Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Júdas: Sérfróður ráðgjafi Símans

Ég ætla ekki að leggja dóm á þessa frægu kvöldmáltíðarauglýsingu. En samkvæmt henni þykir mér þó augljóst að Júdas er kominn í fasta vinnu hjá Símanum. Eftir því sem fram hefur komið virðist hann vera ráðgjafi fyrirtækisins um almannatengsl, siðferði og verðlagsmál. Enda eiginlega þekktur fyrir þetta allt. Skyldi hann fá 30 silfurpeninga fyrir aðstoðina?

mbl.is Síminn dreifir 3G símum til heyrnarlausra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjört smámál

Á dögunum vísaði Hæstiréttur máli frá dómi vegna þess að ákæran var gefin út af manni sem ekki hafði leyfi til þess, samkvæmt lögum. Hér var um að ræða, að í kjölfar þess að ríkislögreglustjóri var talinn vanhæfur í Baugsmálinu, setti dómsmálaráðherra reglugerð um ákæruvald sérstaks og sjálfstæðs saksóknara við  embættið í svokölluðum efnahagsbrotamálum. Nú hafa dómarar landsins, bæði héraðsdómari og fimm hæstaréttardómarar komist að þeirri niðurstöðu að reglugerð sem ráðherrann setti sem viðbragð við niðurlægingu, einni af mörgum, í Baugsmálinu, sé andstæð lögum. Frá því um áramótin síðustu hefur fjöldi manna unnið að málatilbúnaði, málssókn og vörnum í fjölda mála. Að ekki sé minnst á sakborninga. Og nú lætur ráðherrann eins og ekkert hafi gerst. Þetta skipti engu. Hefur siðblindan í Baugsmálinu lagst á þennan skynsama mann eins og mara? Í öllum nágrannalöndum okkar mundi ráðherra, sem staðið hefði að slíkum mistökum segja af sér. Á Íslandi segir Björn Bjarnason bara eitthvað á þessa leið: "Lögfræðinga greinir á....!!"

Ekki í hópi frumsýningargesta

Ég hef stundum haft á orði, þegar ég hef verið gagnrýndur fyrir að hafa mig lítið í frammi, að ég hafi aldrei verið í hópi frumsýningargesta og verði aldrei. Þótt þetta sé reyndar ekki alveg satt, hef ég oftast verið einn þeirra fjölmiðlamanna, sem hafa þóst góðir, ef þeim hefur verið boðið á aðalæfingu. Og það er bara ágætt. Það hvarflaði ekki að mér fyrr en nýlega að þessi flokkun, frumsýningargestir og hinir, væri kannski djúptækari en ég hafði haldið.

Þannig var að ein náfrænka mín var að gifta sig. Hún var heimagangur hjá mér, nánast frá því hún fæddist og fram undir það hún var tíu ára. Hún var sérlega skemmtilegt og gáfað barn. Ég hef fylgst með henni allar götur síðan og henni hefur gengið vel á lífsbrautinni.

Hún kynntist ágætum manni. Hann er af góðu fólki, meira að segja Jensen, en það  er samheiti í mínum hópi fyrir ættarnöfn, sem ekki hafa tíðkast hjá mínu fólki. Og þau voru sem sagt að gifta sig á dögunum. Og það frétti ég utan að mér, því mér og mínum var ekki boðið til fagnaðarins.

Við erum nefnilega ekki í hópi frumsýningargesta. Og eigum ekkert Jensen eða Hansen.


Hver á peningana?

Ekki veit ég hve mikið kemur í hlut hvers fyrrverandi viðskiptamanns, né hvaða skilyrðum það er bundið. En ég spyr: Hver kaus þetta fulltrúaráð? Ég sá ekki betur en þetta væri bara eins og deild í Framsóknarflokknum norður og suður og niður. Og hvernig var þessu fé ráðstafað á liðnum árum? Í umboði hverra?

mbl.is Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingar slitið - eigið fé 30 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrjað að bora!

Árni Hjartarson jarðfræðingur var hjá mér í fyrradag, í viðtali vegna ágætrar greinar í nýrri Sögu um heilagan Brendan og Heklu. Greinin er reyndar stórgóð hjá Árna, hann kemst að þeirri niðurstöðu að það sé bara goðsögn að Brendan hafi séð Heklu gjósa. En annars kom frétt í þessu viðtali, Árni er semsagt þessa dagana að skoða kjarna sem kemur úr borholum sem boraðar eru vegna fyrirhugaðra Sundaganga. Enginn fjölmiðill annar en Útvarp Saga hefur greint frá þessum rannsóknum, sem eru greinilega hafnar!

Sleppti honum!

Ég get ekki stillt mig um að hælast um. Við fórum félagarnir austur í Hálfdánarvík á fímmtudaginn. Svo brá við, að ég mokveiddi, þótt fátt væri um fína drætti beggja vegna við mig, og á sömu flugur. Það var eiginlega krókurinn sem gaf þetta mest, landaði fimm bleikjum, missti eina fyrir óþólinmæði og kæruleysi. Svo tók ég reyndar einn urriða, ekki stóran, og sleppti honum. En þetta var kvöld við vatnið eins og þau gerast best, himbriminn sönga ástarsöng suður undir Arnarfelli (og heiðraði okkur líka með návist sinni), toppandarpar synti hjá og stokkönd var á brauðskógi innst í víkinni. Guði sé þökk fyrir svona daga.

Ref fyrir rass


Hlustandi hringdi í mig á dögunum og spurði um orðatiltækið “ að skjóta einhverjum ref fyrir rass”. Ekki kunni ég skil á því frekar en mörgu öðru. Enda liggur þetta ekki í augum uppi. Jón G. Friðjónsson segir í ágætri bók sinni “Mergur málsins”að orðtak þetta sé kunnugt frá seinni hluta 18. aldar. Upprunann segir hann óljósan en vitnar í skýringu Helga Hálfdánarsonar í skemmtilegri bók sem ber heitið “Skynsamleg orð og skætingur”, að líkingin sé upphaflega dregin af því þegar refur skotinn fram hjá rassi þess sem fyrir honum situr en verður hans ekki var. Ekki skýt ég Helga ref fyrir rass í þessu.

Þá var vakin athygli mín á því að menn rugluðust á kyni talnanna hundrað og þúsund. En hér er ekki allt sem sýnist. Töluorð eru reyndar ólíkindatól. Sum beygjast ekkert, önnur eru til í öllum kynjum. Þúsund er til dæmis ýmist kvenkynsorð eða hvorugkynsorð eða notað óbeygt. Þannig eru báðar fleirtölumyndirnar þúsundin og þúsundirnar jafnréttháar. Um hundrað gegnir öðru máli. Það er annað hvort hvorugkynsorð eða óbeygt. Því er fleirtölumyndin hundruðir ótæk. Það heita hundruð í fleirtölu.

Enn var minnst á gamlan aðskilnað í sögnunum að giftast og kvænast. Meðan konur voru gefnar mönnum sínum giftust þær enda orðið leitt af sögninni að gefa. Karlar kvæntust enda sögnin dregin af kván, eða kvon. Nú er sagt og hefur verið alllengi að karlar og konur giftist. Enn notum við samt ekki sögnina að kvænast um konur og raunar er hún horfin úr daglegu máli. Hún er gamalt mál sem nú er eiginlega aðeins til á bók og því verður fólki hált á því að grípa til hennar sem ekki veit á henni deili. En kannski tökum við hana upp um giftingu samkynhneigðra kvenna? En ekki sé ég reyndar þörf á því.

Í fréttum um daginn var sagt eitthvað á þessa leið í Ríkisútvarpinu: “Fyrirtækið flutti hingað ....” Þetta heitir persónugerving. Fyrirtækið flutti hvorki eitt né neitt. Það fluttist.

Ég heyrði minnst á vöruskiptahalla á dögunum. Sagt var “hann var hærri samanborið við sama tíma í fyrra”. Fá fréttamenn borgað eftir stafafjölda eða hvað? Hér mátti einfaldlega segja:

“Viðskiptahallinn nú var meiri en á sama tíma í fyrra.”

En sem betur fer er blessaður ársgrundvöllurinn í sumarleyfi. (Áður flutt sem pistill í Útvarpi Sögu).

 


Yfir hvað?

Í Ríkisútvarpinu á dögunum var sagt að tvær unglingsstúlkur hefðu komið “til kasta lögreglu” en þær munu hafa verið handteknar vegna gruns um þær væru með fíkniefni á sér og reyndist svo vera (víst á leyndum stað). Þetta er að líkindum dæmi um ofvöndun. Orðatiltækið “að eitthvað komi til kasta” þýðir að það komi til ákvörðunar, eða úrskurðar og þekkist í gömlu máli, þótt það sé sýnu algengara á seinni tímum. Á hinn bóginn er til orðatiltækið “að komast í kast við eitthvað” til dæmis að komast í kast við lögin eða aðra menn og er það þekkt frá fornu fari, er t.d. að finna í Njáls sögu. Hér hefur þessu slegið saman. Annars þekkja það allir blaðamenn sem unnið hafa úr lögregluskýrslum, að þar er stundum að finna málblóm, sem ekkert erindi eiga í urtagarð blaða eða útvarps. En sem sagt, stúlkurnar komust í kast við laganna verði en komu ekki til kasta lögreglu.

Í stuttri kynningu í sjónvarpi tókst dagskrárgerðarkonu nokkurri að koma tvisvar að langlokunni “þrátt fyrir það að” í staðinn fyrir þótt eða þó að.

Enn dynur á okkur tökuþýðingin “að taka yfir” í merkingunni að kaupa eða eignast. Í gömlu máli var þetta orðasamband til og merkti þá að keyra um þverbak. Í hinni nýju peningamannamerkingu finnst þetta ekki í orðabók Menningarsjóðs, tveimur eldri útgáfum en í útgáfu Marðar Árnasonar af sömu bók er það komið og sagt “óformlegt” sem ég held að séu skrauthvörf þeirrar bókar fyrir vont mál. Þetta orðasamband er með öllu óþarft. Eimskipafélagið er einfaldlega að kaupa kanadiskt félag, og eignast það þá náttúrulega. Það sendir hluthöfunum tilboð um kaupin. Nafnorðin “yfirtaka” og “yfirtökutilboð” eru bæði ljót, hrá þýðing úr ensku, og aldeilis óþörf.

Um daginn talaði ég stuttlega um lýsingarorðið kýrskýr, sem merkir skv. orðabókinni nautheimskur. Mér brá því náttúrulega nokkuð í brún, þegar ég heyrði annars ágætlega máli farinn ráðherra og skýran taka sér það í munn í merkingunni “ljóst” “skýrt” eða eins og stundum er sagt “morgunljóst”. Þetta var hann Össur okkar iðnaðarráðherra og var að tala um Norðlingaölduveitu og friðun Þjórsárvera og vísaði í stjórnarsáttmálann. En góðir hlustendur, þið þekkið þetta kannski í þessari merkingu? Ef svo er, er þetta slangur og hefur hugsanlega orðið til sem hótfyndni. Dæmi um hliðstæður eru til. En fyrst og fremst þýðir lýsingarorðið kýrskýr heimskur. Meira að segja nautheimskur.


Mikið af hveiti og sykri


Kona spurði mig hvað mér þætti um orðalagið “mikið af fólki”. Því er fljótsvarað. Fólk er margt en sumsstaðar er mikið af sandi. Það er líka mikið af hveiti í kleinum. Og sykri. En mörgu fólki þykja þær góðar. Hið sama má segja um fé. Menn eiga margt fé, í merkingunni sauðfé en mikið fé ef átt er við peninga.

Mörgum hættir líka til þess að fara rangt með tölu sagna þegar notuð eru orð á borð við fjöldi.

Fjöldi manna var hætt kominn. Þarna stýrir eintöluorðið fjöldi sögninni. Fjöldi var.. en ekki fjöldi voru.

Maður stakk því að mér um daginn að kanna hvaðan orðið kýrskýr væri komið. Ekki veit ég hversu

gamalt þetta orð er, en ekki er það ð finna í orðabók Sigfúsar Blöndals, en reyndar í tveim útgáfum íslenskrar orðabókar. Að vera kýrskýr, merkir að hafa vit á við nautgrip, vera heimskur. Ætli þetta séu ekki skrauthvörf af lýsingarorðinu nautheimskur?

Enn heyri ég í fréttum Ríkisútvarpsins menn tala um yfirtöku og reyndar var sambandið á þá leið að "vænta mætti yfirtökutilboðs í afganginn af hlutafénu". Orðið yfirtaka er öldungis óþarft, bæði í þessu sambandi og reyndar yfirleitt. Straumur Burðarás festi kaup á hlutafé í finnsku fjármálafyrirtæki og vænta mátti tilboðs í afganginn. Peningablaðamenn verða að fara að vanda sig. Auðmenn eru ekki nýtilkomnir á Íslandi, þótt þeir séu kannski ríkari nú en nokkru sinni fyrr. Orð eru til um flest sem þeir taka sér fyrir hendur.

Fyrst minnst er á auðmenn. Sumir þeirra urðu fyrst stórríkir í kjölfar þess sem kallað hefur verið einkavæðing. Og hvaðan kemur það orð? Það er einkum seinni liðurinn sem er forvitnilegur. Hann er myndaður af voð, sem í fornu máli var með löngu a-i, sem með i hljóðvarpi breytist í æ í -væðing, og þýddi að klæða, færa í föt. Elsta dæmið er líklega hervæðing og þýddi bókstaflega að búast í herklæði. Seinna kom svo vígvæðing. Einhvern tíma á síðustu öld bjuggu menn til orðið “vélvæðing” og þótti sumum nykrað, að tala um að landbúnaðurinn klæddist vélunum. Enn seinna kemur svo tölvuvæðing, einkavæðing og nú síðast klámvæðing. Sennilega hefur vantað eitthvert viðskeyti í málið, til þess að lýsa tilteknum verknaði. En miðað við þá kröfu sem oft er gerð um gegnsæi orða í íslensku, verður ekki séð að hér hafi vel tekist til. En kannski er komið að því að við sláum af í þessum efnum. Ekki get ég þó varist þeirri hugsun að voðin í klámvæðingunni sé afskaplega þunn og skjóllítil! (Áður flutt sem pistill á Útvarpi Sögu).



Ég er staddur


Mikið afskaplega finnst mér kauðalegt þegar fréttamenn útvarps hefja mál sitt á orðunum “Ég er staddur....” Sjálfsagt varð mér þetta einhvern tíma á á fyrri dögum, en var snarlega bent á af eldra og reyndara fólki að þetta væri hortittur.

En hvaðan kemur þetta?

”Staddur “ eða stödd er lýsingarháttur þátíðar af sögninni að steðja. Sú sögn, sem nú er í þeirri mynd og merkingu, horfin úr málinu, var í þátíðinni staddi og þýddi að setja á sinn stað, stöðva, ákveða, að sögn Ásgeirs Blöndals Magnússonarí Orðsifjabók. Sögnin er mynduð af lýsingarorðinu staður, sem menn þekkja til dæmis notað um hesta, “Hann er staður, bölvuð truntan” og er aftur leitt af nafnorðinu staður.

Niðurstaðan er semsagt þessi: Það er óþarfa hortittur og málalenging að hefja mál sitt á orðunum “Ég er staddur, eða ég er stödd”. Þótt ekki sé það beinlínis rangt.

Ég hef stundum talað um ofvöndun en það er það fyrirbæri kallað þegar fólk grípur til orðfæris sem því er ekki tamt og verður þá oft fótaskortur.

Sögnin að loka er einföld áhrifssögn. Menn loka búðum, dyrum, skápum og jafnvel bók. En með engu móti er hægt að taka til orða eins og ég heyrði myndarlega fréttakonu segja á laugardaginn....þegar kjörstöðum lokar. Þarna hefur hún líklega látið eitthvert bókmálsorðalag sem henni var ekki tamt þvælast fyrir sér. Veðri slotar og kosningu lýkur en kjörstöðum er lokað. Hér er semsagt nauðsynlegt að grípa til þolmyndar. Kjörstaðir voru opnaðir og þeim var lokað.

Og fyrst við erum að tala um kosningar. Fylgi er mikið eða lítið, ekki hátt eða lágt. Ég sá ágætan framsóknarmann taka svo til orða í blaðagrein, að Framsóknarflokkurinn sé "með lægsta fylgi í sinni 90 ára sögu". Hér eru augu höfundarins um of bundin við súlur á stöplariti, sem ýmist eru háar eða lágar. Fylgi er ýmist mikið eða lítið. Og svo er vitaskuld betra að láta fornafnið "sinni" á eftir sögu, sem sagt ekki í sinni 90 ára sögu, heldur í 90 ára sögu sinni. Og svo getur öldungurinn farið að sleikja sárin.

Og fyrst minnst er á fornöfn. Þau eru ágæt til síns brúks en eru stundum óþörf. Við segjum til dæmis ekki “Mér er illt í augunum mínum. Og ekki heldur “Ég geng alltaf með vettlinga á höndunum mínum.” Og þetta gerum við ekki þótt Vatnsenda Rósa hafi ort um augun mín og augun þín. Eins er um flesta líkamsparta. Yfirleitt notum við ekki eignarfornöfn, þegar rætt er um hendur, fætur, hár eða skynfæri.

En þetta gera auglýsendur. Hársápa er auglýst sem sérlega góð fyrir hárið þitt og nú er gleraugnasali að auglýsa gleraugu fyrir augun þín. Þetta er hvimleitt og óþarft.

(Birtist áður sem pistill um "Daglegt mál" á Útvarpi Sögu.)


Næsta síða »

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband