Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vinar saknað

Í dag veiddi ég fyrstu bleikjurnar mínar í Þingvallavatni þetta árið. Fyrir réttu ári var vinur minn Magnús Kjartansson málari með mér við sama tækifæri. Það gerist aldrei aftur. Dauðinn tók hann. Ótal yndisstundir áttum við saman við Maggi. Ósegjanlega grimmt var það að taka hann frá okkur. Og ótrúleg mannvonska að koma í veg fyrir að hægt væri að sýna myndirnar hans í Grafarvogskirkju í vor. Sú manneskja sem kom í veg fyrir það, þarf að standa fyrir máli sínu fyrir æðsta dómstól þegar þar að kemur. En elsku Maggi, ég sakna þín!

Dauðakippir Framsóknar

Ekki er að búast við því að ný stjórn verði mynduð í hvelli. Og reyndar ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Margir framsóknarmenn hér á SV-horninu vilja fara út úr stjórninni og telja það einu von flokksins til lífsbjargar. Landsbyggðarmennirnir vilja hanga inni og freista þess að skara eld að kjördæmakökum sínum. Þessi stjórn yrði stjórn óbreytts ástands.

Geir getur ráðið þessu. Hann segir sem er að samstarfið við Framsókn sé traust og ekki þurfi að gera við það sem ekki er bilað. En margir sjálfstæðismenn vilja breytingar. Þeir vilja t.d. kanna kosti ESB-aðildar. Þeir vilja láta lokið tíma heiftrækni og útlegðardóma í flokknum. Þeir telja kalda stríðinu lokið.

Formanninum gefst nú sjaldgæft tækifæri til mikilla breytinga, bæði á flokknum og samfélaginu. Nú kemur í ljós hvort Geir er maður breytinga og framkvæmda eða hvort hann vill bara láta dumma og tátla hrosshárið sitt með Jóni Sigurðssyni.


mbl.is Vaxandi vantrú á framhald stjórnarsamstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að bíta höfuðið af skömminni

Björn Bjarnason lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins. Hann hefði raunar mátt hafa þessar áhyggjur fyrr. Í lögum um meðferð opinberra mála segir að ekki skuli höfða mál gegn mönnum nema meiri líkur en minni séu til þess að þeir fáist sakfelldir. Ekki er að sjá að svo hafi verið gert í málatilbúnaði í Baugsmálinu. Ég tek tek að sjálfsögðu ekki afstöðu gegn því, að  kaupsýslumenn og stóreignamenn sem brjóta lög, séu sóttir til saka.  En eftirtekjan af fimm ára hernaði gegn Baugsmönnum er rýr. Afstaða Björns til Baugsmanna hefur ekki farið á milli mála. Og hann hefur ekki bara tekið afstöðu gegn þeim. Hann hefur ausið fjölmiðlamenn auri sem hafa leyft sér að gagnrýna málatilbúnaðinn. Baugsmenn njóta greinilega samúðar margra flokksbræðra sinna í Sjálfstæðisflokknum. Er ekki tími til kominn að Björn hætti þessu væli og axli ábyrgð sína á klúðrinu og segi af sér? 
mbl.is Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyngdalsheiði og rauðar kusur

Ekki get ég séð að það hafi umtalsverð áhrif til hins verra að leggja þennan nýja veg, þótt ég hefði sjálfur kosið að menn hefðu bara lagfært þann gamla, lagt á hann bundið slitlag en haldið gömlu krókunum. Gamli vegurinn liggur um Gjábakkaháls, Reyðarbarm og Laugarvatnsvelli, en snertir hvergi Lyngdalsheiði. Nýi vegurinn liggur hins vegar norðanhallt í Lyngdalsheiði. Gamli vegurinn var í raun lagður ofan í Kóngsveginn frá 1907, sem raunar má sjá víðar í Þingvallasveit og austur í Tungur. Áður en Kóngsvegurinn var ruddur var alfaraleið milli sveita um Lyngdalsheiði. Það leiddi til þess misskilnings hjá Vegagerðinni að kalla Gjábakkaveg leiðina um Lyngdalsheiði, sem ekki var leiðrétt fyrr en fyrir örfáum árum. Vegagerðin hefur raunar valdið fleiri rangnefnum. Þannig setti hún á skilti örnefnið "Kárastaðanes" við veginn niður í nes það sem heimamenn hafa öldum saman kallað "Rauðukusunes". Þó má vera að sú tilbúna nafngift hafi verið runnin undan rifjum félagsmanna í Norræna félaginu, sem um miðja síðustu öld ætluðu að byggja höll undir starsemi sína í þessu nesi og hefur ekki þótt við hæfi að kenna höll sína við rauða kusu. Af höllinni komst aldrei upp nema kjallarinn, sem nú hefur verið jafnaður við jörðu. Já og svo auðvitað glæsilegur sumarbústaður formanns félagsins, sem enn stendur.
mbl.is Úrskurður um Gjábakkaveg staðfestur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Út í vorið á veginum

Það var ólýsanlega yndislegt að vakna eldsnemma í vorið í Þingvallasveit í morgun. Hvert sem hlustað var ómaði fuglasöngurinn. Eyjarnar og fellin spegluðust í vatninu og hrossagaukurinn spáði í allar áttir. Í lognkyrrum morgninum heyrði maður í himbrimanum alla leið utan af vatni. Ég sá svo til hans á veiðum seinna um daginn úti við Vörðusker, sem ég held að Landmælingar kalli Dyrhólma, sem er auðvitað ekki rétt. Þá var ég sjálfur að reyna til veiða, þar sem við köllum Langatanga og oft hefur gefið mér vel. Ekki vildi hann taka þótt ég sæi fisk vaka úti á víkinni, í áttina að klöpp sem kölluð er Kattabani. Þar út af sagði Guðbjörn frændi minn heitinn að hefði verið urriðalögn og hélt að nafnið á klöppinni væri kannski af því dregið, því það hefði verið kallað að rota kettina, þegar vel veiddist.

Allt var iðandi af flugu en það er rétt eins og skaparinn hafi séð til þess að þessi fyrsta flugnakynslóð komist lítt étin á legg og væng, því fiskurinn tekur hana lítið. Það ræðst nú kannski fyrst og fremst af hitastigi vatnsins, sem þó hefur farið hlýnandi seinni árin. Engin vöktun er þó á því fremur en mörgu ððru í Þingvallavatni.

    Þegar lítið veiðist horfir maður því meira á fuglana. Þeir eru nú nánast allir komnir nema krían og spóinn, sá lóu, stelk, jaðrakan, steindepil, máríuerlu, þúfutittling, grágæs, stokkönd, sílamáf, hettumáf og svartbak auk himbrimans sem áður var minnst á. Allt er að lifna, brum að þrútna og plöntur að laufgast á útjörð. Mér fannst meira að segja bregða fyrir vit mér þessari stórkostlegu móalykt, sem kemur af lynginu og hrísinu. En ég trúi því varla. Ég vona svo sannarlega að það verði ekkert úr hreti í lok vikunnar.


Hörmulegt tjón

Það var ægilegt að fylgjast með brunanum í gær. Eins og fleiri fylgdist ég með útsendingu í sjónvarpi. Það var á hinn bóginn mannsbragur á borgarstjóranum, að hann skyldi koma á vettvang og stappa stáli í slökkviliðið. Það var líka athyglisvert, hve eindregið hann mælti fyrir endurbyggingu húsanna. Vonandi verður af því. Peningar virðast nógir til ef mið er tekið af því sem eytt er í annað. Sjálfur á ég æskuminningar úr Austurstræti, föðursystir mín vann hjá L.H. Muller í Austurstræti 17 og sjálfur var ég sendill þar um stuttan tíma. Þá var Haraldarbúð ennþá til, og Bjarni í Tóbakshúsinu gyllti líkamsræktarkerfi Atlas fyrir ungum mönnum. Á laugardögum seldum við strákarnir sunnudagstímann, sem prentaður var eftir hádegið í Eddunni í Skuggasundi. Þá var pylsusjoppa í steinbyggingunni þar sem eldurinn kom upp. Annars held ég að þar hafi á árum áður verið ein fyrsta leigubílastöð bæjarins. Persilkonan var enn á klukkunni, gamli símaklefinn á sínum stað og karlinn á kassanum boðaði syndugum eilífan eld en dyggðugum sæluvist á himnum. Þegar sól var og gott veður seldi Pétur Hoffmann hluta af fjársjóðum sínum á stéttinni við Útvegsbankann. Þessi miðbær kemur aldrei aftur en kannski verður hægt að sýna því húsi sóma, þr sem Jörgen Jörgensen dansaði menúett um árið.

mbl.is "Höll Hundadagakonungs" varð æstum eldinum að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hrósa sér af dellunni

Ég veit að enginn mun finna að því heldur þvert á móti margir dásama þetta flandur sjónvarpssstöðvanna um allar trissur. Ég get samt ekki á mér setið. Í kvöld var fréttastofan á Ísafirði.  Fréttatíminn var fagfólki til skammar. Allt of mikið af stefnulitlu blaðri. Hver er bættari, þótt skemmtifréttadeild stöðvarinnar haldi morfísfund í sköllóttu deildinni á staðnum? Af hverju þarf að setja fréttaþulinn í stjórnsýsluhúsið á staðnum?  Í kaupbæti fá áhorfendur bilaða útsendingu og tvítekna ekkifrétt um fundinn. Er einhver þörf á því fyrir fréttastofu sjónvarpsins að elta og stæla það sem yfirborðslegast er og froðulegast hjá stöð 2? Er það kannski þetta sem fellst í háeffinu? Guð gefi að þetta verði ekki bara flandur og froða. En þetta lofar ekki góðu. Rétt eins og fundurinn um daginn um utanríkismál, sem var svo sérlegur, að þar var nánast ekkert á mál úr þeim flokki minnst.

Aumingja maðurinn!

Þetta hefði nú hún amma mín heitin kallað fígúruskap. Að eyða á annan milljarð króna undir rassgatið á sér út í geiminn. Það liggur við að maður haldi að jörðin væri betur komin ef svona ferðalangar kæmu ekki til baka úr sínum fígúruferðum. Er virkilega ekkert betra sem maðurinn getur fundið upp til þess að eyða aurunum sínum. En auðvitað á maður ekkert með að vandlætast þetta. Ætli maður segi ekki bara eins og hún amma mín heitin hefði sagt áður en hún tæki málið endanlega af dagskrá: "Aumingja maðurinn!!!"
mbl.is Geimferðalangur kominn til alþjóðlegu geimstöðvarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrkun heimskunnar

Talsmaður banka og fjármálafyrirtækja reynir eins og hann getur að afsaka heimskulegar spurningar bankanna enda fær hann borgað fyrir þetta. En maður hlýtur að spyrja, geta bankarnir íslensku ekki spurt af einhverju viti, er þörf á að apa allt upp eftir tröllheimskum bandarískum "öryggissérfræðingum"? Frænka mín ein á níræðisaldri lenti í leiðindum þegar hún fór að heimsækja son sinn sem býr í Bandaríkjunum. Gamla konan var nefnilega með naglaklippur í buddunni. Það er rétt eins og fyrsta skilyrðið í öllum þessum ráðstöfunum 11. september sé að valda leiðindum og næsta skilyrðið er að reglurnar séu heimskulegar. Það er kannski ekki nema von að hryðjuverkamönnum takist ætlunarverk sitt ef þeir sem eiga að berjast gegn þeim eru ekki klókari en þetta.
mbl.is „Ertu hryðjuverkamaður?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margur heldur mig sig

Ég hef oft undanfarið gagnrýnt ritstjóra Morgunblaðsins. Síðast var það fyrir siðlausar dylgjur um Sigurð Líndal í Reykjavíkurbréfi, þegar ummæli hans um yfirlýsingar Jóns Steinars Gunnlaugssonar vegna vitnisburðar í Baugsmálinu, voru tengd styrk Baugs til Bókmenntafélagsins sem Sigurður er forseti fyrir. Áður skrifaði ég á Moggabloggi um ósmekklega myndbirtingu Strymis af dómurum Hæstaréttar, og leiddi líkur að því að hún byggðist ekki á afstöðu dómsins í kynferðisbrotamálum, heldur því, að þessir dómarar kváðu upp dóm í máli sem snerti ritstjórann sjálfan, um birtingu Baugsbréfanna frægu. Ég er þeirrar skoðunar og hef ítrekað hana í útvarpsþætti mínum, að þessi afskipti og afstaða ritstjórans eigi stóran þátt í rýrnandi velgengni Morgunblaðsins. Þetta hafa einstaka fótgönguliðar í liði hinna innmúruðu og innvígðu tekið óstinnt upp. Og af því þeir eru mótaðir af hinum svart hvíta heimi kalda stríðsins, þá telja þeir að engir geti sett fram gagnrýni af þessu tæi, nema vera launaðir erindrekar Baugsfeðga. En heimurinn er ekki svona. Hvorki ég, Guðmundur Ólafsson, Sigurður Líndal, né meirihluti íslensku þjóðarinnar eru á launum hjá Baugi. Ég veit ekki hvernig er ástatt um þá sem hafa veist að mér fyrir afstöðu mína í þessu máli, en mín afstaða mótast ekkert af því hver borgar mér kaupið mitt. Skoðanir mínar hafa aldrei verið falar fyrir peninga. En ég fer að halda, af því þessum áburði linnir ekki, að þannig sé því einmitt farið um suma. Því segi ég einfaldlega: Margur heldur mig sig!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband