Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bush og aðrir hættulegir menn

    Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur farið þess á leit við Bandaríkin að þau loki fangabúðum sínum við Guantanamoflóa á Kúbu og öðrum fangelsum þar sem þeir halda fólki föngnu án dóms og laga. Þá fór nefndin þess á leit við Bandaríkin að þau hættu pyntingum og ígildi þeirra. Þess er vert að geta að Bandaríkjaþing, þar sem repúblikanar eru í meirihluta, sá ástæðu til þess fyrir skemmstu að setja sérstök lög sem banna Bandaríkjamönnum að pynta fanga. Líklega hefðu þeir ekki sett þessi lög ef ástæðulaust væri að óttast um fangana. Stjórnvöld segja á hinn bóginn að fangarnir séu hættulegir menn.

    Sjálfsagt eru einhverjir af þeim sem gripnir hafa verið hinir örgustu glæpamenn. Og þá ber að ákæra. Hið snarasta. En að halda fólki á fimmta ár án ákæru er auðvitað glæpur í sjálfu sér. Og nú er líka komið fram í fréttum að það er ekki einu sinni hægt að yfirheyra alla. Vegna skorts á túlkum! Eigum við að trúa því að sumir af þessum hættulegu mönnum séu svo stórkostlega hættulegir að það sé ekki einu sinni hægt að finna túlka til þess að yfirheyra þá. Í fimm ár. Hvernig mundu menn taka því á Vesturlöndum ef t.a.m. manni sem grunaður væri um morð væri haldið án ákæru og hugsanlega án yfirheyrslna í fjögur til fimm ár?

    Bandaríkin hafa nánast fram að þessu verið í fylkingarbrjósti frelsisunnandi manna í veröldinni. En síðustu árin hafa verið einstrengingslegir peningamenn og vopnasalar verið þar við völd sem trúa á mátt valdsins. Vonandi lýkur þessari löngu nótt í  Bandaríkjunum fljótlega. Þess óska allir sannir velunnarar þessarar ágætu þjóðar.

 


mbl.is Bandaríkin segja meðferð á föngum í Guantanamo vera skv. bandarískum lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mega Bandaríkjamenn pynta fanga?

Eins og fram kemur í fréttinni er þetta í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn svara spurningum þessarar nefndar eftir að Bush hóf hið svokallaða stríð gegn hryðjuverkum. Margir hafa haldið því fram að mjög hafi sigið á ógæfuhlið í mannréttindamálum vestra eftir það.

Eitt af því sem mannréttindasamtök halda fram er það að Bandaríkjamenn beiti fanga vatnspyntingum og neiti að fallast á að skilgreina þær sem pyntingar. Alkunna er að þeir halda hundruðum manna án dóms og laga í búðum sínum í Guantanamo á Kúbu og haga einfaldlega skýringum sínum á því eins og þeim hentar, þannig að fangarnir eru hvorki stríðsfangar í skilgreiningu Genfarsáttmálans, né falla þeir undir bandarísk lög. Því er hægt að halda þeim, án ákæru árum saman, utan laga og réttar. Síðustu yfirlysingar bandarískra stjórnvalda eru sérstaklega hræsnisfullar, því þeir segjast ekki vilja sleppa föngum af ótta við að þeir muni sæta illri meðferð heima hjá sér!

Þá hefur komið fram að Bandaríkjamenn hafa handtekið menn og flutt milli landa, og þeir endað í fangelsum landa þar sem pyntingar eru stundaðar. Staðfest dæmi eru um þetta en grunur leikur á að hundruð manna hafi verið flutt milli landa með þessum hætti.

Þá hafa bandarískir ráðamenn hvað eftir annað samið álitsgerðir og leiðbeiningar um það hversu nærri föngum megi ganga í yfirheyrslum og hvaða alþjóðasamþykktir eigi við.  Spurningar hljóta að vakna um tilgang þessara álita og skýrslna.

Mannréttindasamtök segjast hafa upplýsingar  um uþb. 600 tilvik þar sem bandarískir hermenn hafi beitt fanga ólöglegu harðræði. Einungis á sjötta tug hafa komið fyrir dómstóla og miklu færri hermenn hafa verið dæmdir.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í Genf. 


mbl.is Bandaríkjamenn yfirheyrðir um pyntingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæm hugmynd

Ekki finnst mér það góð hugmynd að flytja Árbæjarsafn út í Viðey. Safnið tengist útivistarsvæðinu í Elliðaárdal afar vel þar sem það er og safni Orkuveitunnar, bæði virkjuninni sem er einstök gersemi og safninu sjálfu. Ég tel að þótt nauðsynlegt sé að reyna að hressa upp á Viðey geti það aldrei orðið liður í því að rífa niður það sem byggt hefur verið upp í Árbæ í meira en 40 ár. 
mbl.is Árbæjarsafn út í Viðey?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gegn betri vitund

Satt að segja er hlálegt að lesa yfirlýsingar bandarískra ráðamanna þessa dagana. Komið er á daginn, að upplýsingar um gereyðingarvopn Íraka voru í besta falli ýktar í versta falli uppspuni og ráðamönnum var gert viðvart um staðreyndir málsins. Þeir mistúlkuðu líka viljandi upplýsingar sem fengust eftir að innrásinni lauk. Og þeir segja að friðsamlegar horfi í Írak þótt árásum og hermdarverkum hafi fjölgað um helming. Nú setur Bush traust sitt á að takist að mynda starfhæfa stjórn í landinu en marga mánuði hefur tekist að ná saman um forsætisráðherra. Vonandi tekst að koma á lýðræði í landinu en láir mönnum einhver þótt þeir séu svartsýnir?

Jafnframt stefnir Bush fjárhag landsins í voða vegna hernaðarútgjaldanna og aldrei hafa Bandaríkjamenn verið jafn óvinsælir í heiminum, ekki einu sinni þegar kalda stríðið var í algleymingi. Enn  hafa þeir íslenskir stjórnmálamenn sem öttu Íslendingum út í þetta forað ekki þurft að gjalda óþurftarverka sinna. En að því hlýtur að koma.

Þeirri spurningu hefur heldur ekki verið svarað afdráttarlaust: Hvers vegna í ósköpunum önuðu Bandaríkjamenn út í þetta dý? 


mbl.is Bush segir að Bandaríkin hafi tekið stór skref í sigurátt í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóðar á ferð

    Sá í grein í NYT í morgun um að aftur er farið að krota í jarðlestina í New York. Þegar ég kom fyrst til borgarinnar sá maður hvergi út um glugga á vögnunum fyrir kroti. Eftir árangursríka herferð stjórnvalda hvarf þetta nær algjörlega og hélst reyndar í hendur við stórkostlega fækkun glæpa. Nú hefur um alllangt árabil verið óhætt að fara með jarðlestinni á kvöldin og jafnvel á endastöð. Þegar ástandið var verst fór fólk helst ekki í lestina eftir kvöldmat. Þá hefur líka lítið borið á kroti, þar til nú. Sóðarnir, því sóðaskapur er þetta og á ekkert skylt við list, hafa tekið í notkun nýtt efni, sýru sem blönduð er lit og tærir rúðurnar. Talið er að það geti kostað stórfé að bregðst við þessu.

   Þetta leiðir hugann að íslenskum sóðum, sem krota allt út. Mér hefur lengi fundist þetta hvimleitt. Meðal annars vegna þess að yfirleitt er um að ræða meiningarlaust, áráttubundið krot sem veldur spjöllum á umhverfi okkar. Langoftast hefur það ekkert listrænt gildi og segir manni ekkert nema að krotarinn eigi við vandamál að stríða: Áráttubundinn sóðaskap sem beinist að samborgurunum.


Schlesinger gagnrýnir Bush

Var að lesa frábæra kjallaragrein í Washington Post, þar sem Arthur Schlesinger, hinn gamli samstarfsmaður Kennedys, sendir Bush forseta kalda kveðju. Án þess að ég fari að endursegja þessa góðu grein bendir hann á að ef forsetar Bandaríkjanna hefðu haft sömu kenningu og Bush, að leiðarljósi, um hernað til fyrirbyggingar árás, hefði orðið kjarnorkustríð. Ég bendi fólki á að lesa þessa grein. Þótt höfundurinn sé gamall demókrati og viðhorf hans mótuð af því, er margt sem bendir til þess að farið sé að fjara undan Bush og stríðsglöðum lagsmönnum hans. Kannski er að vora í fleiri en einum skilningi. Ég sá í dag að túnfífillinn er farinn að blómstra.

Sundabraut enn

Heyrði í fréttum á NFS að ekki væri hægt að hefja verkhönnun á Sundabraut fyrr en búið væri að ákveða hvar hún ætti að vera. Jamm. Þetta eru nú að mínu viti ekki fréttir. Það er á hinn bóginn frétt að ekki skuli enn búið að ná samkomulagi um staðinn fyrir hana. Sem helgast af því að ríkið viðurkennir ekki í reynd skipulagsvald sveitarfélagsins Reykjavíkur og reynir ævinlega að þvinga sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu til þess að velja ódýrasta kostinn þegar til skamms tíma er litið. Mér finnst á hinn bóginn fáfengilegt að heyra pólitíkusa nota þetta mál til þess að koma höggi hver á annan. Þeim væri nær að standa saman og tryggja hagsmuni okkar kjósendanna gagnvart fjandsamlegu ríkisvaldi.

Það er löngu orðið tímabært að stjórnmálamenn hætti að fórna hagsmunum þorra þjóðarinnar til þess að kaupa sér atkvæði í strjálbýlum kjördæmum sínum. Samgönguráðherrar sem reyna að þóknast kjósendum sínum með milljarðaframkvæmdum, hvort sem það eru jarðgöng eða brýr, ættu að borga þetta sjálfir. Svo hælast þeir um þegar þeir eru komnir á margföld eftirlaun almúgamanna.

Hvað er hægt að kalla svona framferði? 


Þjófur í Paradís

Var í Þingvallasveit í nótt. Vaknaði rétt eftir að sumar og vetur frusu saman. Þvílík dýrð, þvílík dásemd. Vatnið spegilslétt og gufan úr Henglinum steig lóðrétt til himins Alfreð til dýrðar. Sandey og Nesjaey spegluðust í logninu og bergmálið úr Arnarfellinu magnaði kallhljóð svananna. Uppi í móanum söng lóan dirrindí, þröstur á grein, hrossagaukur kallaði, rjúpukarri ropaði, skjannahvítur uppi á hól.

Þetta var reyndar fyrir allar aldir. Þegar leið að fótaferð dundi vélarskröltið á okkur. Forstjóri byggingafyrirtækis keypti sér sumarbústað þarna í fyrra fyrir tuttugu milljónir, lét rífa hann og komst í fréttirnar fyrir það að hafa orðið að nota þyrlu við að koma steypu í nýja bústaðinn. Og nú voru semsagt verkamenn að vinna þarna, með tvær vinnuvélar, sumardaginn fyrsta, besta dag ársins til þessa, daginn sem farfuglarnir komu í þessa sveit allra sveita.

Sá sem stendur fyrir þessum ófriði er líklega kominn á þennan stað til þess að njóta friðar. Svo á eftir að koma sér fyrir, byggja bátaskýli og setja á flot hraðbátinn, því maður nýtur ekki kyrrðarinnar nema hafa eins og tvö hundruð hestöfl til ráðstöfunar.

Þetta er í elsta þjóðgarði Íslendinga. Hann er nýlega kominn á heimsminjaskrá UNESCO. Þess vegna þykir einna mest áríðandi að fella barrtré.


Með allt á hælunum

    Enn er verið að tala um eftirlaun stjórnmálamanna. Eins og kunnugt er eiga stjórnmálamenn fyrst og fremst að hlýða samvisku sinni. Þeir eru ekki bundnir af öðru. En ekki eru ákvæði í stjórnarskrá um það að samviska pólitíkusa skuli ekki vera úr gúmmíi. Nú hefur semsagt komið í ljós enn einu sinni, að þetta dásamlega teygjanlega efni hefur verið brúkað í innviði þeirra sem við höfum valið okkur til forystu. Og svo er líka eins og þetta undursamlega efni, gúmmíið, sé jafnvel enn teygjanlegra þegar því hefur verið komið fyrir innan í pólitíkusi en það er endranær. Og er þó eitt af furðuverkum hvers dags. 

    Þeir gátu ekki vatni haldið þegar kjaradómur fór eftir því sem þeir höfðu sjálfir sett honum fyrir og dæmdi æðstu mönnum ríkisins kauphækkanir í samræmi við það. Þeir settu dómstólinn af og námu úrskurðinn úr gildi.

    Þeim kom gjörsamlega á óvart hvað þeirra eigin breytingar á eftirlaunum þeirra sjálfra kostuðu.

    Þeir höfðu dómarana með í pakkanum á sínum tíma. Hugsanleg skýring  á þeirri ráðstöfun er að erfiðara er að hnekkja þessari ráðstöfun í gegnum dómskerfið.

    Þeir koma sér upp kerfi, fyrir sig, þar sem fólk öðlast eftirlaunarétt á margfalt styttri tíma en allir aðrir og eftirlaunin eru ekki í neinum tengslum við iðgjöldin. Á sama tíma beita þeir sér fyrir því að aðrir ríkisstarfsmenn fái eftirlaun í samræmi við greidd iðgjöld í sjóðinn.

    Þeir koma því svo fyrir, að menn geta fengið eftirlaun, þótt þeir séu áfram í fullu starfi fyrir sama atvinnurekanda, ríkið.

    Eru engin takmörk á teygjanleikanum? Er þá enginn endir á vanitatis?

    En það sem er kannski merkilegast: Við kjósum þetta fólk aftur og aftur.  


Gjafir eru yður gefnar

    Mikið ljómandi er nú að búa við slíka rausn sem kjörnir fulltrúar okkar búa okkur. Að ekki sé nú minnst á stefnufestuna og skilyrðislausa hollustu við allt sem heiðarlegt er og gott. Og þessa einlægu og inngrónu sannleiksást. Eða það skyldi maður ætla. Hér á ég auðvitað við eftirlaun stjórnmálamannanna sjálfra. Þeir eru hjartanlega sammála þeim sem bent hafa á að óeðlilegt sé að pólitíkusar skuli - einir allra í samfélaginu - geta notið fullra eftirlauna, þótt þeir séu í starfi hjá sama atvinnurekenda. Þeir taka líka heilshugar undir það að óeðlilegt sé að pólitíkusar geti safnað margföldum eftirlaunarétti hjá sama vinnuveitanda og það án þess að hafa nokkru sinni greitt þetta sjálfir. Þeir eru innilega sammála því að þetta sé ótækt. Þeir hafa líka hver um annan þveran býsnast yfir því að þetta skuli hafa verið samþykkt án þess að gerð hafi verið grein fyrir kostnaðinum. Þeim finnst það fullkomlega óviðunandi að útgjöldin við þetta hafi reynst tífalt hærri en talað var um.

    Þeir hafa hvað eftir skorið niður ofrausn í ölmusu ríkisstarfsmanna. Jafnvel með reglugerð. Þeir sfnámu lög um kjaradóm.... og reyndar síðasta úrskurð hans, sem þó var settur eftir lögum sem þeir höfðu búið til sjálfir.

    Guði sé lof að við eigum svona sannorða, óeigingjarna, heiðarlega, sanngjarna og vitra stjórnmálamenn. Hvernig færi annars fyrir okkur?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband