Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hann er greinilega ekki í lagi

Ég hélt satt að segja að Gunnar Birgisson mundi taka feginshendi fresti Skógræktarfélagsins á því að kæra út af spjöllunum á Heiðmörk. Nei ónei, hann steytir hnefann á móti Vilhjálmi, sem þó bað honum griða og fékk. Honum er ekki við bjargandi. Það kann að vera, að einhver fljótaskrift hafi verið á samningi Reykjavíkur við Kópavog. En það breytir ekki því að bæjarstjóra hlýtur að vera kunnugt um reglur og lög um skipulag og framkvæmdir. Eiga Kópavogsbúar kannski að taka bæjarstjórann á orðinu, byggja fyrst það sem þá langar og sækja svo um byggingarleyfi til bæjarins. Þeir gætu svo sagt: "Hann Eddi sem seldi mér húsið átti að skaffa leyfið!"
mbl.is Kópavogsbær kann að leita réttar síns í Heiðmerkurdeilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trefillinn raknar

Fyrir nokkrum árum kynntu skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu "Græna trefilinn". Græni trefillinn er prjónaður úr skógræktarsvæðum félaganna allt frá Undirhlíðum í suðri og upp á Kjalarnes. Síðan þetta var hafa engin ný skógræktarsvæði bæst við en mörg hafa verið tekin undir nýbyggingar. Má þar nefna svæði í Kópavogi, Grafarholt og Hólmsheiði, auk spildna í Mosfellsbæ. Stórlega hefur dregið úr nýrækt á vegum sveitarfélaganna. Græni trefillinn hefur sem sagt raknað en ekki verið prjónað við hann. Hafa þó á seinni árum bæst við ný rök fyrir því að auka skógrækt. Eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem staðið hefur myndarlega við bakið á sínu skógræktarfélagi er Hafnarfjörður. Og ekki virðist skipta máli í þessu sambandi hvar fólk er í pólitík.

Þegar horft er á ruddaskapinn í Heiðmörk er maður ekki hissa á því þótt ræktunar- og umhverfissamtök eins og skógræktarfélögin eigi undir högg að sækja. Þegar við slík tröll er að eiga mega félagasamtök sín lítils. Og það er ekki bara við Kópavogsmenn að sakast. Reykjavíkurborg mætti sinna skógræktarsvæðunum miklu betur. Vegir inn á fjölsóttasta útivistarsvæði landsins eru hrein hörmung. Félagið þarf að taka úr eigin sjóðum til þess að halda uppi lágmarksþjónustu og eru þá mörg brýn verkefni látin sitja á hakanum. Nýjasta svæði félagsins, Esjuhlíðar, hefur engan stuðning hlotið frá borgaryfirvöldum. Borgin hefur líka greinilega samið af sér við Kópavog ef hún hefur skuldbundið sig til þess að gefa út framkvæmdaleyfi innan mánaðar. Fróðum mönnum ber saman um að það sé ekki mögulegt, breyta þurfi skipulagi, husanlega kanna umhverfisáhrif osfrv..

Nýlega var jarðýtumaður dæmdur í Hæstarétti fyrir að ryðja slóð utan í fjöllum fyrir ofan Hvergerði. Honum dugði ekki að benda á að hnn hefði einungis fylgt fyrirmælum verkbeiðanda. Með sama móti má gera ráð fyrir því að Klæðningu dugi lítt að bera fyrir sig að Gunnar Birgisson hafi beðið þá að ryðja skóg í Heiðmörk. Þeir bera sjálfir ábyrgð á gjörðum sínum og geta ekki skýlt sér á bak við ofstækisfullan framkvæmdamann í líki bæjarstjóra.

 


Krimmi í Kópavogi

Nei þið megið ekki misskilja mig. Þessi saga um umhverfisspjöllin á Heiðmörk er orðin að krimma. Hér er ekki átt við mann. Skýringar bæjarstjórans og umsjónarmannsins, sem reyndar ber ekki saman einkennast af hroka og vanþekkingu. Fyrir nú utan beint skrök. Það er til dæmis ósatt að haft hafi verið samráð við Sógræktarfélag Reykjavíkur. Eftirlitsmaðurinn hélt að hann hefði átt að tala við Skógrækt ríkisins. Bæjarstjórinn sagði að farga hefði átt trjánum. Eftirlitsmaðurinn sagði að bærinn (les bæjarstjórinn) hefði viljað láta bjarga öllum trjám sem hægt væri og gróðursetja aftur á Heiðmörk. Þess vegna líklega nærtækast og skynsamlegast að flytja þau á vörubílum suður í Hafnarfjörð og geyma þau í verktakaporti, fremur en láta skógfræðingana sjá um þau á Heiðmörk. Hvað sagði ekki Jón á Bægisá: "Eitt rekur sig á annars horn, eins og graðpening hendir vorn!"

Ég bara spyr: Hvenær hætta þessir jarðýtudólgar að ljúga?


Skítugir skór í Kópavogi

Ég heyrði viðtal við Gunnar Birgisson í sjónvarpinu (var í bílnum). Gunnar lét ekki deigan síga. Manni skildist að þetta Heiðmerkurmál væri bara samsæri Reykvíkinga gegn þeim þarna fyrir sunnan læk. Og kæmi ekki á óvart. Hann er bæjarstjóri í Kópavogi og reyndar líka eigandi verktakafyritækisins sem fengið er til þess að ryðja niður hundruðum trjáa til þess að Kópavogsbúar þurfi ekki að kaupa vatn af þessum andskotum, Reykvíkingum. Ég held reyndar að  Orkuveitan ætti jafnvel að rukka Kópavog um hlutdeild í kostnaðinum við rannsóknir sem gera kleift að bora eftir vatni þarna. 

Svo má náttúrlega spyrja um hversu vel var gætt hagsmuna almennings í þessum samningum við Kópavog af hálfu borgaryfirvalda í Reykjavík. Í gildi er þjónustusamningur milli Skógræktarfélags Reykjavíkur og borgarinnar þar sem skýrt er kveðið á um eftirlit og umsjá félagsins á Heiðmörk. Eitthvað virðist hafa gleymst í því sambandi. En sorglegast er að sjá virðingarleysi verktakans - og Kópavogsbæjar - fyrir umhverfinu og því sjálfboðaliðsstarfi sem unnið hefur verið í þessum unaðsreit. Var einhver að tala um skítuga skó? 

 

 

 


mbl.is Skarð rofið í Þjóðhátíðarlundinn án vitneskju borgaryfirvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær verður Gunnar tekinn?

Sá þessa frétt í Mogga. Sjálfsagt hafa þessir delinkventar valdið milljónatjóni. Og vonandi verða þeir látnir borga. En er nokkuð búið að handtaka Gunnar Birgisson út af skemmdunum á Heiðmörk?

mbl.is Þrír í haldi grunaðir um skemmdarverk í Hafnarfirði í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kópavogur fremur skemmdarverk

Í fréttum undanfarna daga hefur verið frá því sagt að Kópavogsbær hafi hafið lagningu vatnsæðar á Heiðmörk án framkvæmdaleyfis. Þar heggur sá er hlífa skyldi. Það er verkefni sveitarfélaganna að verja hagsmuni íbúanna meðal annars með þeim hætti að framkvæmdir spilli ekki umhverfi og eignum borgaranna. Til þess eru framkvæmdaleyfi. Kópavogsbær hefur nú vaðið yfir skógræktarsvæðið á Heiðmörk og hundruð trjáa hafa verið slitin upp og þeim ekið til förgunar. Ekki veit ég hve mörg trén voru en kæmi ekki á óvart að þau hafi skipt nokkrum þúsundum. Þau hæstu eru meira en 30 ára gömul og hæðin tólf metrar. Ef gert er ráð fyrir 3000 trjám er óvarlegt að meta tjónið á minna en fimm þúsund krónur stykkið. Þetta eru fimmtán milljónir. Sú upphæð er vitaskuld hrein ágiskun en gefur hugmynd um tjónið sem menn valda með þjösnaskap af þessu tæi. Er þá ótalinn sá miski sem þeir verða fyrir sem stundað hafa ræktun þessa lands og lagt á sig ómælt erfiði til þess. Kópavogsbær skuldar þeim afsökunarbeiðni. Hvaða reikning þeir senda kjósendum sínum vegna eigin afglapa er annað mál.

Draga hertar refsingar úr glæpum?

Það er stundum undarlegt að fylgjast með samfélagsumræðunni á Íslandi. Nú um stundir er í tísku að krefjast hertra refsinga vegna ýmissa glæpa og taka margir undir þennan söng, líka þeir sem á liðnum árum hafa gjarnan kennt sig við mannúð og mildi. Það er rétt eins og þetta fólk, sem sumt kveðst vera frjálslynt og til vinstri, hafi gleymt öllum efasemdum um og gagnrýni á refsingar og refsivist. Margir hafa haldið því fram að þungar refsingar dragi ekki úr glæpum. Fælingaráhrif séu sem sagt ekki til staðar, eða lítið. Í því sambandi benda margir á Bandaríkin. Þar sitja nú sjö milljónir manna í fangelsum, margir eru dæmdir í ævilangt fangelsi eða jafnvel til dauða. Samt eru morð og ofbeldisglæpir óhugnanlega tíð. Mikið kapp er lagt á að refsa kynferðisglæpamönnum og reynt að hafa eftirlit með þeim. Ekki er að sjá að það hafi orðið til þess að draga úr þeim óhugnaði. Mörg dæmi eru um það að refsigleðin hefur bitnað á saklausu fólki.

Í okkar eigin sögu þekkjast dæmi um þungar refsingar vegna siðferðisbrota. Frægastur er vitaskuld stóridómur. Ekki geta menn með nokkru móti séð að hann hafi orðið til þess að bæta siðferði þjóðarinnar.

Nú keppist víðsýnt menntafólk við að heimta þyngri refsingar handa kynferðisbrotamönnum, öðrum ofbeldismönnum, já, og olíuforstjórum. Engin umræða er um það hvort þessar refsingar skili einhverjum árangri. Draga þær úr glæpum? Er skrýtið þótt læðist að manni sá grunur, að hér sé almenningur að heimta makleg málagjöld fyrir viðbjóðslega glæpi og kærir sig kollóttan um allt annað. Þeir sem vita betur en blása í þessar glæður eru annað hvort lýðskrumarar eða hafa annarlegan tilgang.


Heyrt en ekki hlustað

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra heldur því fram í pistli á heimasíðu sinni að við Guðmundur Ólafsson flytjum um hann óhróður á Útvarpi Sögu. Samt segist Björn ekki hlusta á stöðina. Hann hefur áður sent stöðinni tóninn jafnframt því að segja að hann hlusti ekki. Hann birtir blogg sitt hér á Moggablogginu en gefur ekki færi á athugasemdum. Því minnist ég á þetta hér. Hið rétta er að við Guðmundur létum uppi það rökstudda álit í þætti á föstudaginn að Björn ætti að segja af sér vegna klúðursins í Baugsmálinu. Það sjá allir skynsamir menn. Við höfum reyndar stundum hrósað Birni en í þessu máli eru engin efni til þess. Hitt þykir mér athyglisverð gáfa að geta dæmt efni fjölmiðils án þess að hafa hlustað. Það hlýtur að vera ómetanlegt fyrir dómsmálaráðherra að vera gæddur slíkri ófreskigáfu.

Atlaga að Hæstarétti

Á föstudaginn birtist stórslysafrétt um Hæstarétt á forsíðu Morgunblaðsins. Ástæðan er sögð sú að rétturinn, nánar tiltekið fimm dómarar hans hafi mildað dóm héraðsdóms yfir kynferðisbrotamanni. Afstaða blaðsins er greinileg í birtingu mynda af dómurunum. Sú kenning að  ástæður blaðsins fyrir myndbirtingunni sé hneykslan blaðsins á mildi dómsins fær ekki staðist. Í fyrsta lagi voru fleiri dómar kveðnir upp í skyldum málum í réttinum án þess að Mbl. geti þess og amk. einu tilviki var dómur héraðsdóms þyngdur. Í öðru lagi er þessi dómur ekki frábrugðinn öðrum í svipuðum málum og er reyndar þyngri, miðað við málsatvik, en lengi áður tíðkaðist. Í þriðja lagi hafa tveir af dómurum Hæstaréttar, aðrir en þessir fimm, skilað sératkvæðum í kynferðisbrotamálum og viljað draga úr þyngd dóma eða sýkna, vegna kröfu um sönnun. Morgunblaðið hefur ekki greint frá þessu, amk. ekki með neinum sambærilegum hætti og nú er gert við hina fimm. Þess skal sérstaklega getið, að ef sönnunarkrafa þeirra Ólafs Barkar Þorvaldssonar og Jóns Steinars Gunnlaugssonar nyti meirihlutafylgis í Hæstarétti mætti búast við sýknu í allt að 90% kynferðisbrotamála. Því er einstaklega athyglisvert að Morgunblaðið hafi ekki séð ástæðu til þess að fjalla um þetta.

Þá vekur það sérstaka athygli að þessir fimm dómarar sem Morgunblaðið birtir mynd af á forsíðu eru hinir sömu og höfnuðu lögbanni á Fréttablaðið í tölvupóstsmáli Jónínu Benediktsdóttur og hafa sömuleiðis allir átt þátt í dómum réttarins í Baugsmálinu.

Ósamkvæmni Morgunblaðsins í afstöðu blaðsins til kynferðisbrotadóma Hæstaréttar og tengsl ritsjórans við Baugsmálið hljóta að vekja grunsemdir um að þessi fréttaflutningur byggist á öðru en málefnalegri afstöðu.

Enn er því við að bæta, að tveir þessara dómara hafa notið þess vafasama heiðurs að hafa hlotið umfjöllun og mynd af sér í Staksteinum en það er nafnlaus dálkur sem ritstjóri Morgunblaðsins notar gjarnan til þess að skjóta örvum að andstæðingum sínum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband