23.6.2006 | 09:56
Það er komið gat á himininn
Einu sinni var mér sögð sú saga frá rigningarsumrinu 1955, að einn daginn hefði barn komið hlaupandi inn til móður sinnar, þar sem þau voru hér rétt fyrir ofan bæ, og hrópað óðamála: "Mamma, mamma, það er komið gat á himininn!" Þá sá nefnilega upp í bláan himin, í fyrsta skipti í nokkrar vikur. Barnið mundi ekki eftir að hafa séð þennan torkennilega bláa lit áður.
Það var reyndar líka þetta vor, sem Brynki Melsted, sem var á leið til Reykjavíkur að ná í áburð fyrir bónda uppi í hrepp, sneri við í Fóelluvötnunum, því hann sá á þeim, að óþurrkasumar var framundan. Þá var ekki ástæða til þess að sóa peningum í áburð!
Ef ég ætti móður á lífi hefði ég farið til hennar á dögunum og rifjað upp þessa sögu um gatið á himninum, þegar brá til sólarglætu hér á suðvesturhorninu eftir langa kulda- og vætutíð. Hún hefði þá sjálfsagt líka rifjað upp, að þetta sumar var hún með mig, á fimmta ári, í litlum sumarbústað í Þingvallasveit. Þar var mín helsta skemmtun að standa undir rennunni, ja þegar ég var ekki að sulla í læknum. Flest kvöld var snúran yfir kabyssunni þunghlaðin af blautum fötum. En ekki man ég til að rigningin og bleytan hafi angrað mig, þótt mamma hafi þurft að hafa fyrir lífinu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.6.2006 | 15:33
Það er of seint - það er komið á NFS
Í gamla daga gekk fólki stundum illa að fá leiðrétt mistök sem gerð voru í bönkum, stórfyrirtækjum eða ríkisstofnunum. Var þá gjarnan brugðist við eitthvað á þessa leið: "Nei, því miður við getum ekki leiðrétt þetta, þetta er komið í tölvu". Óupplýstur almenningur átti að trúa því og trúði sannarlega að ef eitthvað færi einhvern tímann inn í þessa voðalegu maskínu, tölvuna, væri aldrei hægt að breyta neinu aftur. Sennilega voru líka margir starfsmenn ófærir um að leiðrétta mistök. Flestir vita nú að þetta er tóm vitleysa, hvort sem þeir sem þetta sögðu trúðu því eða voru bara að notfæra sér fáfræði almennings.
En þessi græja, sem étur vitleysur og notar þær aftur og aftur er hins vegar til. Hún hefur nefnilega tekið sér bólfestu á fréttastofu NFS. Ef vitleysa kemst þar inn í fréttir, sem reyndar er ótrúlega oft, er eins og hún komist ekki út aftur.
Um daginn var sækjandi í máli um slys á Viðeyjarsundi kallaður verjandi. Þetta var svo endurtekið hvað eftir annað. Ágætir fréttaþulir tuggðu þetta upp aftur og aftur án þess að láta sér bregða. Satt að segja er ekki við því að búast að áhorf aukist, þegar vinnubrögðin eru ekki betri en þetta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.5.2006 | 22:48
Bush og aðrir hættulegir menn
Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur farið þess á leit við Bandaríkin að þau loki fangabúðum sínum við Guantanamoflóa á Kúbu og öðrum fangelsum þar sem þeir halda fólki föngnu án dóms og laga. Þá fór nefndin þess á leit við Bandaríkin að þau hættu pyntingum og ígildi þeirra. Þess er vert að geta að Bandaríkjaþing, þar sem repúblikanar eru í meirihluta, sá ástæðu til þess fyrir skemmstu að setja sérstök lög sem banna Bandaríkjamönnum að pynta fanga. Líklega hefðu þeir ekki sett þessi lög ef ástæðulaust væri að óttast um fangana. Stjórnvöld segja á hinn bóginn að fangarnir séu hættulegir menn.
Sjálfsagt eru einhverjir af þeim sem gripnir hafa verið hinir örgustu glæpamenn. Og þá ber að ákæra. Hið snarasta. En að halda fólki á fimmta ár án ákæru er auðvitað glæpur í sjálfu sér. Og nú er líka komið fram í fréttum að það er ekki einu sinni hægt að yfirheyra alla. Vegna skorts á túlkum! Eigum við að trúa því að sumir af þessum hættulegu mönnum séu svo stórkostlega hættulegir að það sé ekki einu sinni hægt að finna túlka til þess að yfirheyra þá. Í fimm ár. Hvernig mundu menn taka því á Vesturlöndum ef t.a.m. manni sem grunaður væri um morð væri haldið án ákæru og hugsanlega án yfirheyrslna í fjögur til fimm ár?
Bandaríkin hafa nánast fram að þessu verið í fylkingarbrjósti frelsisunnandi manna í veröldinni. En síðustu árin hafa verið einstrengingslegir peningamenn og vopnasalar verið þar við völd sem trúa á mátt valdsins. Vonandi lýkur þessari löngu nótt í Bandaríkjunum fljótlega. Þess óska allir sannir velunnarar þessarar ágætu þjóðar.
![]() |
Bandaríkin segja meðferð á föngum í Guantanamo vera skv. bandarískum lögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.5.2006 | 10:39
Mega Bandaríkjamenn pynta fanga?
Eins og fram kemur í fréttinni er þetta í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn svara spurningum þessarar nefndar eftir að Bush hóf hið svokallaða stríð gegn hryðjuverkum. Margir hafa haldið því fram að mjög hafi sigið á ógæfuhlið í mannréttindamálum vestra eftir það.
Eitt af því sem mannréttindasamtök halda fram er það að Bandaríkjamenn beiti fanga vatnspyntingum og neiti að fallast á að skilgreina þær sem pyntingar. Alkunna er að þeir halda hundruðum manna án dóms og laga í búðum sínum í Guantanamo á Kúbu og haga einfaldlega skýringum sínum á því eins og þeim hentar, þannig að fangarnir eru hvorki stríðsfangar í skilgreiningu Genfarsáttmálans, né falla þeir undir bandarísk lög. Því er hægt að halda þeim, án ákæru árum saman, utan laga og réttar. Síðustu yfirlysingar bandarískra stjórnvalda eru sérstaklega hræsnisfullar, því þeir segjast ekki vilja sleppa föngum af ótta við að þeir muni sæta illri meðferð heima hjá sér!
Þá hefur komið fram að Bandaríkjamenn hafa handtekið menn og flutt milli landa, og þeir endað í fangelsum landa þar sem pyntingar eru stundaðar. Staðfest dæmi eru um þetta en grunur leikur á að hundruð manna hafi verið flutt milli landa með þessum hætti.
Þá hafa bandarískir ráðamenn hvað eftir annað samið álitsgerðir og leiðbeiningar um það hversu nærri föngum megi ganga í yfirheyrslum og hvaða alþjóðasamþykktir eigi við. Spurningar hljóta að vakna um tilgang þessara álita og skýrslna.
Mannréttindasamtök segjast hafa upplýsingar um uþb. 600 tilvik þar sem bandarískir hermenn hafi beitt fanga ólöglegu harðræði. Einungis á sjötta tug hafa komið fyrir dómstóla og miklu færri hermenn hafa verið dæmdir.
Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í Genf.
![]() |
Bandaríkjamenn yfirheyrðir um pyntingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.5.2006 | 12:42
Slæm hugmynd
![]() |
Árbæjarsafn út í Viðey? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2006 | 17:03
Gegn betri vitund
Satt að segja er hlálegt að lesa yfirlýsingar bandarískra ráðamanna þessa dagana. Komið er á daginn, að upplýsingar um gereyðingarvopn Íraka voru í besta falli ýktar í versta falli uppspuni og ráðamönnum var gert viðvart um staðreyndir málsins. Þeir mistúlkuðu líka viljandi upplýsingar sem fengust eftir að innrásinni lauk. Og þeir segja að friðsamlegar horfi í Írak þótt árásum og hermdarverkum hafi fjölgað um helming. Nú setur Bush traust sitt á að takist að mynda starfhæfa stjórn í landinu en marga mánuði hefur tekist að ná saman um forsætisráðherra. Vonandi tekst að koma á lýðræði í landinu en láir mönnum einhver þótt þeir séu svartsýnir?
Jafnframt stefnir Bush fjárhag landsins í voða vegna hernaðarútgjaldanna og aldrei hafa Bandaríkjamenn verið jafn óvinsælir í heiminum, ekki einu sinni þegar kalda stríðið var í algleymingi. Enn hafa þeir íslenskir stjórnmálamenn sem öttu Íslendingum út í þetta forað ekki þurft að gjalda óþurftarverka sinna. En að því hlýtur að koma.
Þeirri spurningu hefur heldur ekki verið svarað afdráttarlaust: Hvers vegna í ósköpunum önuðu Bandaríkjamenn út í þetta dý?
![]() |
Bush segir að Bandaríkin hafi tekið stór skref í sigurátt í Írak |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.4.2006 kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2006 | 15:34
"Hinn síðfrjóva hegg"
Var að koma að utan úr stuttri gönguferð. Sá raunar að heggirnir í garðinum eru óðum að laufgast. Það leiddi hugann að lokamálsgreininni í Gerplu Halldórs Laxness:"Þá var túngl geingið undir og felur nóttin dal og hól á Stiklarstöðum, og svo hinn síðfrjóva hegg." Mér hafa sagt staðkunnugir að heggur vaxi ekki á Stiklarstöðum og svo kann að vera álitamál hvort hann er tiltakanlega síðfrjór.
En þetta er náttúrlega allt skáldaleyfi. En svo vikið sé að þessu merkilega tré, þá minnir mig að það sé með elstu blómstrandi runnum sem Íslendingar reyndu að rækta í görðum sínum, þótt ekki hafi það verið í fyrsta hópi þeirra plantna sem Schierbeck landlæknir setti niður hér undir lok 19. aldar. En hegg er að finna þar sem áður var uppvaxtarbeð í reit Skógræktarfélags Reykjavíkur hins elsta, við Rauðavatn. Svo hann gæti hafa verið kominn hér um aldamótin 1900.
Og eitt er víst, hann vex ljómandi vel hér og plöntur sem sprottið hafa upp af fræi af trjám sem hér vaxa eru oft blómviljugri og sterkari en innfluttar plöntur. Þannig er það reyndar um fleiri plöntur. Ég hef oft undrast hvað Reykjavíkurborg gróðursetur lítið af merkilegum trjám og blómstrandi runnum á opnum svæðum í borginni. Ég held að það stafi meðfram af því að fagkunnáttu á trjárækt hefur vantað. Ég ætla ekki að nefna dæmi um þetta, sem ég þó þekki, en vona bara að þetta sé að breytast.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2006 | 23:57
Það skal!
Ég spurði víst um daginn hvort vorið væri komið. Svo reyndist ekki vera. Ekki þá. Svaraði mér sjálfur nokkrum dögum seinna, eða réttara sagt reyndi að telja mér trú um það, því ég sá tvo tjalda hérna úti í dal, að nú hlyti að vera komið að því. Þetta dugði ekkert. Það snjóaði og fraus. Enn fannst mér þetta hlyti að vera komið, þegar ég sá blómstrandi túnfífilinn brosa upp í sólina einn daginn. Það reyndist líka vera óskhyggja.
En nú var ég að koma úr Þingvallasveit. Þar reyndu hundruð hrossagauka, lóur, stelkar, stokkendur gæsir og himbrimar allt hvað þau gátu til þess að sannfæra mig um að allt horfði nú til betri vegar, vorið væri komið. Sérstaklega var hrossagaukurinn sannfærandi. Og þá var ekki síður sannur tónninn í kalli himbrimans sem ómaði undan Arnarfellinu. Lóan var að vísu svolítið veik á díinu. En það er hennar eðli.
Og þrátt fyrir þessi þjófstört og þrengingar undanfarinna vikna lét ég sannfærast. Ég lét mig meira að segja hafa það að fara í síðar nærbuxur og ullarsokka, smeygja mér í vöðlurnar og vaða út í vatnið sem er varla tveggja stiga heitt þarna við Dyrhólmann. Ekkert vildi hann hjá mér. En vakti og skvetti sér, enda fluga í lofti, vorfluga, steinfluga og toppfluga.
Sá hann sem sagt. Reyndar er það svo að mér hefur sjaldan gengið nokkuð að ná fiski fyrr en vatnið er farið að hitna svolítið. Engu að síður veit ég og viðurkenni að ég mun grípa hverja góðviðrisstund sem gefst til þess að egna fyrir hann með mínum ómótstæðilegu flugum. Og ég veit líka að það verður eins og með vorið sem kemur á endanum
Ég enda á því að fá hann.
Bloggar | Breytt 29.4.2006 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2006 | 11:54
Espressókaffi hættulegt?
Sé í þessari frétt mbl.is að kaffi er ekki hættulegt eins og margir hafa þó haldið fram. Þó er bara um að ræða kaffi sem hellt er á í gegnum pappírsfilter.
Jamm. Espressó og pressukaffi er semsagt hættulegt. Eða hvað? Þetta er bandarísk könnun og þar drekkur enginn kaffi nema úr uppáhellingar-pappírsfilterkönnum. Og reyndar yfirleitt ódrekkandi, illa brennt, skolp. Að vísu er á seinni árum hægt að fá almennilegt kaffi á veitingahúsum.
En á maður að trúa þessu? Áratugum saman var okkur sagt að borða smjörlíki í staðinn fyrir smjör. Nú er komið í ljós að í smjörlíki eru hættulegar fitusýrur, svokallaðar trans- fitusýrur en smjör og dýrafita er ekki eins óholl og talið var. Menn eru reyndar að komast að þeirri vísindalegu niðurstöðu sem forfeður okkar vissu af reynslunni að það er óhófið sem er hættulegast. "Það er óhollt að borða sig saddan", sagði íslenskur búnaðarfrömuður þegar vinnumenn hans vildu fá meira að éta. Ofgnóttin, hreyfingarleysið og ýmis verksmiðjuframleiddur og meðhöndlaður matur eru sennilega verstu óvinirnir.
Ég held ótrauður áfram að drekka mitt espressókaffi.
![]() |
Uppáhellt kaffi er ekki heilsuspillandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.4.2006 | 14:08
Sóðar á ferð
Sá í grein í NYT í morgun um að aftur er farið að krota í jarðlestina í New York. Þegar ég kom fyrst til borgarinnar sá maður hvergi út um glugga á vögnunum fyrir kroti. Eftir árangursríka herferð stjórnvalda hvarf þetta nær algjörlega og hélst reyndar í hendur við stórkostlega fækkun glæpa. Nú hefur um alllangt árabil verið óhætt að fara með jarðlestinni á kvöldin og jafnvel á endastöð. Þegar ástandið var verst fór fólk helst ekki í lestina eftir kvöldmat. Þá hefur líka lítið borið á kroti, þar til nú. Sóðarnir, því sóðaskapur er þetta og á ekkert skylt við list, hafa tekið í notkun nýtt efni, sýru sem blönduð er lit og tærir rúðurnar. Talið er að það geti kostað stórfé að bregðst við þessu.
Þetta leiðir hugann að íslenskum sóðum, sem krota allt út. Mér hefur lengi fundist þetta hvimleitt. Meðal annars vegna þess að yfirleitt er um að ræða meiningarlaust, áráttubundið krot sem veldur spjöllum á umhverfi okkar. Langoftast hefur það ekkert listrænt gildi og segir manni ekkert nema að krotarinn eigi við vandamál að stríða: Áráttubundinn sóðaskap sem beinist að samborgurunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
einherji
Bloggvinir
-
malacai
-
gusti-kr-ingur
-
hof
-
arogsid
-
asarich
-
hugdettan
-
arh
-
baldurkr
-
kaffi
-
bergurben
-
begga
-
bibb
-
eurovision
-
dabbi
-
dofri
-
egillrunar
-
esgesg
-
esv
-
elinora
-
estersv
-
eysteinn
-
fsfi
-
fridrikof
-
gesturgudjonsson
-
gislihjalmar
-
gudjonbergmann
-
zumann
-
orri
-
gunnarfreyr
-
guru
-
halldorbaldursson
-
doriborg
-
kiddih
-
hallurg
-
hallurmagg
-
handsprengja
-
heidar
-
730
-
hildurhelgas
-
hlynurh
-
kolgrimur
-
hlodver
-
hrannarb
-
hvitiriddarinn
-
ibbasig
-
ingibjorgelsa
-
jara
-
ingo
-
jensgud
-
skallinn
-
jonthorolafsson
-
jullibrjans
-
julli
-
juliusvalsson
-
krist
-
hjolaferd
-
ladyelin
-
mariakr
-
sax
-
leifurl
-
poppoli
-
ofansveitamadur
-
solir
-
omarbjarki
-
vestskafttenor
-
pallieinars
-
palmig
-
raggipalli
-
rheidur
-
rungis
-
bullarinn
-
xsnv
-
sigfus
-
safi
-
siggivalur
-
fletcher
-
ses
-
kosningar
-
garibald
-
torfusamtokin
-
tommi
-
eggmann
-
villagunn
-
steinibriem
-
thoragud
-
thordistinna
-
thorolfursfinnsson
-
aevark
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar