Pólitíkusar lofa

Hver vill ekki fleiri ostasöfn?

    Alltaf finnst mér skemmtilegt að fylgjast með póltík þegar fer að nálgast kosningar. Þá fyllast blöðin af stjórnmálamönnum "sem leggja áherslu á þennan málaflokk".  En stundum verður nú lítið úr efndum. Nú eru allir flokkar sérstakir velvildarmenn aldraðra. Rétt eins og neyðarástandið sé nýtilkomið.  En svo er líka til önnur tegund af pólitík, fyrirgreiðslupólitíkin. Hún er alls ekki bundin við Ísland. Í Bandaríkjunum er fjárveiting til framkvæmdar í einu kjördæmi kölluð "tunna af svínakjöti" eða jafnvel bara svínakjöt. Í New York Times í gær var sagt frá ostasafninu í Rome í New york en fjárveiting til þess vakti miklar deilur fyrir uþb. tuttugu árum. Einn af þeim sem hafa gagnrýnt þessa úthlutun almannafjár var Pataki, núverandi ríkisstjóri. The New York Times sagði einmitt frá því í gær að í fjárlagapakka hans væri liður upp á 5000 dollara til annars ostasafns, í borginni Cuba. Blaðamenn skemmta sér yfir þessu og tala um sukk stjórnmálamanna. Í greininni eru líka rifjuð upp frægustu skrúfboltakaup sögunnar, þegar varnarmálaráðuneytið í tíð Reagans forseta keypti skrúfbolta á 17 dollara og 59 sent stykkið.

Íslenskir pólitíkusar gefa kjöt af rausn

    Íslendinga skortir ekki kjötgjafapólitíkusa. Þeir láta byggja brýr og flugstöðvar og svo eru þeir líka að tala um að flytja ríkisstofnanir. Nú á að flytja ýmsar rannsóknarstofnanir til Sauðárkróks. Hefur einhver leitt hugann að því hverjir sækja þjónustu þessara stofnana og hvernig þeim hugnast að þurfa að fara eftir henni norður á Sauðárkrók? Fjölmiðlar birta hver viðtalið eftir annað við ráðherrann sem ætlar að gefa þessa kjöttunnu á Sauðárkrók og þingmanninn sem er andvígur þessu vegna þess að hann vill leggja ríkisstofnanir niður en ekki flytja þær milli landshluta en við fáum ósköp lítið að heyra um hvað þær gera þessar stofnanir sem nú á að steypa í eina.

Álið hækkar - Landsvirkjun græðir

    Enn berast fregnir af því að ál fari hækkandi á heimsmarkaði. Í gær var tonnið komið um eða yfir 2500 dollara. Þetta hlýtur að valda stórauknum tekjum Landsvirkjunar. Ég hef ekkert séð um þetta í íslenskum fjölmiðlum. Hvernig stendur á því?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Ja, varðandi álið þá hef ég aldrei skilið afhverju ekki er meira reynt að fá til landsins einhverja framleiðslu úr áli, eða einhver skref tekin til að ýta undir stofnun fyrirtækja sem geta unnið úr öllu þessu áli. Það gefur auga leið að slík framleiðsla gæti vel farið fram hér og borgað sig, hægt er að framleiða marga íhluti í bíla t.d. úr áli, og þessir hlutir eru framleiddir víða um heim og oft sendir langar vegalengdir til verksmiðjanna.

Þá myndi álið a.m.k. skilja eftir sig meira en 25.000 krónur í landinu fyrir hvert tonn sem er unnið hér, svo mikið er víst.

Steinn E. Sigurðarson, 11.4.2006 kl. 13:57

2 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Ég gæti trúað, að það þætti ekki góð hagfræði að byggja verksmiðju sem byggi við stöðugt hækkandi hráefnisverð. Spár eru um að áltonnið fari allt upp í 3700 $ á árinu. Þá er vinnuafl dýrt á Íslandi, miðað við þau lönd þar sem mestur vöxtur er í framleiðslu. Spurn eftir áli er mest í Kína og Indlandi, enda er það líka þar sem mest verður byggt af bílum næstu árin og áratugina. En það er auðvitað hægt að smíða eitthvað úr áli fyrir þá markaði sem næst okkur liggja. Ef einhver sér hagnaðarvon í því!

Sigurður G. Tómasson, 11.4.2006 kl. 14:16

3 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Miðað við að 90% af álinu úr straumsvík fer beint í bílaiðnaðinn í Þýskalandi þá ætti ekki að vera mikið mál að vinna það aðeins meira hér áður en það er sent þangað, aðal kostnaður við vinnslu áls er yfirleitt upphaflegur vélakostnaður og svo rafmagn, en oft þarf að hita/bræða álið. Ef ódýrt rafmagn er nógu góð ástæða fyrir vinnslu áls yfir höfuð hér á landi þá hlýtur að borga sig að framleiða dýra hluti úr því, eins og t.d. álfelgur. Ef það er hægt að framleiða þrykktar álfelgur í Japan og selja á $1000 stykkið á bandaríkjamarkaði, þá hlýtur eitthvað svipað að vera hægt hér, þar sem rafmagn er mun ódýrara, og varla er vinnuafl mikið ódýrara í Japan en hér?

Steinn E. Sigurðarson, 11.4.2006 kl. 15:23

4 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Ja ekki er ódýrara að vinna úr áli í Þýskalandi. Fyrir mannsaldri, þegar byrjað var að bræða ál í Straumsvík var mikið talað um þetta. Enn hefur enginn reynt þetta, nema hvað menn bjuggu til steikarpönnur úr áli. Ég held að sú framleiðsla sé fyrir bí. Markaðurinn hlýtur að ráða þessu. Ef það er hægt að græða á því gerir það einhver!

Sigurður G. Tómasson, 11.4.2006 kl. 16:14

5 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Enginn veit enn hvort álverið í Straumsvík verður stækkað. Því veldur helst, að eigendur þess, Alcan, hefur ekki ákveðið hvort það vilji það og því hvorki sótt um stækkun. Formleg ákvörðun eigendanna liggur ekki fyrir. En um álglýjuna sem er í augum margra ráðamanna er þetta að segja: Ekki er heppilegt að efnhagur okkar og sérstaklega Landsvirkjunar sé næstum eingöngu tengdur álverði. Það er heldur ekki sjálfgefið að við þurfum neitt að haska okkur í þessum efnum. Hækkandi olíuverð leiðir til þess að við þurfum ekki að bjóða rafmagn á útsölu. Einnig þarf að líta til þess að orkan hérlendis er ekki ótakmörkuð og hún er líka smáræði í samanburði við orkuþörf iðnvæddra þjóða.

Sigurður G. Tómasson, 11.4.2006 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband