Frábær synfónía

Við hjónakornin fórum á synfóníutónleika á fimmtudagskvöldið. Þetta var frábær skemmtun, bæði hljómsveitin og kórinn voru stórkostleg og sérstaklega skemmtilegt að fá að heyra í hljómsveitinni undir stjórn Petri Sakari. Hann á að mínu mati stóran þátt í því hversu góð sveitin er orðin. Hið eina sem mér fannst aðfinnsluvert, og kann það að skrifast á þetta hörmulega hús, var styrkur einsöngvaranna, sérstaklega tenórsins. Það er sannarlega tími til kominn að þessi frábæra hljómsveit fái tónleikasal við hæfi.

    En þá að öðru. Nú er komið upp úr dúrnum, að Bush forseti stýrði því þegar Lewis Libby starfsmannastjóri Cheneys varaforseta kom til fjölmiðla upplýsingum úr leynilegum gögnum. Þetta er svo sem ekkert nýmæli. Flestir forsetar hafa stundað þetta frá öndverðu, til þess að koma höggi á andstæðinga sína. En yfirleitt hefur það ekki komið í ljós fyrr en við rannsóknir sagnfræðinga, löngu, löngu seinna. Þessi uppljóstrun nú er sérlega óheppileg fyrir þennan forseta því hann hefur barið sér á brjóst og sagst munu ráðast gegn leka í stjórnkerfinu. Þannig hafa frásagnir Washington Post um fangaflutningana og The New York Times um hleranir innanlands leitt til lögreglurannsókna. Má taka undir með séra Hallgrími: Þetta sem helst hann varast vann ...osfrv. Þetta mál mun enn leiða til álitshnekkis fyrir Bush. Var þó ekki á það bætandi. Reyndar held ég að engum forseta Bandaríkjanna hafi tekist jafn vel að grafa undan áliti landsins í útlöndum. Bandaríkin áttu fágætt tækifæri í lok síðustu aldar til þess að ná forystu í veröldinni. Forystumenn þeirra klúðruðu því gjörsamlega. Jafnvel meðal gamalla vina í Evrópu er lítils stuðnings að vænta. Það er kannski helst á Íslandi þar sem sumir vilja sleikja höndina sem slær þá. 

    Og þá að minni fyrri stöð. Ömurlegt er að heyra þegar ambögur eru endurteknar æ ofan í æ, kannski allan daginn. Á dögunum var sagt í fréttum NFS  að, "lög hefðu verið sett um vinnulöggjöf í Frakklandi". Ekki veit ég hversu oft þetta var tuggið. Sama daginn var talað um bandaríska njósnarann Palme. Þar var átt við Plame. En þetta er kannski afleiðing af því að tyggja sífellt sömu fréttirnar. Þá er tönnlast á þvælunni líka. Svo er það vitaskuld gömul staðreynd að það er ekki hægt að þeyta rjóma úr undanrennu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband