Þjófur í Paradís

Var í Þingvallasveit í nótt. Vaknaði rétt eftir að sumar og vetur frusu saman. Þvílík dýrð, þvílík dásemd. Vatnið spegilslétt og gufan úr Henglinum steig lóðrétt til himins Alfreð til dýrðar. Sandey og Nesjaey spegluðust í logninu og bergmálið úr Arnarfellinu magnaði kallhljóð svananna. Uppi í móanum söng lóan dirrindí, þröstur á grein, hrossagaukur kallaði, rjúpukarri ropaði, skjannahvítur uppi á hól.

Þetta var reyndar fyrir allar aldir. Þegar leið að fótaferð dundi vélarskröltið á okkur. Forstjóri byggingafyrirtækis keypti sér sumarbústað þarna í fyrra fyrir tuttugu milljónir, lét rífa hann og komst í fréttirnar fyrir það að hafa orðið að nota þyrlu við að koma steypu í nýja bústaðinn. Og nú voru semsagt verkamenn að vinna þarna, með tvær vinnuvélar, sumardaginn fyrsta, besta dag ársins til þessa, daginn sem farfuglarnir komu í þessa sveit allra sveita.

Sá sem stendur fyrir þessum ófriði er líklega kominn á þennan stað til þess að njóta friðar. Svo á eftir að koma sér fyrir, byggja bátaskýli og setja á flot hraðbátinn, því maður nýtur ekki kyrrðarinnar nema hafa eins og tvö hundruð hestöfl til ráðstöfunar.

Þetta er í elsta þjóðgarði Íslendinga. Hann er nýlega kominn á heimsminjaskrá UNESCO. Þess vegna þykir einna mest áríðandi að fella barrtré.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr heyr Sigurður! Við alþýðufólkið hjótum að berjast fyrir rétti þeirra sem hafa erft bústaði á Alþingi og vilja njóta þeirra í friði frá pöpulnum.

Hvaða skoðun hefur þú annars á sægreifum og kvótakerfinu?

qwer@visir.is (IP-tala skráð) 20.4.2006 kl. 23:49

2 Smámynd: Sigrún

heyrðu veistu soldið skondið ! ég held við höfum verið í sömu costa del sol ferð, þar sem var skruppið til MAROKKÓ í einn dag í september 2004 - getur það passað? (vá það virkaði ekki svona langt síðan þegar ég pældi í því í gær:D) Hehe .. ég held ég hafi verið eini "unglingurinn" þarna og var með henni mömmu gömlu ;) vona að ég sé ekki að rugla algjöra steypu hérna :D hehe ..

Sigrún, 21.4.2006 kl. 01:45

3 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Peningar skipta ekki máli í þessu sambandi. Það sem máli skiptir er virðing fyrir náttúrunni og umhverfinu. Vélaskrölt og gauragangur átti til dæmis alls ekki við þennan dag í Þingvallasveit. Annað sem er líka til skaða eru stórir bátar, sem valda bæði hávaða og olíumengun. Sæþotur eru líka hvimleið nýbreytni á Þingvallvatni. En Sigrún, við vorum á Spáni, ég held 2004, og fórum í dagsferð til Marokkó.

Sigurður G. Tómasson, 21.4.2006 kl. 13:12

4 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Þú býrð heldur ekki í Þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Sigurður G. Tómasson, 24.4.2006 kl. 22:06

5 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Ég játa að ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara og kannski er eitthvað á ferðinni hjá þér sem hvorki snertir þessa umræðu né kemur mér við.
Það eina sem ég var að fást um var að vélarskrölt spillti besta degi vorsins til þessa. Ég er reyndar líka þeirrar skoðunar að hávaði í þjóðgarðinum - og reyndar fleiri náttúruparadísum - sé óþolandi. Í þjóðgarðinum starfar fólk við gæslu en auðvitað verður að treysta á löghlýðni almennings. Og meðal annarra orða. Umferð vélbáta er bönnuð á Elliðavatni, eftir því sem ég best veit. Annars var ég hugsi um hvort ég ætti að svara þessari athugasemd. Umræðunni við þig "Mikael Mánar" er hér með lokið af minni hálfu.

Sigurður G. Tómasson, 25.4.2006 kl. 20:56

6 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Mikael Mánar, þú ættir að fara varlega í að saka menn um að apa eftir öðrum, skoðanir fólks hér eru þeirra eigin, nema annað komi fram.

Einnig á ég erfitt með að skilja hvað þú sérð athugavert við að vilja ró og friðsemd í stað framkvæmda í friðuðum þjóðgarði? Auðvitað var enginn að agnúast útí iðnaðarmennina sem voru að vinna sína vinnu.

Hitt er svo annað mál hvort það sé ekki örlítill æsingur í þessum nýjasta sumaríbúa Þingvalla að láta framkvæma á sumardaginn fyrsta, þegar einmitt miklar líkur eru á fjölda fólks á svæðinu, öll í leit að friði og ró.

Einnig skil ég ekki alveg afhverju þú vilt flokka þig sem "SVONA MAÐUR" ? Ert þú einn af þeim einstaklingum sem trúa því að peningar veiti þeim þau forréttindi að þurfa ekki að taka tillit til meðborgara sinna -- ef svo er, þá kemur það a.m.k. mér á óvart.

Steinn E. Sigurðarson, 26.4.2006 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

einherji

Höfundur

Sigurður G. Tómasson
Sigurður G. Tómasson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...urgtomasson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 45686

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband