þetta gerðu þeir ljúfmannlega og af algeru yfirlætisleysi, svo sem kennurum á að vera tamt.

Með kærum þökkum og virðingu fyrir sameiginlegu áhugamáli.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 31.5.2007 kl. 09:23

10 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Hummmm!

Ég fíla mig nú bara eins og ég sé kominn í íslenskutíma í Ármúlaskóla árið sautjánhudruð og súrkál:

Gaman!

Ásgeir Rúnar Helgason, 2.6.2007 kl. 21:49

11 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Sæll Ásgeir Rúnar!

Eitthvað rámar mig í þessa tíma. Sumir nemendur eru minnisstæðari en aðrir, eins og gengur. En ekki kunni ég mikið í greininni, þegar þetta var , nema það sem ég hafði lært heima hjá mér og af góðum kennurum. Kennslubækurnar voru líka sumar sérkennilegar. Mér er t.d. minnisstæð spurning í verkefni í einni þeirra: "Hvað er andheitið við framhjól?

Kveðja, SGT 

Sigurður G. Tómasson, 3.6.2007 kl. 15:14

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sæll Sigurður. Ég er ekki alveg sammála þér í sambandi við "yfirtöku" og "yfirtökutilboð". Þetta er auðvitað bein þýðing úr ensku eins og þú bendir á, "take over" en þarf ekki endilega að þýða að fyrirtækið sé keypt allt, heldur að ráðandi hlutur er keyptur. Þess vegna finnst mér þetta ágætis orð sem lýsir ákveðnum gjörningi. Yfirleitt er ráðandi hlutur +50% en í sumum tilfellum getur hann verið minni ef eignarhaldið er mjög dreift.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.6.2007 kl. 01:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband