Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Pólitíkusar lofa

Hver vill ekki fleiri ostasöfn?

    Alltaf finnst mér skemmtilegt að fylgjast með póltík þegar fer að nálgast kosningar. Þá fyllast blöðin af stjórnmálamönnum "sem leggja áherslu á þennan málaflokk".  En stundum verður nú lítið úr efndum. Nú eru allir flokkar sérstakir velvildarmenn aldraðra. Rétt eins og neyðarástandið sé nýtilkomið.  En svo er líka til önnur tegund af pólitík, fyrirgreiðslupólitíkin. Hún er alls ekki bundin við Ísland. Í Bandaríkjunum er fjárveiting til framkvæmdar í einu kjördæmi kölluð "tunna af svínakjöti" eða jafnvel bara svínakjöt. Í New York Times í gær var sagt frá ostasafninu í Rome í New york en fjárveiting til þess vakti miklar deilur fyrir uþb. tuttugu árum. Einn af þeim sem hafa gagnrýnt þessa úthlutun almannafjár var Pataki, núverandi ríkisstjóri. The New York Times sagði einmitt frá því í gær að í fjárlagapakka hans væri liður upp á 5000 dollara til annars ostasafns, í borginni Cuba. Blaðamenn skemmta sér yfir þessu og tala um sukk stjórnmálamanna. Í greininni eru líka rifjuð upp frægustu skrúfboltakaup sögunnar, þegar varnarmálaráðuneytið í tíð Reagans forseta keypti skrúfbolta á 17 dollara og 59 sent stykkið.

Íslenskir pólitíkusar gefa kjöt af rausn

    Íslendinga skortir ekki kjötgjafapólitíkusa. Þeir láta byggja brýr og flugstöðvar og svo eru þeir líka að tala um að flytja ríkisstofnanir. Nú á að flytja ýmsar rannsóknarstofnanir til Sauðárkróks. Hefur einhver leitt hugann að því hverjir sækja þjónustu þessara stofnana og hvernig þeim hugnast að þurfa að fara eftir henni norður á Sauðárkrók? Fjölmiðlar birta hver viðtalið eftir annað við ráðherrann sem ætlar að gefa þessa kjöttunnu á Sauðárkrók og þingmanninn sem er andvígur þessu vegna þess að hann vill leggja ríkisstofnanir niður en ekki flytja þær milli landshluta en við fáum ósköp lítið að heyra um hvað þær gera þessar stofnanir sem nú á að steypa í eina.

Álið hækkar - Landsvirkjun græðir

    Enn berast fregnir af því að ál fari hækkandi á heimsmarkaði. Í gær var tonnið komið um eða yfir 2500 dollara. Þetta hlýtur að valda stórauknum tekjum Landsvirkjunar. Ég hef ekkert séð um þetta í íslenskum fjölmiðlum. Hvernig stendur á því?


Frábær synfónía

Við hjónakornin fórum á synfóníutónleika á fimmtudagskvöldið. Þetta var frábær skemmtun, bæði hljómsveitin og kórinn voru stórkostleg og sérstaklega skemmtilegt að fá að heyra í hljómsveitinni undir stjórn Petri Sakari. Hann á að mínu mati stóran þátt í því hversu góð sveitin er orðin. Hið eina sem mér fannst aðfinnsluvert, og kann það að skrifast á þetta hörmulega hús, var styrkur einsöngvaranna, sérstaklega tenórsins. Það er sannarlega tími til kominn að þessi frábæra hljómsveit fái tónleikasal við hæfi.

    En þá að öðru. Nú er komið upp úr dúrnum, að Bush forseti stýrði því þegar Lewis Libby starfsmannastjóri Cheneys varaforseta kom til fjölmiðla upplýsingum úr leynilegum gögnum. Þetta er svo sem ekkert nýmæli. Flestir forsetar hafa stundað þetta frá öndverðu, til þess að koma höggi á andstæðinga sína. En yfirleitt hefur það ekki komið í ljós fyrr en við rannsóknir sagnfræðinga, löngu, löngu seinna. Þessi uppljóstrun nú er sérlega óheppileg fyrir þennan forseta því hann hefur barið sér á brjóst og sagst munu ráðast gegn leka í stjórnkerfinu. Þannig hafa frásagnir Washington Post um fangaflutningana og The New York Times um hleranir innanlands leitt til lögreglurannsókna. Má taka undir með séra Hallgrími: Þetta sem helst hann varast vann ...osfrv. Þetta mál mun enn leiða til álitshnekkis fyrir Bush. Var þó ekki á það bætandi. Reyndar held ég að engum forseta Bandaríkjanna hafi tekist jafn vel að grafa undan áliti landsins í útlöndum. Bandaríkin áttu fágætt tækifæri í lok síðustu aldar til þess að ná forystu í veröldinni. Forystumenn þeirra klúðruðu því gjörsamlega. Jafnvel meðal gamalla vina í Evrópu er lítils stuðnings að vænta. Það er kannski helst á Íslandi þar sem sumir vilja sleikja höndina sem slær þá. 

    Og þá að minni fyrri stöð. Ömurlegt er að heyra þegar ambögur eru endurteknar æ ofan í æ, kannski allan daginn. Á dögunum var sagt í fréttum NFS  að, "lög hefðu verið sett um vinnulöggjöf í Frakklandi". Ekki veit ég hversu oft þetta var tuggið. Sama daginn var talað um bandaríska njósnarann Palme. Þar var átt við Plame. En þetta er kannski afleiðing af því að tyggja sífellt sömu fréttirnar. Þá er tönnlast á þvælunni líka. Svo er það vitaskuld gömul staðreynd að það er ekki hægt að þeyta rjóma úr undanrennu.


Er vorið komið?

    Loksins hlýnaði. Það er þó víst bara í bili og hitinn reyndar rétt skriðinn yfir frostmarkið. Samt fyllist maður alltaf bjartsýni þegar fer að rigna á vorin og maður bíður í óþreyju eftir að farfuglarnir flykkist inn. Það er alltaf eins og kraftaverk. Einhver yndislegasta minning sem ég á er einmitt úr súldarveðri að vorlagi í Þingvallasveit. Þúsundir hrossagauka hneggjuðu í öllum áttum. Og þótt ég hafi aldrei heyrt synfóníu á borð við þessa síðan eru tilbrigði við þetta kraftaverk endurtekin á hverju ári.

    Við vitum af þeim blessuðum, hinum fjöðruðu ferðalöngum, þar sem þeir bíða á meginlandinu eftir stríðum sunnanvindi sem getur leitt þá til okkar. Og vonandi að engin fuglaflensa verði til þess að skemma þetta fyrir okkur. Ef við leggjum eyrun við kraftbirtingarhljómi guðdómsins, sem okkur er boðið að hlusta á - alveg ókeypis - á hverju ári, verða hversdagsleg stundarfyrirbrigði eins og pólitík og staðan á verðbréfamarkaðnum eins og hvert annað hjóm. Leggið við eyrun. Hlustið á fuglana. Þeir hafa sígild sannindi að segja.


Herinn

Einu sinni var mér sögð saga um mann sem kom á skrifstofu einkaleyfaskráninga og vildi fá einkaleyfi á nýrri gerð af músagildru.
"Hvernig er hún?" spurði skrásetjari.
"Hún er þannig, að maður strekkir stálvír fyrir músarholuna og setur ost öðrum megin og pylsu hinum megin. Músin kemur í gatið og lítur til hliðar og sér ost og svo til hinnar hliðarinnar og sér pylsu. En af því mýs eiga erfitt með að gera upp hug sinn, heldur hún áfram að líta til beggja hliða, ostur pylsa, ostur pylsa, og sagar af sér hausinn.
"Þetta getur ekki gengið," segir skrásetjari, " í gildrunum sem nú eru notaðar þarf bara ost eða pylsu, ekki hvort tveggja. Þú færð ekki skráð einkaleyfi á þetta."

    Uppfinningamaðurinn hvarf á braut vonsvikinn en birtist daginn eftir afar borubrattur."Ég er búinn að endurbæta gildruna. Nú þarf ekkert agn í gildruna. Músin kemur út í gatið, lítur til hliðanna og segir: "Enginn ostur, engin pylsa og hún er svo hissa á þessu að hún heldur því áfarm þangað til hún er búinn að saga af sér hausinn."

    Mér datt þessi saga í hug þegar ég heyrði talsmann bandarísku ríkisstjórnarinnar segja að varnarsamningurinn frá 1951 væri í fullu gildi þótt herinn færi. Bandaríkjamenn eru hér í líki uppfinningamannsins. Varnir Íslands eru alveg eins. Bara enginn her. Samningurinnn frá 1951 er um herinn. Um veru hans hér. Og ekkert annað. Ef annar samningsaðilanna kallar herinn heim jafngildir það uppsögn samningsins. Um það ætti ekki að þurfa að deila. Það er athyglisvert að Bandaríkjamenn kjósa að gera þetta með þessum hætti. Það er ekki trúverðugt að þetta hafi ekki legið fyrir, þegar Geir H. Haarde ræddi við Rice utanríkisráðherra fyrir fáum vikum. Bandaríkjamenn kusu einfaldlega að segja honum ekki frá því.

    Þetta er ekki jafn eindreginn dónaskapur og Lyndon Johnson sýndi Bjarna Benediktssyni þegar hann labbaði með honum um garð Hvíta hússins ásamt hundunum His og Her en þetta er alvarlegri ruddaháttur, því hann snertir grundvallaratriði í samskiptum þjóðanna. Þar er til að taka að Bandaríkjamenn hafa með þessari ákvörðun og framkomu við íslenska ráðamenn sannað röksemdafærslu íslenskra herstöðvaandstæðinga: Að herinn væri hér vegna þarfa Bandaríkjamanna og einungis vegna þeirra.Nú hljóta menn að spyrja: Hvað nú? Því er til að svara að þótt Rumsfeld og ráðgjafar hans telji svo vera þá er það ekki þannig. Bandaríkjamenn verða til dæmis að hreinsa upp eftir sig. Ekki bara á Keflavíkurflugvelli heldur alls staðar þar sem þeir hafa verið og hreinsun er ekki lokið. Á Miðnesheiði er t.a.m. allt grunnvatn mengað af tríklóretýlen og tetraklóretýlen, krabbameinsvaldandi eiturefnum sem herinn notaði til þvotta á vélahlutum. Frárennsli hersins var um árabil í ólestri og ýmis önnur efni kunna að hafa farið í jörð. Út um allar grundir eru ruslahaugar, þar sem allt fór óflokkað í jörð, þar á meðal mikið magn ýmissa efna sem nú eru flokkuð sem eiturefni. Á mörgum þessara hauga var rusli brennt og bruninn fór fram við lágan hita. Afleiðingar þess eru alkunnar um allan heim. Sprengiefni og sprengjur finnast víða.

    Nú kunna sumir að segja: Hvað um öll mannvirkin sem herinn skilur eftir? Eru þetta ekki verðmæti? Í dálkum þess sem fer er það ekki svo. Íslenska ríkið segir einfaldlega við Bandaríkjamenn: Þið skuluð bara taka þetta dót með ykkur. Og skila landinu eins og það var. Nei samningsstaðan er góð gagnvart Bandaríska hernum. Keimlík mál hafa komið upp innanlands í Bandaríkjunum og þar hefur þeim sem ábyrgð bera á mengun í jörð verið gert skylt að hreinsa upp eftir sig. Versta niðurstaðan er sú að Bandaríkjamenn verði hér áfram með nokkra menn og haldi aðstöðu fyrir herinn á vellinum "ef á þyrfti að halda". Þá gætu þeir nefnilega skilið allt eftir ófrágengiðOg þá er bara að vona að Ísland eigi samningamenn sem geti gert viðsemjendum okkar ljóst frammi fyrir hverju þeir standa.


« Fyrri síða

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband