Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sóðarnir kosta okkur stórfé

Ég var að tína rusl úr garðinum hjá mér á dögunum. Aðallega voru þetta umbúðir utan af sælgæti. Hvernig er það, er ekki hægt að kenna krökkum að fleygja ekki rusli á víðavangi? Og þetta eru ekki bara krakkar. Ég hef séð fullorðið fólk fleygja umbúðum út um allt. Margsinnis hef ég komið að laxveiðiám, þar sem allt var útatað í rusli, bjórdósum, tómum sígarettupökkum og þess háttar. Sóðarnir kosta okkur tugi milljóna á ári eins og fram kemur í fréttinni. Er ekki eitthvað meira en lítið að uppeldinu hjá okkur?
mbl.is Vorverkin hafin í Reykjavík; kostnaður við hreinsunarstörf eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósæmilegar dylgjur

Engu er líkara en ritstjóri Morgunblaðsins tapi glórunni í hvert sinn sem hann fjallar um Baugsmál. Í Reykjavíkurbréfi sunnudagsmoggans víkur hann að umræðum um yfirlýsingar Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttardómara, vegna vitnisburðar fyrir héraðsdómi. Einn af þeim sem fréttamenn leituðu til um þetta efni var Sigurður Líndal fyrrverandi lagaprófessor. Án þess að ég fjalli um málið efnislega finnst mér einstaklega ósmekklegt hjá Styrmi Gunnarssyni að tengja umfjöllun Sigurðar því að Bókmenntafélagið, sem Sigurður er formaður fyrir fékk rausnarlegan styrk frá Baugi. Þetta eru siðlausar dylgjur hjá ritstjóra Morgunblaðsins. 

Hagsmunir hverra?

Mogginn sagði frá því í forsíðufrétt um daginn að utanríkisráðherra hefði samið um það við ESB að tollar hækkuðu á grænmeti frá löndum utan bandalagsins um 30%. Þessir tollar voru afnumdir 2002. Nú segir Valgerður Sverrisdóttir að "minni hagsmunum hafi verið fórnað fyrir meiri". Og hverjar eru staðreyndir málsins? Íslendingar (les MS, Osta- og smjörsalan, fyrirtæki sem ræður 99% markaðarins) fá að flytja til ESB "smjör, skyr og" sem eru einhverjir aðrir " hesta á fæti". Þetta eru hinir meiri hagsmunir að mati ráðherrans. Að íslenskir neytendur þurfi að greiða meira fyrir klettasalat, súkkíni, eggaldin og avókadó eru hinir minni hagsmunir. Er nema von að þessu hafi átt að halda leyndu fram yfir kosningar? Er nema von að Framsóknarflokkurinn tapi fylgi?
mbl.is Minni hagsmunum fórnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyttir tímar og gulur Bragi

Ég gerði um daginn athugasemd við blogg Péturs Gunnarssonar um Ingibjörgu Sólrúnu og ferð hennar á kratafund í Svíþjóð. Hann sagði nefnilega fyrst í blogginu að ISG færi þetta á kostnað Alþingis. Hann orðaði það reyndar þannig: "Mér er sagt...." . Í eftirskrift, eftir að athugasemd kemur frá Skúla Helgasyni framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, hefur hann eftir honum að flokkurinn greiddi kostnaðinn. Ég gerði athugasemd við þetta hjá Pétri, sagði þetta bera keim af hinum frægu ummælum Nixons "Let them deny it" og Pétur væri kominn út í pólitík.  Pétur svaraði mér reyndar að bragði og sagði athugasemd mína kjaftæði. Það væri einkenni hins nýja tíma, og miðils, að setja eitthvað fram og leiðrétta síðan ef rangt reyndist. Það kann að vera rétt að það sé einkenni miðilsins og má á það fallast að eftir að þetta var fram komið í vefpistlinum hafi verið rétt af Pétri að láta það standa þar og vitna til athugasemdar Skúla frekar en að stroka allt út. En enn er ég nú reyndar þeirrar skoðunar að menn eigi ekki að fullyrða neitt í vefpistlum sem þeir vita ekki, sérstaklega ekki ef um er að ræða fullyrðingar sem eru meiðandi. Það gerði Pétur. Að vísu með orðalaginu "Mér er sagt...." og enginn veit nema Pétur Gunnarsson hver laug að honum. Öllum getur orðið á að treysta heimildarmönnum, sem ekki reynast traustsins verðir. Og stundum gerist það, til dæmis þegar maður er í pólitík, að ákafinn ber dómgreindina ofurliði. En ef það er sérstakt einkenni hins nýja miðils að birta í belg og biðu slúður, sem reynist síðar vera rakalaus þvættingur, ja má ég þá heldur biðja um gömlu miðlana, jafnvel þótt bragðið minni á langstaðinn gulan Braga.

Hvað varðar hann um lög og rétt?

Í fréttum sjónvarpsins var sagt frá því að Gunnar Birgisson stæði í stórframkvæmdum á Kársnesi í trássi við skipulagslög. Hvernig er það, gilda ekki landslög í Kópavogi? Þarna er um að ræða 13-14 hektara uppfyllingar og viðlegukant vegna stórskipahafnar. Þá er það nú enn eitt. Hversu skynsamlegt er það að byggja stórskipahöfn á Kársnesi? Er ekki öllum leirum og grunnsævi við Álftanes og í Fossvogi stefnt í hættu með stórskipaumferð um grunnan og skerjum þakinn fjörð sem ber nafn með rentu? Hafa sveitarfélögin í nágrenninu, Álftanes, Garðabær og Reykjavík verið spurð álits. Og hvað finnst íbúum Kópavogs um að fá umferðaræðar til og frá stórskipahöfn í gegnum byggðina?

Flóð á fimm ára fresti?

Enn einu sinni berst grjót á land við Eiðisgranda og götur lokast vegna sjávarágangs. Göngustígurinn hverfur í hafið og gat kemur á sjóvarnargarð. Örstutt er síðan dælur í fráveitukerfinu á þessum slóðum slógu út og kjallarar fylltust af skolpi. Nú er spáð 30-90 sentimetra hækkun sjávarborðs á þessari öld og bætist það við landsig á þessum slóðum. Eru menn enn jafn galvaskir í áætlunum um stórfellda íbúðabyggð á uppfyllingum á þessum slóðum?

mbl.is Brimvarnargarður við Ánanaust rofnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóreignamaður án þess að vita það

Við ætlum að fara að flytja. Og til þess að létta flutningana erum við að fara í gegnum allar geymslur, henda, setja í góða hirðinn, að ógleymdum tugum bókakassa sem fóru annað. Í fyrsta sinn á ævinni finnst mér ég vera ríkur. Óþægilega ríkur. Og auðurinn felst mestmegnis í dóti sem ég hef engin not fyrir. Kannski voru einhvern tíma not fyrir það. En ef maður hefur sett það í kassa og troðið því inn í geymslu fyrir fimm eða tíu árum eru viss líkindi til þess að ekki hafi þörfin verið brýn. Svo maður fargar því. Eftir því sem innar dregur í geymsluna og maður fer að finna kassa sem legið hafa óhreyfðir síðan maður flutti síðast fyrir tæpum mannsaldri, því djarfari verður maður í förguninni. Geymslur eru fullar af ómissandi gersemum. Og þegar maður er búinn að farga þessum djásnum, líður ekki á löngu áður en maður þarf að nota eitthvað af því sem fór í góða hirðinn, eða liggur undir tveggja metra moldarlagi uppi í Álfsnesi. Og þá er of seint að iðrast.

Gunnar fær reikninginn

Í fréttum útvarpsins í kvöld var frá því greint, að Skógræktarfélag Reykjavíkur hefði í dag falið lögmanni sínum að kæra Kópavogsbæ fyrir eignaspjöll ofl. á Heiðmörk. Var sagt að tjónið vegna 1000 trjáa sem horfin væru næmi um 38 milljónum. Ekki kom fram hvort allur skaði væri talinn í þessari fjárhæð. Því er ljóst að vatnsveituævintýri Gunnars Birgissonar mun kosta skattgreiðendur í Kópavogi ærnar fjárhæðir.    

    1996 vildi Gunnar ekki una verðlagningu Vatnsveitu Reykjavíkur á kalda vatninu og krafðist gerðardóms. Úrskurður dómsins var 40% hærri en Reykvíkingar höfðu boðið. Við þetta hafa Kópavogsbúar mátt una þar til í fyrra en þá lækkaði Orkuveitan verðið að eigin frumkvæði. Vangaveltur um það að fyrirhuguð vatnssala til Garðbæinga, til komin vegna þess að Kópavogur fór út í "gróðavænleg" viðskipti með hesthúsalóðir, hafi valdið óðagoti bæjarstjórans læt ég liggja milli hluta. En síðasta dag griðatíma Skógræktarfélagsins notaði leiðtoginn ekki til sátta heldur til þess að hóta félaginu meiðyrðamáli. Félagið segir að 1000 tré hafi horfið. Fimmtíu fann lögreglan suður í Hafnarfirði. Hvað varð um hin?


Skemmtileg frétt

Þetta var skemmtileg frétt. Og tengist eðlilega hinni ágætu konu Guðrúnu Halldórsdóttur. Stéttarfélagið Efling hefur sóma af þessu framtaki. En peningarnir mættu vera meiri og styrkirnir fleiri.

mbl.is Verkakonur, einstæðar mæður og ungmenni af erlendum uppruna hljóta hvatingarstyrki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjálp, hjálp, ekki fleiri löggur!

Ekki líst mér vel á hugmynd Steingríms J. um netlögguna. Ætlar VG að bera þetta á borð fyrir kjósendur í vor? Hvað var þá athugavert við að hlera? Er þá samfélagið fullt af kommónistum, hommónistum og perrum, eins og karlinn sagði?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband