Hundslappadrífa var á

    Sú saga var mér einu sinni sögð til marks um snilld Halldórs Laxness, að hann hefði í þýðingu sinni á Birtingi Voltaires staðið frammi fyrir langri lýsingu höfundarins á snjókomu. Halldór þýddi þessa löngu og íturnákvæmu frásögn Voltaires með einni setningu: Hundslappadrífa var á. Og þannig var það um hádegisbil í Þingvallasveit í dag. Í gær var fallegt en kalt. Það lægði með kvöldinu og tunglskinið var fallegt í hægri norðanátt. Í morgun sá ég til hrafnanna sem ég færði lambalæri sem ég fann á botninum á frystikistunni. Þeir settu ekki fyrir sig blessaðir að það var komið nokkur ár fram yfir síðasta söludag.

    En fleiri fuglar voru á ferð. Þrír þrestir flugu fyrir glugg, svanir sungu fyrir neðan Skálbrekku og grágæsapar var að leita að grasnál meðfram lindinni. Ekki er ég viss um að þau hafi fundið neitt. Grágæs hefur reyndar fjölgað nokkuð í sveitinni síðustu ár og sum árin hafa verið tvö hreiður í mýrinni upp við ásinn. Þrestir voru aldrei að vetrarlagi í Þingvallasveit en nú hef ég þá grunaða um að halda þar til allan ársins hring. Þeim hefur fjölgað mikið, eftir að ræktun óx við sumarbústaði .

    Og reyndar einnig í Vinaskógi, þar sem tré eru að nálgast þriggja metra hæð, þau hæstu. Verður þó ekki sagt að þar hafi verið settar fljótvaxnar tegundir: Birki, Reyniviður og Gulvíðir. Það var skilyrði að eingöngu yrðu gróðursettar íslenskar tegundir. En þótt tegundin sé íslensk er ekki sjálfgefið uppruni plantnanna sé héðan. Þannig var talsvert af Reyniviði flutt hingað frá útlöndum og birki frá Noregi og veit enginn hvað er hvað með vissu. Þetta þykir mér jaðra við umhverfishræsni.

    Ef menn fylgdu þessari grunnreglu út í æsar hefði ekki átt að gróðursetja neitt sem ekki var upprunnið í Þingvallasveit. Reyndar held ég að það ætti að vera verkefni Þingvallanefndar að sjá til þess að valdar yrðu fallegar plöntur í Þjóðgarðinum og notaðar til markvissrar skógræktar. Það gæti verið liður í endurheimt landgæða. Þá ætti jafnframt fá hestamönnum einhvern annan stað en Skógarhóla og reyna að lagfæra þann fallega stað. Eftir tæplega áttatíu ára friðun er kominn tími til þess að landeyðing og uppblástur verði stöðvuð í þjóðgarðinum. Taka ber fram að uppblásturinn á sér ekki stað innan núverandi þjóðgarðsgirðingar.

    Og mér finnst undarleg þjóðernishyggja að setja sig upp á móti öllum útlendum plöntutegundum alls staðar. Þá er eins hægt að setja sig upp á móti útlendum dýrategundum, til dæmis öllum búsmala að ekki sé nú talað um hreindýrin. Lokahnykkinn mundum við svo taka með því að fara sjálfir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Það er nú þetta með ríkisborgararéttinn. Er lögheimili ekki miðað við sex mánaða búsetu á ári? Þá ætti náttúrlega að snúa farfuglunum við á tvöhundruðmílna mörkunum. Væri verðugt verkefni fyrir íslenska herinn. Sérðu ekki Björn Bjarnason fyrir þér í fullum herklæðum að skjóta á aðvífandi og leyfislausa hrossagauka. Og Haraldur Jóhannessen við hliðina á honum að hlaða.

En í alvöru, menn hafa lengi vitað að smáfuglarnir nota sunnanáttirnar til þess að létta sér farflugið hingað. Maður bara vonar að þessum norðanþræsingi fari að linna.

Sigurður G. Tómasson, 16.4.2006 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 45707

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband